Vegbúi
9.8.2008 | 21:11
Ég og við höfum verið miklir vegbúar þessu síðustu tíma. Höfum brunað fram og tilbaka um landið þvers og kruss, lengst farið suður að Skógum og austur í Borgarfjörð eystra. Annars keyrt mest norður og suður aftur og aftur eins og gengur hjá okkur.
Vorum að koma suður í dag eftir stuttann skrepp á Krók þar sem foreldrarnir komu úr berjamó með 8 lítra af svörtum aðalbláberjum. Mikil berjaspretta í Skagafirðinum. Fórum síðan áfram í Dalinn væna og týndum þar einnig ber en ég held að berjasprettan þar sé ekki alveg komin eins langt og í Skagafirði. Það var kaldara vorið held ég og snjórinn lengur í dalnum. En það er alveg hægt að týna og við komum heim með þrjá til fjóra lítra.
Við kíktum aðeins á Fiskidaginn mikla niðrá Dalvík í dag áður en við brunuðum hingað suður. Á Dalvík var múgur og margmenni og mikið um að vera, þetta er annað sinn sem við förum á Fiskidaginn og það virðist alltaf vera sól og fallegt veður á þessum degi. Uppá sviði var nýr kvennakór hjá þeim á Dalvík ég man því miður ekki nafnið á kórnum en þær sungu nokkur lög og mér leist bara bærilega á þær. Fyrsta lagið þeirra var Vegbúinn eftir K.K.
Í umræðunni | Breytt 10.8.2008 kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Merkingar orða
2.8.2008 | 22:03
Út af pælingum mínum um merkingar orða og mun á þeim vegna Verslunarmannahelgarvísunnar í gær sendi heimsóknarvinur síðunnar þessa vísu núna í kvöld:
Mér finnst á meiningarþrasið
mætti ögn betur líta.
Kannski má kúka á grasið
en klárlega ekki - -
gera eitthvað sem er dónalegt.
Ljóð | Breytt 5.9.2008 kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verslunarmannahelgarkvæði
1.8.2008 | 11:30
Ég er í einhverju basli með bloggsíðuna mína. Setti inn nýja toppmynd fyrir þá gömlu sem datt út þegar Moggabloggið fór í vesen um daginn. En stillingarnar hafa eitthvað misfarist við það og núna er bloggsíðan mín eitthvað skrítin. Jæja, ég vona bara að hún hressist með tímanum, er amk. búin að taka út nýju toppmyndina fyrst hún virðist gera síðunni svona mikinn grikk.
Heimsóknarvinur síðunnar sendi inn eftirfarandi Verslunamannahelgarkvæði í tilefni helgarinnar sem er að bresta á:
Gleðin með grastorgið
Gefðu mér Vallash í glasið
Guð minn hvað þetta er smart.
Nú getum við migið í grasið
grjótið var kalt og hart.
Eftirorð. Heimsóknarvinurinn sagði að ef ég vildi vera kurteis þá mætti ég nota orðið pissað í stað migið. Ég verð að játa að ég gerði mér ekki grein fyrir að það væri merkingarmunur á þessum tveimur orðum hélt þau væri svona jafnrétthá eða þannig. Ég lét heimsóknarvininn ráða för með vísuna, hún er hans.
Ljóð | Breytt 5.9.2008 kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skyr, ber og rjómi
30.7.2008 | 16:45
er tær snilld. Það eru komin ber, þroskuð aðalbláber í Dalinn væna. Já ótrúlegt en satt. Maður þarf samt að hafa dálítið fyrir því að týna fullt eitt kaffibox af þroskuðum aðalbláberjum núna enda ekki kominn ágúst. En það munar um hvern sólardaginn þarna fyrir norðan og útlítið er svart maður eða kannski ætti maður að segja blátt? Lítur rosalega vel út með berjasprettuna þarna fyrir norðan þetta árið amk. Jóhann Hilmir týndi í eitt box í fyrradag sem við borðuðum upp til agna með skyri og rjóma í gærkvöldi eftir að við vorum komin hingað á vesturhorn landsins. Ekki margt sem slær út aðalbláberjum í mínum huga, held að mér finnist þau vera bara the best of the best of the best sir, ekki annað en það.
Í landinu mínu sá ég líka að ef til vill koma hrútaber hjá okkur en það er í fyrsta sinn sem ég sé það. Hrútaberjalyngið var ekki í okkar landi fyrstu árin okkar með hólfið í Dalnum en síðustu ár hefur það verið að búa um sig hér og hvar. Og er núna í fyrsta sinn sem útlit er jafnvel fyrir að því takist að þroska einhver ber.
Hér í Reykjavík er þvílík sól og sæla að ég hef ekki fyrr komist í tæri við annað eins á þessu landshorni. Læt hér fylgja með eftirmiddagsólarmynd af litla húsinu við Akurhól, Skíðadal, Dalvíkurbyggð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bræðslan 2008
29.7.2008 | 16:53
Jamms þá er fjölskyldan búin að fara á Borgarfjörð eystra og taka þátt í Bræðslunni 2008. Það var mikið fjör og mikið stuð. Við fjölskyldan mættum í bræðsluskemmuna klukkan korter í átta og náðum við þrjú stæði í þriðju röð frá sviðinu og fórum ekkert þaðan alla tónleikana til þess að missa ekki þann góða stað. Unga parið sá um sig sjálft og var meira á einhverju randi inn og út en þau sögðust þó hafa náð ágætis staðsetningu þegar Eyvör byrjaði að spila.
Klukkan tuttugu mínútur yfir ellefu þegar Damien Rice var búinn að kyrja nokkur lög var ég orðin þreytt í fótum og eitthvað farin að þjást af loftleysi og hita. Ég spurði þá kallana mína tvo hvort við ættum að færa okkur eða etv. fara út. Nei, þeir héldu nú ekki þannig að við stóðum áfram sem fastast út alla tónleikana - sem ég var mjög ánægð með að við skyldum endast til að gera. En eftir tónleikana sem enduðu klukkan korterítólf höfðum við aðeins krafta til að staulast heim í tjald og misstum því af eldhúspartýinu þar sem Eyvör spilaði en þangað fór unga parið okkar. Einnig misstum við af því þegar Damien Rice fór að spila úti í brekkunni um nóttina. En við vorum og erum alsæl með Bræðsluna 2008.
Það var mjög gaman að hlusta á allt það listafólk sem þarna kom fram, það var hvert með sínu lagi eins og gengur. Eyvör var mjög góð og Damien Rice er mun betri live en á plötum eða í sjónvarpi. Mér fannst mun meiri kraftur í honum si svona heldur en maður verður var við á upptökum. Það voru mörg mjög góð lög sem hann flutti þarna en jafnvel finnst mér þetta lag sem ég fann á youtube vera með þeim betri þetta kvöld. Þetta er lag sem Damien Rice sagði þarna um kvöldið hafa hafa samið um fjórtán ára aldurinn og fjallar um ákveðið athæfi sem hann þá stundaði nokkuð grimmt.
Myndband af flutningnum á Bræðslunni er komið á youtube -
Tónlist | Breytt 1.8.2008 kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mamma og tölvan
23.7.2008 | 10:27
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Útúrdúr
18.7.2008 | 07:12
er lítil mjög skemmtileg bókaverslun á Njálsgötunni. Anna Líndal, Bjarki Bragason og Hildigunnur Birgisdóttir voru í gær með opið hús í Útúrdúr í tilefni af því að þau hafa sett hluta af sýningunni Greinasafn sem þau voru með í Safnasafninu á Svalbarðsströnd upp í bókabúðinni. Einnig voru þau að kynna útkomu bókverksins Greinasafns. Svona kynnti Anna Líndal þennan viðburð í tölvupósti sem ég fékk frá henni:
- FJÖLFELDIN HEIM - loksins í útúrdúr!
Greinasafn / Branch Collection, bókverk eftir Önnu Líndal, Bjarka Bragason og Hildigunni Birgisdóttur kom út núna í sumar þegar sýningin Greinasafn opnaði í Safnasafninu. Bókin er 56 síður og sækir formið í biblíumyndabækur. Í verkinu er ferli sýningarinnar frá hugmynd að fullmótaðri sýningu rakið í máli og myndum. Hugarheimum Greinasafnsins eru gerð góð skil og í bókinni kristallast grunnþættir sýningarinnar; söfnun, rannsóknir, og það flæði sem slíkt myndar og myndast í. Í útúrdúr verða einnig fjöldi fjölfelda sem voru stór hluti af sýningunni í Safnasafninu.
Ég fór sólskininu í gær á kynninguna í Útúrdúr. Það eru fínar pælingar hjá listafólkinu, Hildigunnur er með þúfuspegúlasjónir sem mér fannst skemmtilegar, Bjarki var m.a. með nýja sýn á Káranhjúkadæmið og Anna Líndal var með fjölfeldispælingu sem mér fannst flottar. Hún var með fjölfeldi af tvinnakeflum með vafinni nál á sem mér finnst minna mig á kólibrífugl á kefli sem ég varð mjög hrifin af og gæti hugsað mér að eignast. Ég er mjög hrifin af verkum Önnu Líndal og á eina mynd eftir hana. Einnig leist mér vel á þúfustimpilinn hennar Hildigunnar og prufusettið af Kárahnjúkum eftir Bjarka. Í þetta sinn keypti ég bara eitt eintak af bókinni Greinasafni eftir þau þrjú og hélt síðan heim í yndislegum síðdegisgróðraskúr.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Postulínsbrúðkaupskvæði
17.7.2008 | 07:23
Heimsóknarvinur bloggsíðunnar sendi síðunni postulínsbrúðkaupskvæði í tilefni af afmæli okkar hjóna í gær. Postulínsbrúðkaupskvæðið er ort í orðastað Gunnars og við lagið ,,Sofðu unga ástin mín".
Tuttugu árin ástin mín
eru sko fljót að líða.
Í Skiðadal fögur sólarsýn
sveipaði okkar brúðarlín,
enda var heldur engu þá að kvíða.
Við munum líka seinna sjá
silfur og gullið fríða.
Brúðkaupsdögunum okkar á
aldeilis kát við verðum þá,
því máttu treysta, nú er bara að bíða.
Ljóð | Breytt 5.9.2008 kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20 ár - postulínsbrúðkaup
16.7.2008 | 07:46
Við eigum afmæli í dag Gunnar og ég. Í dag eru 20 ár síðan við giftum okkur í kirkjunni á Völlum í Svarfaðardal. Samkvæmt upplýsingum á brúðkaupsvefnum er það postulínsbrúðkaup. Brúðkaupsdaginn okkar þann 16. júlí 1988 skein sól í heiði í Skíðadal og Svarfaðardal. Það var mjög heppilegt því við vorum með veisluna heima í Syðra-Hvarfi í vélageymslunni og það hefði verið óþægilegra ef hefði verið mikil rigning og/eða kalt á giftingardeginum. Sr. Jón Helgi Þórarinsson gaf okkur saman en þá var hann prestur á Dalvík. Kirkjukór Svarfdæla söng og Ólafur Tryggvason var organisti. Öllum viðstöddum, vinum, vandamönnum og kór var boðið í kaffiveislu beint eftir brúðkaupið sem haldin var í vélageymslunni á Syðra-Hvarfi í Skíðadal. Ég held að u.þ.b. 80 manns hafi komið í kaffiveisluna hjá okkur. Kaffibrauðið var allt heimagert. Í veislunni spilaði Jón Helgi á gamalt orgel sem var staðsett í vélageymslunni og pabbi flutti okkur brúðhjónunum brúðkaupskvæði.
Eftir kaffisamsæti fóru heimamenn heim til sín en aðkomufólkið settist út í brekkuna við Lambatúnið og þar var setið dágóða stund í sól og sumaryl gítar dreginn fram og sungið og sungið. Síðan höfðum við mat fyrir aðkomufólkið, lax sem pabbi hafði veitt og heimareykt hangikjöt frá tengdapabba. Fínn dagur og nú eru semsagt tuttugu ár síðan. Við vorum sammála um það hjónin í gærkvöldi þegar Gunnar spurði mig hvort ég vissi hvaða dagur yrði á morgun að þessi tími hefur verið ótrúlega fljótur að líða. Einnig finnst okkur báðum það eilítið skringilegt að það séu virkilega 20 ár síðan við giftum okkur - eða eins og Gunnar missti út úr sér í gærkvöldi - ótrúlegt -
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Seglagerðin Ægir
15.7.2008 | 07:06
Ég varð hálf spæld í útilegunni okkar um daginn. Tjaldið mitt, sem ég fékk í fertugsafmælisgjöf frá krökkunum í háskólabekknum mínum var bilað. Við höfðum ekki tjaldað tjaldinu í tvö ár þegar við fórum í útileguna um daginn. Þegar við vorum búin að tjalda og ég ætlaði að renna upp rennilásnum á ytra tjaldinu þá kom í ljós að hann var bilaður. Ég tosaði og tosaði og endaði sá tosugangur hjá mér með því að ég sleit rennilásinn. Við höfðum verið svo heppin að tjalda rétt miðað við vindátt þannig að það kom ekki að sök um nóttina þótt tjaldið væri opið. En ég var spæld yfir því að fína hústjaldið mitt sem er búið að þjóna okkur dyggilega í tólf ár væri etv. orðið ónýtt.
Ég fór í könnunarleiðangur um tjöldin hjá krökkunum um daginn og komst að því að ef ég ætlaði að fá mér 5-6 manna braggatjald kostaði slíkt tjald u.þ.b. 50 þúsund krónur. Mér leist í raun mjög vel á þessi nýju tjöld sem eru fáanleg á markaðnum núna en var samt spæld yfir því að gamla góða hústjaldið mitt úr tjalddúk og alles frá Tékklandi að ég held væri etv. ónýtt.
Strax á mánudaginn var fyrir viku síðan þegar heim var komið með bilaða tjaldið hringdi ég í Seglagerðina Ægi og spurðist fyrir um það hvort þar væri gert við rennilása í hústjöldum. Stúlkan í símanum hélt nú það þannig að ég dreif tjaldið þangað í viðgerð. Ég náði síðan í tjaldið mitt út viðgerðinni í gær - kominn nýr flottur hvítur rennilás á gamla góða þunga hústjaldið mitt og viðgerðin kostaði aðeins þrjú þúsund krónur. Mér finnst það vel sloppið fyrir að taka langan bilaðan rennilás úr, og sauma nýjan fínan langan rennilás í tjaldið aftur með tvöföldum saum og mjög góðum frágangi.