Veðursár

Ég er alltaf að berjast við eitt karaktereinkenni hjá sjálfri mér.  Ég er semsagt veðursár.  Þegar ég var yngri gat ég látið veðrið fara eitthvað rosalega í taugarnar á mér.  Ég man að pabbi sagði einhvern tímann við mig þegar ég var á Króknum og veðrið á staðnum mér ekki að skapi - Guðrún vertu ekki svona veðursár. 

Ég læt ekki stjórnast of mikið af veðursárindum og reyni að takast á við þetta einkenni mitt en ég játa að ég fann fyrir veðursárindum núna um helgina.  Sýnist sem svo að veðrið þetta haust ætli að verða frekar leiðinlegt og ég þurfi að finna mér einhvern krók á móti bragði.


Ein milljón eða tvær

Í gær voru menn í kringum mig að spá í eignir sínar í bönkunum og hvort þær væru tryggðar ef bankarnir færu nú flatt og yrðu hreinlega gjaldþrota.  Ég hélt að 1,7 milljónir króna innistæður í banka væru tryggðar af einhverjum tryggingarsjóði en var þó ekki viss.  Las síðan í gærkvöldi að um er að ræða um 2,5 milljónir króna.  Í þeirri grein var síðan þessi gullvæga setning - fólk sem á meira en þessa upphæð í banka á bara að dreifa upphæðunum milli bankanna.

Ég er ekki mikið með nefið ofaní hvers manns koppi né buddu en það er einn fullorðinn einstaklingur sem ég veit fyrir vissu að á meira en 2,5 milljónir króna á bankabók.  Umræddur einstaklingur er orðinn 82 ára gamall.  Mér er það mjög til efs að hann hafi fylgst með umræðum um hugsanleg gjaldþrot bankanna né að hann eigi bara að dreifa milljónunum sínum á milli bankanna til að vera öruggur um það að tapa öllu sparifénu nema títtnefndum 2,5 milljónum.  Ég þarf að drífa mig í að hringja í viðkomandi einstakling og útskýra fyrir honum að nú skuli hann bara drífa sig í að dreifa sparifénu sem víðast í bankana til að tryggja öryggi sitt.


Bara gera meira næst

Hér var afmælisveisla í gær.  Sonurinn verður fjórtán ára á morgun, sextánda september og við héldum uppá þann áfanga í gær.  Þetta var ekki stórt partý, aðeins nánasta fjölskylda mín sem var boðin til veislu.

Afmælisbarnið fékk að ráða veisluföngum og hann pantaði eina Pavlovu sem er hans uppáháldsterta.  Svo gerði ég eina nýja uppskrift, berjatertu en pabbi og mamma eru í bænum og höfðu með sér yndislega góð fersk aðalbláber úr Skagafirði.  Til að balansera þessi sætindi bauð ég síðan uppá heita brauðréttinn minn sem er mitt klassíska meistarastykki og vekur alltaf lukku.  Ég gerði bara einn skammt í þetta sinn af því mér fannst ekki það margir í veislunni.   Brauðrétturinn kláraðist fyrst af öllu og Kristel Eir, 11 ára frænka mín kvaddi mig í veislulok með þessum orðum:,, Gúa, brauðrétturinn þinn er alveg rosalega góður.  Mundu bara að gera meira af honum næst."  


Jafnlaunavottun

Ég get ekki að því gert en ég hef ekki mikla trú á þessu nýjasta jókerspili til að jafna laun kynjanna.  Jafnlaunavottun.  Hvaða ávinningur á að vera fyrir fyrirtæki til að fá þessa vottun ég spyr bara.  Núna viðgengst launamisrétti kynja í landinu hjá fyrirtækjum og stofnunum.  Þessi launamismunur viðgengst án þess að fyrirtæki eða hið opinbera skaðist á nokkurn skapaðan hlut.  Því í ósköpunum ættu þessi fyrirtæki og opinberar stofnanir að fara út í þann kostnað og naflaskoðun sem það væri að fá Jafnlaunavottun?  Nema það sé opinber stefna að opinberar stofnanir og fyrirtæki verði skyldug til að kaupa vörur og þjónustu aðeins af fyrirtækjum sem hafi slíka Jafnlaunavottun.  Að kaupa vörur og þjónustu frá fyrirtækjum sem ekki hefðu slíka vottun væri hreinlega bannað.  Þá etv. gæti slíkt fyrirbæri farið að bíta.  Fyrr ekki. 

En þá væri rétt að byrja á þar og setja slíkt bann í lög og reglugerðir.  Tímasetja það svona tvö ár fram í tímann.  Á þeim tíma ætti að gefast tækifæri til að koma á vottunarferlinu og votta fyrirtæki og hið opinbera í bak og fyrir.  Það er ef menn eru að meina eitthvað með þessu.  Sem eins og fram hefur komið ég hef ekki nokkra trú á.  Tel að hér sé verið að setja fram enn eitt jókerspilið á spilaborðið og að réttara væri að leiðrétta laun kvennastétta og kvenna og meta þeirra störf, nám og ábyrgð til jafns við karlastéttir og kara.  Byrja á því að leiðrétta laun ljósmæðra.


Hvað er mátulegur prósentumunur?

Formaður Samfylkingarinnar sagði í samtali við Stöð 2 í gær að vilji væri fyrir því í ríkisstjórninni að leiðrétta kjör ljósmæðra.  Það væri hins vegar of mikið í einu skrefi að leiðrétta laun ljósmæðra um 25%.

,,Það væri fróðlegt að vita hvað henni þætti mátulegt að konur væru mörgum prósentum undur körlum í launum" segir Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélagsins í lok þessarar fréttar í Stöð 2 í gærkvöldi vegna þessara ummæla formanns Samfylkingarinnar.  Ég tek undir þetta hjá formanni Ljósmæðrafélagsins.  Ég tel það svo sannalega tímabært að Samfylkingin leggi spilin á borðið og upplýsi hvað fylkingin telur mátulegan prósentumun á kjörum karla og kvenna hér á landi.  


Gliðnun hjá hinu opinbera

Það er mjög merkilegt að spá í öll þau orð og orðasamsetningar sem notaðar eru þegar fjallað er um launamun kynjanna.  Ótrúlega margir telja að það sé enginn launamunu á milli kynja.  Meðallaun kvenna í öllum starfstéttum sé lægri en karla, það sé jú rétt en en það séu skýringar á því.  Skýringarnar eru þær að konur séu verr menntaðar en karlar, vinni styttri vinnutíma en karlar, velji sér lægri launaðar starfsgreinar en karlar, konur séu ekki jafn duglegar að krefjast hærri launa en karlar, séu ekki jafn duglegar að fá hærri og betri launaðri stöður og karlar og konur séu ótryggari starfskraftar en karlar og svo má lengi telja.  Því sé það í raun eðlilegt að karlar hafi hærri meðallaun en konur og í raun konunum sjálfum að kenna að þær hafi ekki sömu meðlalaun og karlar.

Til að reyna að komast til móts við þessa umræðu hefur verið búið til fyrirbærið óútskýrður launamunur.  Þá á að vera búið að meta ýmsa áðurnefnda þætti inn í reiknimódelið.  Mér hefur svo sem fundist ágætt að menn séu eitthvað að reyna að bæta umræðuna með því að koma með slíkar reikningskúnstir því það er náttúrulega ekkert hægt að ræða málin um launamun kynjanna við fólk sem heldur því fram að það sé enginn slíkur launamunur á Íslandi.   Ég er samt ekki viss, þó umræða sé góð þá verð ég að segja að þessi umræða gengur hvorki lönd né strönd.  Konur einfaldlega lægra metnar ern karlar í þessu þjóðfélagi.  Það er augljóst og sést svart á hvítu á mun á kjörum kvenna og karla.  Allt sparital og hjal um jafnrétti kynjanna er aðeins á orði hjá forsvarsmönnum þjóðarinnar og atvinnulífs.  Upp á borðum er annað.  Þar viðgengst sprungulaust misrétti.

Og nú er komið enn eitt orðið varðandi launamuninn - gliðnun.  Nú hefur orðið gliðnun á kynbundnum launamun hjá hinu opinbera.  Og Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra er með þrjár nefndir á sínum snærum sem hafa nú fengið það viðbótarverkefni að skoða hvað það er í hinu opinbera kerfi sem orsakar þessa gliðnun.  En á meðan nefndirnar eru að störfum þá skjögra sængurkonurnar heim með nýfæddu börnin sín sex klukkustundum eftir að hafa komið þeim í heiminn.  En það ástand hlýtur að lagast því nú er búið að kæra ljósmæður fyrir að hafa sagt upp störfum.  Það hlýtur að vera hægt að kæra þær inn á sjúkrahúsin aftur því eins og komið fram hjá formanni samninganefndar ríkisins að samninganefnd ríkisins hafi ekki breytt um skoðun síðan árið 1962. Þannig að ekki fer nefndin að semja um einhverja sérleiðréttingu launa hjá slíkri kvennastétt sem ljósmæðrastéttin er. 


Af hverju er þessi hundur ekki í bandi

veistu ekki að lausaganga hunda er bönnuð í Reykjavík- þetta kallaði ég á ungan mann sem gékk hér framhjá húsinu í gær.  Ég var að fara hér úr húsi þegar inn í innkeyrsluna mína kemur stærðar hundur.  Hann hljóp að bílnum mínum og fór eitthvað að hnusa að honum og lyfta öðrum afturfæti.  Ég varð hin versta í skapinu að sjá þennan hundræfil og athafnir hans og ætlaði að reka hann í burtu þegar ungi maðurinn með barnakerruna kom gangandi fyrir hornið og kallaði til hundsins.  Hann var bersýnilega að tölta með barnið á leikskólann og hundurinn fékk að skokka með morgunskokkið sitt frjáls og óbundinn og gat gert hvert sitt stykki hvar sem hundinum sýndist.  Ungi maðurinn leit á mig eins og ég væri brjáluð kerling í Vesturbænum og fannst ég ekki vera þess virði að yrða á mig einu orði né svara fyrirspurn minni. 

Mér finnst alveg óþolandi þegar fólk sýnir hvorki vilja né löngun til að fara eftir settum reglum.  Við búum hér í Reykjavík í borgarumhverfi.  Það er ekkert hægt að líða það að hundar gangi hér lausir um.  Hafi fólk virkilega þörf fyrir það að halda hunda hér innan borgarmarkanna þá verður það fólk að virða þær reglur sem settar eru.  Og þær eru þannig að lausaganga hunda er bönnuð.  Punktur. Ég vildi óska að ég hefði nennt að kalla á lögregluna að handtaka þennan hund sem hér um ræðir.  Geri það á mánudaginn ef hundurinn kemur aftur til að gera sín stykki hér í mína innkeyrslu.


Vilji er allt sem þarf

Ég er mjög ósátt með afgreiðslu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á kröfum ljósmæðra um hækkun launa.  Afgreiðsla rikissjórnarinnar á yfirborðinu er sú að vegna óhagstæðs efnahagsástands sé ekki hægt að hækka laun þeirra. En innst inni er afgreiðsla ríksstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á þann hátt að ríkisstjórnin hefur þann vilja að viðhalda þeim mismun sem er á milli kjara kvennastétta og annara stétta í þjóðfélaginu.

Ljósmæður fara fram á það að fá nám sitt metið til launa til jafns á við hvernig nám annara stétta er metið.  Mér finnst það vera sanngjörn krafa.  Eitt sinn var sér skóli fyrir ljósmæður og einnig sér skóli fyrir hjúkrunarkonur.  Í þann tíma fengu þessar stéttir ekki sömu laun fyrir sína vinnu og til dæmis læknar af því að læknanámið var háskólanám.  Síðan er búið að háskólavæða þessar tvær greinar í heilbrigðisgreinar og ljósmæður þufa að ljúka sex ára háskólanámi til að ná þeirri gráðu.  En það er enginn vilji hjá ríkisstjórninni til að þeirra nám, störf og ábyrgð sé metin til jafns við aðrar sambærilegar stéttir.  


Göngum yfir brúna

Ég átti í gamla daga eitthvað erfitt með að læra þennan texta við þetta lag - Göngum yfir brúna.  Ég beið bara róleg þar til kom að viðlaginu en ég hafði þó náð textanum í því.  Þetta er gamalt og bara ágætis stuðlag og rifjaðist upp fyrir mér í dag þar sem ég var á akstri í bílnum mínum og lagið var spilað í útvarpinu.  Allt í einu heyrði ég bara ágætlega textann hjá honum Pálma og er pínu hissa á því að ég hafi ekki kunnað hann. 

Göngum yfir brúna

Sagt er að sumir vilji verksmiðjur

út við sérhvern tanga og fjörð.

Sagt er að aðrir vilji stóriðju

út um sína fósturjörð.

 

Göngum yfir brúna milli lífs og dauða,

gín á báðar hendur gjáin dauðadjúpa

 

Landið okkar sem var laust við skít

verður leigt gegn gulli í hönd.

Af græðgi gerumst við svo einskisnýt

að okkur gleypa önnur lönd.

 

Göngum yfir brúna...

 

Af öllu sem við gerum rangt og rétt

við reyndar lærum aldrei neitt.

Og eftir dauðann hef ég nýskeð frétt

að aurum enginn geti eytt.

 

Göngum yfir brúna...

 

Höfurndur Magnús Eiríksson

 


Rifsber í hádeginu

 Hagaskóli er byrjaður og samkvæmt nýrri stundaskrá þá fær sonurinn aðeins 30 mín. hádegishlé en í fyrra var hádegishlé í 50 mínútur.  Það gerði það að verkum að hann fór mjög oft heim til sín í hádeginu í stað þess að borða uppí skóla.  Því var spurning í mínum huga hvort það borgaði sig fyrir hann að vera í mötuneytinu því hann kom svo oft heim í hádeginu.  En í gærmorgun áður en hann fór í skólann tilkynnti hann mér að þetta væri of stuttur tími til að standa í því að drífa sig heim þannig að hann vildi vera í mötuneytinu í vetur. Hann fór með nesti í skólann því ég var ekki viss um að ná því að borga fyrir hann þannig fyrir þennan sama dag.

Í gær þegar ég kom heim spurði ég gagnfræðaskólapiltinn hvernig þetta hefði farið hjá honum í hádeginu.  Þá fékk ég þessa frásögn:

Jú mamma, ég fór fram og ætlaði að borða nestið sem ég hafði með mér en ég gleymdi skólatöskunni með nestinu inní stofu og stofan var læst.  Þá ætlaði ég að fara heim og fá mér eitthvað að borða heima en þá fattaði ég að lykilinn var í skólatöskunni.  Svo ég fór bara hingað heim og fékk mér rifsber að borða.

Þannig fór það hann lifði bara af landsins gæðum, svo sem nóg af rifsberjum ennþá hér í garðinum þó ég sé búin að gera rifsberjahlaup úr 2,5 kílóum af berjum.  Ég held að Jóhann Hilmir sé dálítið líkur afa sínum Sigurjóni heitnum.  Eitthvað náttúrubarn á ferð þarna.  En hann var algjörlega löglegur í mötuneyti Hagaskólans í dag. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband