Pétur frændi

Um daginn var hátíð í Kópavoginum af tilefni þess að 60 ár voru liðin frá því að Hulda Jakobsdóttir varð bæjarstjóri í Kópavogi.  Ég ætlaði að reyna að tengja inná þá frétt en fann hana ekki á mbl.is. Ég komst heldur ekki á hátiðina/fundinn sem ég hefði gjarnan viljað vera því ég tel sögu Kópavogs mjög merkilega og þær áherslur sem þar voru lagðar.  Þar var t.d. fljótt mjög mikil áhersla á skóla og leikskólamál.  

Ég er með skátenginu í fólk sem á ættir sýnar að rekja til Marbakka.  Pétur Þórs frændi minn giftist Huldu Finnbogadóttur og bjó með henni í nokkur ár á Marbakka.  Ég áttaði mig seint á tenginunni enda prófessor og sveimhugi hvað margt varðar.  Ég hafði átt í samskiptum við Elínu Smára sem er dóttir Huldu því við höfðum í sambandi við vinnu okkar haldið fundi víða um landið.  Pétur varð semsagt stjúpi hennar.

Pétur Þórs frændi minn var sérstakur karakter.  Hann var svona hlýr töffari.  Ég man eftir ættarmóti sem haldið var í Fljótunum árið 2000, þá sat Pétur úti í sólinni og analyseraði ungviðið í fjölskyldunni.  Ég varð mjög ánægð þegar hann sagði við mig að strákurinn minn væri mikið í mína ætt - einhvern veginn gladdi það mig mikið.  


Skundum á Þingvöll

Gaman - einn enn bloggvinur kominn í hópinn hjá mér - þetta er rífandi gangur bara.  Það er Rósin, eða Rósa Guðrún Erlingsdóttir - takk fyrir þetta Rósa.  Ég hitti hana fyrir nokkrum árum, þá sá hún um undirbúning og umsjón á baráttu og afmælishátið sem haldin var á Þingvöllum 19. júní 2005.  Þá var ég formaður Kvennakórs Reykjavíkur sem fenginn var til að syngja á Þingvöllum ásamt Diddú og var mjög gott að eiga samstarf við Rósu.  Ég hef aðeins fylgst með blogginu hennar uppá siðkastið eftir að ég uppgötvaði að þetta var hún.  

Dagurinn 19. júní 2005 var mjög skemmtilegur dagur, mjög gaman að hlusta á þær konur sem þarna voru með ræður sem voru man ég Vigdís fyrrverandi forseti vor og Kristín Ásgeirs, einnig voru þarna flutt ljóð, sungið, fjallkonur stóðu á hamrabrúnum, blóm í drekkingarhyl og ýmislegt fleira. 

Það var alveg rosaleg rigning þennan dag á Þingvöllum en það skipti engu máli. 


Slóðir internetsins

Er komin með annan bloggvin, Salvöru, því ég tók áskorun Daggar um að biðja Salvöru um að vera bloggvin minn.  Og Salvör samþykkti það - takk fyrir það Salvör.

Salvör kenndi mér á slóðir internetsins og er mesta hugsjónamanneskja um internetið sem ég hef hitt hingað til.

Ég er ennþá í einhverju basli með tæknina við að blogga er í því að leiðrétta hitt og þetta og læra á að setja inn tengla og guð má vita hvað.  Kannski verður þetta einhverntímann barn í brók hjá mér.

Ég setti líka upp blogg á blogspot.com, veit ekki af hverju en ætla að sjá til.  Slóðin á það blogg er: http://gudrunshil.blogspot.com/ .

Ein enn bloggandi frænkan bættist við tenglasafnið mitt, það er hún Védís sem er í heimsreisu um Mosambík, Suður-Afríku, Frakkland og Spán.  Védís ferðast um með geitum sínum, sem eru dætur hennar tvær.  Ég hef aldrei skilið þessa nafngift Védísar á dætrunum en furðulegt nokk þá venst maður því ágætlega. 


Tempó og tempó

Komin með einn bloggvin, við Dögg Páls vorum saman í Menntó á hinni öldinni.  Takk Dögg fyrir að samþykkja mig sem bloggvin.  Er búin að leita og leita að Glóríunni á Google á þeim hraða sem mér líkar.  Það hefur gengið heldur illa.  Annað hvort er tempóið of hægt eða og hratt.  En þetta youtubevídeó er næst þeim hraða sem mér finnst flottur á Glóríunni hans Vivaldi:

http://youtube.com/watch?v=ZAKdQAheiT4


Gloria in Excelsis Deo

Mikið rosalega væri ég til í að syngja í kór sem væri þannig að hver sem er gæti farið inní kórinn hvenær sem er og síðan út úr honum aftur.  Tónlistarmenn væru líka velkomnir í kórinn/hópinn sem spilarar.  Þetta væri svona frjálsræðiskór og hljómsveit - Frjálsræðissveit.

Í Frjálsræðissveitinni gæti hver og einn komið með óskir um lag sem sveitin gæti æft en aðalkraftur Frjálsræðissveitarinnar færi í sjálfsflutning/æfingar því það væri ekki aðalatriðið að troða upp heldur að komast í þannig hóp að maður gæti tekið þátt í því að syngja og/eða spila músík sem þarf fleiri en fimm til að koma vel út.

Fyrsta óskalagið mitt í Frjálsræðiskórnum væri kórinn Gloría, Gloría eftir Vivaldi og þó að ég sé þessi rosalega glæsilegi fyrsti sópran þá finnst mér altinn í þessum kór svo flottur að ég myndi vilja fá að syngja hann.  Það er að segja altinn í þessum tiltekna kór.  Ætla að reyna að setja þessa Gloríu Vivaldis inní músík, veit ekki hvort það tekst.


Að blogga

Salvör Gissurar kom mér á bragðið með að blogga.  Ég sé að hún er með 1004 bloggvini.  Ég kann ekki við að biðja hana um að vera bloggvinur minn en ég hef núna í augnablikinu tekið þá ákvörðun að biðja bara þá á Moggablogginu sem ég hef hitt persónulega um að vera bloggvinur.  Er þetta mikið atriði við að blogga?  Hvað ætli sé aðalatriði? Veit ekki - kemur í ljós.

 

 


Prufa á bloggi

Dagurinn farinn að styttast aftur.  Þetta er prufa á bloggi.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband