Catch 22

Ég hef lýst þeirri skoðun minni að mér finnist vafasamt að Ísland taki einhverja milljarðatugi að láni erlendis frá til að koma fótum undir krónuna.  Ég verð að játa að ég er smeyk um það að þeir gjaldeyrismilljarðatugir streymi aðeins óhindrað burt frá litla Íslandi í hendur þeirra afla sem hafa komið okkur óhindrað í þessa stöðu.  Og skiji þar með okkur eftir í enn meiri skuldasúpu en fyrir er og er ekki á það ástand bætandi.  Ég held að yfirvöld verið að skýra með greinagóðum hætti með hvaða hætti þau ætla að forða landinu frá slíkum örlögum.  Verður það alveg gegnsætt hvernig þessum lánspeningum verður varið?  Hingað til hefur ekki nokkurn skapaður hlutur verið gegnsær í þessari efnahagskreppu og ég er ekki of bjarsýn á það að yfirvöld telji nokkra ástæðu til þess að skipta um gír.  Það verða notaðir áfram einhverjir frasar um trúnað og bankaleynd og ég veit ekki hvað og hvað.  Við, lántakendurnir og lánagreiðendurnir fáum ekki að vita til hvers við tókum þessi risalán, né hverjir eiga eftir að fá þau afhent.  Ég er allavega dálítið smeyk um að svo verði.

En kannski þarf ég ekkert að hafa neinar áhyggjur af þessum risalánum.  Nú virðumst við Íslendingar vera komin í einhverskonar catch 22 stöðu.  Við fáum ekki lán frá IMF nema búið sé að ganga frá viðbótarlánum frá öðrum löndum.  Svíar vilja ekki lána okkur nema búið sé að ganga frá málum hjá IMf.  Þannig bendir hver á annan.


Sannleikurinn er sagna bestur

Ég fann þetta myndband á youtube sem sýnir stemninguna sem var á Austurvelli í gær og þá sérstaklega við Alþingishúsið.  Ég var hinum megin á Austurvellinum og gerði mér ekki grein fyrir þeim hluta mótmælanna sem fram fór þar fram nema flöggun Bónusfánans. Finnst að mörgu leyti að of mikið sé hampað ólátum í umfjöllun um mótmælin.  

Það vantar aðeins á þetta myndband að það heyrist í ræðumönnum og þeirra boðskapur.  Hins vegar sést vel þarna unga fólkið sem var töluvert af í gær sem kom mér dálitið á óvart.  Unga fólkið okkar er bæði reitt og biturt.  Það getur vel verið að reiði sé ekki til alls góð.  En fólk er eki bara reitt heldur einnig vonsvikið. Vonsvikið yfir því að allir þeir sem hafa valist til þess að halda uppi merki landsins og verja það áföllum hafa brugðist.  


Lán og lán

Eitthvað virðist lánið vera valt hjá okkur Íslendingum þessa dagana.  Allavega liggur IMF lánið ekki á lausu fyrir okkur svo mikið er víst.  Ég er mjög hugsi yfir öllum þessum lánum sem mér er sagt að ég verði að taka.  Af hverju þarf ég að taka öllu þessi lán?  Mér finnst það engan veginn skýrt, það er bara hamrað og hamrað á því að við verðum að fá lán og þurfum að fá lán.  Upphæðirnar eru mjög óljósar, þar finnst mér vera skákað í því skjólinu að gengi íslensku krónunnar sé óljóst.  Það er talað um lán í dollurum og evrum og ég veit ekki hvað og hvað.  Hundruðir milljarða hér og hundruðir milljarðar þar.  Um þessi lán er fjallað eins og það sé engin spurning að við þurfum þessi lán.  Enn spyr ég - til hvers erum við að taka þessi lán? Hverjar eru upphæðirnar í íslenskum krónum, hvaða vaxtakjör eru lánin á, til hve langan tíma og hverjar verða árlegar afborgarnir lánanna í íslenskum krónum?  Eru þessar upplýsingar allar eitt allsherjar hernaðarleyndarmál?  

Þar sem ég sem Íslendingur er að taka þessi lán þá er það lágmarkskrafa að útskýrt sé fyrir mér með skiljanlegum hætti af hverju ég sé að taka lánin og hvernig ég skuli greiða þau til baka.  Ef á að halda áfram með óljósar yfirlýsingar um þörf á lántöku minni án þess að ég fái á nokkurn hátt botn í það af hverju þá vil ég ekkert taka þessi lán.  Og ef einhver ætlar að taka lán núna út fyrir hina íslensku þjóð og þar með mína kennitölu án þess að ég fái á nokkurn hátt ráðið við það, né skilið af hverju, né fengið upplýsingar um það á neinn hátt finnst mér það mjög vafasöm aðgerð svo ekki sé meira sagt.  


Víðari sýn

Ég skrapp í nokkra daga til Noregs.  Þar sá ég í sjónvarpinu eitt kvöldið viðtal við norska forsætisráðherrann Jens Stoltenberg.  Þar voru efnahagsmálin í Noregi til umræðu og spyrillinn spurði á einum tímapunkti.  Er einhver hætta á því að norskt efnahagslíf lendi í sömu krísu og íslenskt efnahagslíf stendur núna frammi fyrir?  Svarið hjá Jens Stoltenberg var á þá lund að engin hætta væri á því að sú staða kæmi upp.  Norsk efnahagslíf væri öflugt, stæði á sterkum fótum og hefði traustar undirstöður.

Ég efast ekki um að Jens Stoltenberg telur örugglega að hann sé ekki að fara með neinar fleipur um stöðu efnahagslífsins í Noregi.  Það getur líka vel verið að þetta sé allt satt og rétt hjá honum.  Hins vegar voru svörin hjá honum alveg nákvæmlega þau sömu og allir bankastjórarnir fyrrverandi og bankastjóraformennirnir fyrrverandi báru fram fyrir okkur þjóðina hér fyrir einum og hálfum mánuði eða svo.  Og ég man ekki betur en að fleiri en bankamennirnir svo sem eins og einn og einn ráðamaður  hafi einnig viðhaft þessi sömu orð um öflugt efnahagslíf, traustar undirstöður, öfluga banka, miklar eignir og ég veit ekki hvað og hvað.

Ekki var nú mikið að marka þessar yfirlýsingar allar saman sem menn báru á borð fyrir okkur fram í rauðan dauðann.  Hér eftir trúi ég ekki einu einasta orði frá mönnum í sjónvarpinu sem fer að tala um traustar undirstöður og öflugt efnahagslíf.  Alveg sama hver sá maður er og hvaðan.  


Að spara

Miðað við hvernig farið hefur nú fyrir sparnaði fólks hér á landi virðist eitt hafa komið út úr öllum þessum bankahremmingum hér á landi.  Það vitlausasta sem hver maður gerir hér á landi er að spara.  Sparnaður fólks er að brenna upp í þessu töluðu orðum, annað hvort vegna þess að sparnaðurinn hefur verið inná peningasjóðum bankanna þar sem ég held að fólk fái til baka helming af því sem það setti þar inn.  Annar sparnaður er að brenna á verðbólgubálinu sem kaumar þessa dagana, hversu stórt það bál er veit enginn því enginn veit hver staða krónunnar er þessa stundina.

Svo eru það lífeyrissjóðirnir okkar góðu, og allur sérlífeyrissparnaðurinn.  Ég veit ekki hve oft hefur verið farið fögrum orðum um lífeyrissjóðakerfið okkar og hve útlendingar öfunduðu okkur af því og ég veit ekki hvað.  Hvernig er staðan með þann sparnað landsmanna núna?  Það er mjög óljóst og enginn sem getur gefið nein svör.  Er lífeyrisparnaði landsmanna etv.  bara best fyrir komið hjá hverjum og einum en ekki í einhverjum sjóðum?  Þá geti fólk valið það að sofa með lífeyririnn undir koddanum sínum í stað þess að hann hverfi í bankaspilavíti dauðans.


Svartur mánudagur - heimsóknarvinahugleiðing

Heimsóknarvinur síðunnar sendi inn hugleiðingu vegna atburða dagsins:

Svartur mánudagur - mottó:

Það saxast á mannasiðina

sæmdin liggur í valnum.

Það hallast á ógæfuhliðina

og harðnar á vandræðadalnum.

-----------------------------------

Dæmalaust er hann Davíð ennþá kartinn

dregur upp úr pyttinum stórgróðaliðið.

Það hlær í manni anskotans kvikindisartin,

enda er Glitnir kominn á rassgatið - ið

 

Mikil er þó lukka lýðfrjálsra þjóða,

líflína til sem kemur í veg fyrir hrapið,

einkavæða ágirnd og milljónagróða.

Eftir hrunið síðan að þjóðnýta tapið.

 

Um snilldina tæra við sjáum víða merkin

vesalingarnir týna upp lambaspörðin.

Ráðgóðum verða notadrjúg næturverkin,

nú má rifja upp heilræðið - öxin og jörðin.


Styttur bæjarins

Ég hef verið að spá í þetta með styttur bæjarins og karla og konur og alla þá umræðu.  Ég tók eftir því þegar við vorum í London fyrir tæpu ári síðan að þar voru mjög margar styttur hér og hvar.  Margar þeirra voru af einhverjum löngu dauðum herforingjum sem ég amk. hef ekki hugmynd um hverjir voru.  Mér fannst þessir herforingjastyttur dálítið fyndnar einhverra hluta vegna.  Þarna voru þessir herforingjar sem engir í dag vita hvorki haus né sporð á, sitjandi á hestum í fullum herklæðum, starandi með einhverri hernaðarlegri ákefð út í loftið.  Er þetta ekki bara einhver aldaspegill sem er að speglast í þessum herforingjastyttum þarna út í London?  Einhver áminning um það sem var?  Núna sitja herforingjarnir í byrgjum undir Pentagon og stara með hernaðarlegri ákefð á tölvuskjái ef maður á að trúa kvikmyndum.

Mín skoðun er sú að það eigi að setja fullt af styttum út um allt í Reykjavík og líka út um allt land ef menn eru þannig stemmdir.  En mér finnst líka að það vanti fleiri styttur af fullklæddum nafngreindum konum.  Ég held að það væri bara réttast til að ná fullri sanngirni og jafnrétti að skella út tveim og tveim styttum í einu, einni af karli og annari af konu.  Styttu af Tómasi og aðra af Ástu. 

Í framhjáhaldi við ég líka nefna að mér finnst að það ættu að vera miklu fleiri gosbrunnar og vatnshanar með drykkjarvatni út um allt.  Ég veit að það getur verið eitthvað vesen með vatnið út af öllu þessu frosti og þýðu dæmi í veðrinu en á þessu tæknivæddu tímum hlýtur að vera hægt að bjarga því.  Mér þykir alltaf frekar leiðinlegt að vatnshaninn hérna niðurá göngustígnum við Ægisíðuna er alltaf bilaður. 


Matsalarmálun

Ég hlustaði í smá stund í gærkvöldi á stjórnmálamann í sjónvarpinu mínu sem gerði samansemmerki yfir kjarasamningi ljósmæðra um daginn og að skipper á bát færi að mála matsalinn á skipinu í ólgusjó.  Mér finnst þetta dálítið merkileg niðurstaða hjá þessum stjórnmálamanni.  Ég veit ekki betur en að alþingismenn hafi fengið dágóðar launabætur um daginn, notabene án þess að þurfa að fara í verkfall né hafa fyrir þeirri matsalarmálun á nokkurn hátt.  Ég veit vel að þeir mega ekkert fara í verkfall grey fólkið en ég verð nú bara líka að benda á að þar sem Alþingi starfar aðeins um fjóra mánuði á ári, eða eru það kannski fimm, þá yrði maður etv. lítið var við það að alþingismenn færu yfirleitt í verkfall.  En þeir fengu nú úthlutað launahækkun um daginn og sú launahækkun var afturvirk meira að segja.  Af hverju má ekki bera þá launahækkun við matsalarmálun?  En þetta var útúrdúr. 

Það mun semsagt sliga þennan þjóðardall okkar Íslendinga að ríkið var nauðbeygt til að semja um 18%-23% hækkun til ljósmæðra.  Ég man eftir svipuðum röksemdum þegar Steinunn Valdís Óskarsdóttir tók á sig rögg og hækkaði laun hjá starfsmönnum leikskóla hjá Reykjavíkurborg.  Þá komu fram stjórnmálamenn í sjónvarpið mitt og lýstu því yfir að þessi gjörningur konunnar myndi steypa landinu í glötun.  Mín skoðun er sú að það eru ekki laun til handa láglaunastéttum eða launahækkun til handa kvennastétta ríkisins sem hafa sligað þjóðardallinn.  Þar hafa aðrir þættir eins og máttleysisleg efnahagsstjórn og frjálshyggjufjármálamarkaður gert margfalt meiri óskunda en launahækkun ljósmæðra.  Held að kallinn í brúnni ætti að hætta að velta sér uppúr fimmkallinum sem renna nú til ljósmæðra eftir síðustu kjarasamninga og snúa sér að því reyna að stemma stigu við þeim milljarðatugina sem hafa runnið viðstöðulaust til forstjóranna og lánaspegúlantanna. 


Haustlitir

Það voru fallegir litir í kringum Suðurgötuna við kirkjugarðinn í morgun.  Við vorum að keyra frá hringtorginu Suðurgötuna að Skothúsveg og ég rétt náði að virða fyrir mér trén í kirkjugarðinum og götumyndina.  Það er komin fallegar litasetteringar í trén og það var verulega fallegt að horfa norðureftir Suðurgötunni í morgun.

Mér finnst oft Reykjavík vera falleg á morgnanna þegar ég er að keyra leiðina yfir Skothúsveginn og yfir að Fríkirkjuvegi.  Tjörnin, trén og húsin allt getur verið bara nokkuð falleg oft á morgnanna en ég held að mér finnist það oftast á haustin.


Lögreglutölfræði

Ég las núna í morgun frásögn ungrar konu sem varð vitni að áras manns á vinkonu hennar í miðbænum.  Vinkonurnar höfðu samband við lögregluna þar sem þær lýstu árásarmanninum og árásinni.  Daginn eftir höfðu þær síðan aftur samband við lögregluna til að grennslast fyrir um það hvernig gengi með málið og hvort búið væri að handtaka manninn.  Þá var ekkert slíkt mál á skrá lögreglunnar og enginn kannaðist við nokkurn hlut.

Það hefur verið ýjað að því að innbrot og ýmis afbrot gegn fólki sé að aukast hér í Reykjavík.  Haldinn var m.a. fundur í Seljahverfi þar sem íbúar lýstu yfir áhyggjum sínum af fjölda innbrota i hús í hverfinu m.a. yfir hábjartan daginn meðan fólk sinnir sinni vinnu eða bara rétt bregður sér af bæ.  Lögreglan var þar til svara og hélt því fram að innbrot í hverfinu hefðu ekkert aukist.  Þetta væri allt bara á svipuðum nótum og áður hefði verið.  Svipuð svör hafa fengist varðandi önnur afbrot, jafnvel þótt mönnum hafi fundist að hér sé um töluverða aukningu að ræða frá því áður var.  En ef lögreglan er ekkert að skrá tilkynningar um innbrot og árásir þá er ekkert sérkennilegt við það að menn þar á bæ verði ekki varir við aukningu afbrota frá því sem áður var.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband