Furðustrendur

Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að Skagafjörðurinn sé mikil perla.  Lengi vel fannst mér eins og hann nyti ekki nægilega sannmælis né vinsælda hjá ferðamannaiðnaðinum.  Mér fannst eins og öllum ferðamönnum væri beint til Akureyrar og á Mývatn og á alla fallegu staðina í Þingeyjarsýslu með fullri virðingu fyrir þeim.  En í firðinum Skaga er nefnilega margt hægt að skoða og gera - sagan drýpur þar af hverju strái, hægt að fara í siglingu út í Drangey og Málmey, skoða fjöll og firnindi ef menn vilja, nú og svo eru það ísbirnirnir og allt það.  Vissulega hefur á siðustu árum ýmislegt gerst í Skagafirðinum til að nýta betur þau tækifæri sem fjörðurinn býður uppá til afþreyingar fyrir ferðamenn.  Þar má nefna flúðasiglingarnar í Jökulsánum, Vesturfarasetrið á Hofsósi og nýja skíðaaðstaðan í Tindastól svo fátt eitt sé nefnt. Svo er alltaf sól í Blönduhlíðinni en því halda þeir fram sem þar búa.

Pabbi og mamma eru Húsvíkingar og tifuðu þar um fjöll og firndindi í leit að berjum þegar þau bjuggu á því svæði og áttu fullt af leyniberjastöðum.  Þau hafa nú fundið hina ýmsustu berjaleynistaði í Laxárdal og uppí fjalli við Sauðárkrók og hafa nú fyllt frystikistuna sína af svörtum aðalbláberjum.  Nú í morgunsárið les ég það síðan í blaðinu að við Héraðsvötn séu Furðustrendur þar sem eru hvít krækiber og íslensk villt jarðaber.  Hann leynir nefnilega svo á sér Skagafjörðurinn.  Alltaf eitthvað nýtt og nýtt.


Til hamingju Ísland

með silfrið í handknattleik á Olympíuleikunum í Peking 2008.  Stórglæsilegu árangur og við getum verið  ánægð með árangur okkar íþróttamanna.

Við fórum á tónleika 200 000 Naglbíta og Lúðrasveitar Verkalýðsins í Hafnarhúsinu í gærkvöldi.  Mjög gaman, ég hef ekki farið á tónleika né ball með þessari hljómsveit.  Afi og amma þeirra bjuggu í Borgarnesi og er ljóst að þeir hafa fengið augnsvipinn úr föðurættinni.

Þeir spiluðu m.a. þetta lag, Láttu mig vera sem ég fann á youtube.  Er samt ekki frá því að ég sé sammála Villa Naglbít sem lýsti því yfir að lagið þeirra Hjartagull væri sitt uppáhaldslag.  Lúðrasveitin var þétt og gerði skemmtilegan Magical Mystery Tour svip á tónleikana að mínu mati amk.  Þeir þrír í 200 000 Naglbítum eru mjög góðir, mér finnst líka gaman þegar maður getur fylgst með trommuleikurum í hljómsveitum, trommarinn var framarlega á sviðinu og þar gat maður séð hvað var í gangi hjá honum.  

 

 


Menningarnótt

Við vorum að rifja það upp við hjónin hvenær við tókum fyrst þátt í menningarnótt.  Gunnari telst svo til að það hafi verið árið 1996.  Ég held örugglega að fyrsta menningarnótt í Reykjavík hafi verið árið 1995.  Þá var Jóhann Hilmir á fyrsta ári og við tókum það árið ekki þátt í einu né neinu og ég held að við höfum ekki verið í bænum en er ekki viss.  Allavega höfum við verið mjög dugleg við að nýta okkur þennan skemmtilega dag sem menningarnæturdagurinn er allt frá því við byrjuðum þarna á annari menningarnóttinni semsagt.

Þetta fyrsta sinn okkar á menningarnótt voru hjá okkur þýskir vinir Gunnars, Kristjana og Bernt.  Gunnar og Kristjana hafa verið pennavinir síðan þau voru 18 ára.  Við Gunnar höfum farið í heimsókn til þeirra til Munchen og þarna voru þau semsagt í heimsókn hjá okkur.  Ég man eftir því að það var grenjandi rigning þessa menningarnótt og við drusluðum þeim niðrí bæ um klukkan átta um kvöldið með Jóhann í kerru og Elínborgu Huldu í eftirdragi.  Mig minnir að þeim hafi fundist þetta hálf skrítin uppákoma hjá okkur og svona yfirleitt en ég lét mig ekki og við skoðuðum eitt og annað í bænum sem mér leist vel á.  Svo drifum við okkur heim hundblaut og köld en bara ánægð.  Þegar heim var komið og við sest inní stofu þá heyrðum við allt í einu drunur og dynki.  Það var flugeldasýningin sem var þá frá Tjörninni.  Menningarnæturstjórinn ég hafði ekkert kveikt á þessari fugeldasýningu!  Við drifum okkur út og horfðum á sýninguna út á blett.  Síðan hef ég ekki klikkað á þessu atriði á menningarnótt svo það sé alveg á hreinu.


Myrki riddarinn

Við fórum á kvikmyndina um myrka riddarann í gær. Mér fannst hún nokkuð góð.  Það sem mér fannst draga myndina niður var:

Of mikið ofbeldi

Röddinn í batmann

Lengd myndarinnar

Andlitið á two face.  Þótt þetta sé mikil fantasía þá var dálítið of mikið að hafa andlitið á honum svona illa farið öðru meginn.  Hvernig er hægt að anda með nefinu ef það er bara hálft???

Það sem mér fannst gott við myndina var helst:

Umgerðin öll mjög flott, settið, brellur og notkun tónlistar

Gott handrit, nokkuð góðar pælingar hist og her t.d. hjá joker

Leikur í myndinni yfirleitt góður

Einkunn 8.

 


Garðveisla

Ég fór í garðveislu í gær.  Vinkona mín hélt garðveisluna ásamt vinkonu sinni sem býr í París og er hér á landi í heimsókn.  Þær stöllurnar héldu einnig garðveislu um svipað leiti í fyrrasumar.  Þá var veðrið eitthvað mjög svipað og það var í gærkvöldi.  Það var margt um manninn í garðveislunni og allir mennirnir voru kvennmenn.  Mjög gaman.  Ég hitti þar fyrir dönskukennara minn frá Borgarnesárunum sem hefur kennt í nokkrum menntastofnunum eða um níu talsins.  Hún bjó í þrjú ár í Borgarnesei og ég var svo heppin að hafa hana sem kennara.  Hún er besti dönskukennari sem ég hef haft.

Það var uppi töluverður fótur og fit í Borgarnesi man ég þegar þessi dönskukennari hóf kennsluna í Borgarnesinu.  Málið var að þessum kennara fannst mjög gott að hafa stílabækur bekkjanna í ákveðnum litum, þe. fjórði bekkur hefði bláar stílabækur, fimmti bekkur rauðar o.s.frv.  Þannig var hún alltaf með á hreinu hvaða bekk hún væri að fara yfir.  Því var í fyrsta tímanum hjá þessum kennara gefin ströng fyrirmæli um hvaða lit og stærð af stílabók maður átti að kaupa fyrir dönskuna.  Ég man að það urðu margir furðu losnir yfir þessu uppátæki kennarans.


Árgangsmótskvæði

Ég var beðin með litlum fyrirvara að halda tölu á árgangsmóti sem haldið var í Borgarnesi á laugardaginn var.  Ég hafði samband við heimsóknarvin bloggsíðunnar og fékk hann til að semja fyrir mig kvæði.  Ég er bæði gleymin og ómannglögg og fékk far uppí Borgarnes með Nínu Leós sem var með mér í bekk en hún er bæði minnug og mannglögg. 

Kvæði í tilefni árgangsmóts

Í mygluðu hugskoti mínu,

ég man enga einustu línu.

Og þá sem ég þekki,

ég þekki víst ekki.

Svo nú má ég treysta á Nínu.


Allt var þá yndælt og gaman,

ógnarsæt gæinn og daman.

Það var sól það var gleði,

geysimargt skeði,

hér áður við ung vorum saman.


Þá var nú þolinmóð þjóðin,

þá brann í hjartanu glóðin,

þá var yndislegt allt

á ýmsu þó valt.

Þeir áttu þá enn Sparisjóðinn.


Nú eru allt aðrir tímar,

internet mail og farsímar.

Fyrst græddu menn helling,

svo kom gengisfelling,

það er gamanlaust - en þetta rímar.


Á æskugrundunum grænum,

við glöddumst í sólheitum blænum

við gengum - og enn,

þessar meyjar og menn,

eru flottasta fólkið í bænum.


Tjaldstæðafælni

Mér finnst fínt að sofa í tjaldi svona nótt og nótt.  Við notum tjaldið okkar og förum í útilegur þegar okkur hentar og eftir því sem vindar blása á sumrin.  Hins vegar er í seinni tíð farin að hrjá mig ákveðin tjaldstæðafælni.  Síðasta tjaldútilega mín á skipulagt tjaldstæði var fyrir þremur eða fjórum árum en þá hittumst við hópur á tjaldstæðinu í Húsafelli.  Tjaldstæðið var fullbókað þá helgi og margt um manninn.  Mér blöskraði alveg umferð bíla um tjaldstæðið.  Sífellt var eins og einhver þyrfti að vera að ná í eitthvað sem vantaði eða vera að fara í sund eða eitthvað.  Og alltaf keyrt af stað á bílnum en alls staðar voru lítil börn út um allt á tjaldstæðunum að leika sér.  Sem betur fer gerðist ekkert en mér fannst þetta hreinlega mjög óþægilegt.  Um nóttina tók síðan við mikill söngur í öllum hitörunum í fellihýsunum allt í kringum okkur.  Ekki mikil friðsæld sem var ríkjandi í þeirri útilegu. 

En svo heyrði ég um enn nýja græju sem Íslendingar eru farnir að hafa með í útileguna.  Samverkakona mín fór á tjaldstæði sem eru við Hítarvatn og tjaldaði þar.  Stuttu frá voru saman þrjár fjölskyldur með þrjú fellihýsi og rafstöð.  Um kvöldið var rafstöðin sett í gang til þess að börnin sem voru með í för gæti farið í tölvuleiki eða horft á DVD. Ég hef ekki lent í að tjalda nálægt svona græjuvæddu fólki en tjaldstæðafælnin lagast ekki mikið við þessa frásögn.


Borgarlimra

Heimsóknarvinur síðunnar sendi limru í tilefni atburða í stjórn höfuðborgarinnar síðustu sólahringa.  Limran er svona:

Þeir brunaútsölu boða

beygðir í rústirnar skoða.

Þrír meirihlutarnir

til fjandans nú farnir.

Þeir fara sér faglega að voða.

Eiginkona heimsóknarvinar bloggsíðunnar var ekki ánægð með uppsetningu mína á innsendum vísum frá heimsóknarvininum.  Því er til að svara að um tæknilegt vandamál er að etja, því þegar ég ýti á nýja línu þá kemur alltaf þetta stóra bil.  Ég hef ekki ennþá alveg fundið út úr því hvernig hægt er að breyta þessu atriði.  Eitthvað fannst eiginkonu heimsóknarvinarins rosalega fyndið við það að ég ætti í þessum tæknilegu erfiðleikum með bloggið mitt.  


Þakbras

Við komumst að því um daginn að þakið á bílskúrnum lekur.  Bílskúrinn okkar er tvískiptur og eiga systurnar á efri hæðinni annan helming bílskúrsins, þann innri og við Gunnar hinn helminginn, þann ytri.  Á okkar bílskúr eru tveir vegggluggar en á bílskúr systranna eru fjórir þakgluggar.  Og við tvo af þessum fjórum þakgluggum var leki.  Þær óskuðu eftir aðstoð við að meta skaðann og fórum við Gunnar í rannsókn á ástandinu um helgina.  Þakgluggarnir eru gerðir úr báruplasti og var komið gat á einn þeirra, einhver hafði bersýnilega stigið á gluggann.  Hjá hinum glugganum var ekki neitt sérstakt hægt að sjá nema að þar er leki.

Það var tekin sú ákvörðun um helgina að athuga hvort við sjálf gætum ekki reynt að gera við þessa þakglugga.  Við fórum síðan í fyrradag hjónin af stað og fjárfestum í 3ja metra langri báruplastplötu í Húsasmiðjunni.  Við vorum ekki alveg viss hvernig best væir að ná henni í sundur í þrjá búta en í gær þá réðumst við á plötuna með sög að vopni og okkur tókst með smá brasi að saga plötuna í sundur.  Síðan fóru þeir feðgar uppá bílskúrsþakið og náðu að taka tvö glugga frá og setja nýju báruplastplöturnar þar í staðinn.  Það var töluvert bras en tókst á endanum.  En þá sáum við að það hafði verið kíttað alveg meðfram plötunum áður en þær voru festar.  Þannig að ekki var hægt að festa niður plöturnar í gær þar sem ekkert kítt var til á staðnum.  Þetta er svona ekta iðnaðarmannabras hjá okkur þar sem sífellt þarf að fara út í búð og kaupa eitt og annað sem þarf til framkvæmda.  En framkvæmdum verður haldið áfram í dag eftir að búið verður að fjárfesta í einhverskonar kítti.


Kaffivélin mín

er komin úr viðgerð.  Þetta er alveg einstök expressó kaffivél sem ég fékk líka í fertugsafmælisgjöf eins og hústjaldið mitt góða.  Það er eitthvað sigti í kaffivélinni sem stíflast og þá kemur ekkert vatn kaffimeginn.  Ég get ekki hreinsað eða lagað þetta sigti sjálf heldur verð að fara með vélina í viðgerð.  Þetta er annað sinn á ferlinum sem sigtið stíflast en núna var kaffivélin smá tíma í viðgerðinni og kom það til sumarfrí hjá mér með ferðalögum og fjarveru frá höfuðborgarsvæðinu.

Ég hef saknað kaffivélarinnar minnar þessar vikur sem hún var ekki hér til staðar.  Mér finnst nú samt eitthvað dálítið dekadent að vera að sakna kaffivélar, mikið lúxusvandamál þar á ferð.  En ég er með aldrinum farin að hafa miklu ákveðnari smekk fyrir kaffi.  Ég hef líka minnkað kaffidrykkjuna mikið og þar sem kaffikvótinn hefur verið minnkaður þá vil ég bara nota þann litla kvóta til að drekka almennilegt gott kaffi.  Sem er hreinlega einna best úr kaffivélinni minni verður að játast.  Og þar með ætla ég að fá mér annan bolla af Cappochino kaffi svona snemma morguns í tilefni af því að 12 ára kaffivélin er komin heim úr viðgerð eldspræk.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband