Færsluflokkur: Ljóð

Árgangsmótskvæði

Ég var beðin með litlum fyrirvara að halda tölu á árgangsmóti sem haldið var í Borgarnesi á laugardaginn var.  Ég hafði samband við heimsóknarvin bloggsíðunnar og fékk hann til að semja fyrir mig kvæði.  Ég er bæði gleymin og ómannglögg og fékk far uppí Borgarnes með Nínu Leós sem var með mér í bekk en hún er bæði minnug og mannglögg. 

Kvæði í tilefni árgangsmóts

Í mygluðu hugskoti mínu,

ég man enga einustu línu.

Og þá sem ég þekki,

ég þekki víst ekki.

Svo nú má ég treysta á Nínu.


Allt var þá yndælt og gaman,

ógnarsæt gæinn og daman.

Það var sól það var gleði,

geysimargt skeði,

hér áður við ung vorum saman.


Þá var nú þolinmóð þjóðin,

þá brann í hjartanu glóðin,

þá var yndislegt allt

á ýmsu þó valt.

Þeir áttu þá enn Sparisjóðinn.


Nú eru allt aðrir tímar,

internet mail og farsímar.

Fyrst græddu menn helling,

svo kom gengisfelling,

það er gamanlaust - en þetta rímar.


Á æskugrundunum grænum,

við glöddumst í sólheitum blænum

við gengum - og enn,

þessar meyjar og menn,

eru flottasta fólkið í bænum.


Borgarlimra

Heimsóknarvinur síðunnar sendi limru í tilefni atburða í stjórn höfuðborgarinnar síðustu sólahringa.  Limran er svona:

Þeir brunaútsölu boða

beygðir í rústirnar skoða.

Þrír meirihlutarnir

til fjandans nú farnir.

Þeir fara sér faglega að voða.

Eiginkona heimsóknarvinar bloggsíðunnar var ekki ánægð með uppsetningu mína á innsendum vísum frá heimsóknarvininum.  Því er til að svara að um tæknilegt vandamál er að etja, því þegar ég ýti á nýja línu þá kemur alltaf þetta stóra bil.  Ég hef ekki ennþá alveg fundið út úr því hvernig hægt er að breyta þessu atriði.  Eitthvað fannst eiginkonu heimsóknarvinarins rosalega fyndið við það að ég ætti í þessum tæknilegu erfiðleikum með bloggið mitt.  


Merkingar orða

Út af pælingum mínum um merkingar orða og mun á þeim vegna Verslunarmannahelgarvísunnar í gær sendi heimsóknarvinur síðunnar þessa vísu núna í kvöld:

Mér finnst á meiningarþrasið

mætti ögn betur líta.

Kannski má kúka á grasið

en klárlega ekki - -

        gera eitthvað sem er dónalegt.


Verslunarmannahelgarkvæði

Ég er í einhverju basli með bloggsíðuna mína.  Setti inn nýja toppmynd fyrir þá gömlu sem datt út þegar Moggabloggið fór í vesen um daginn.  En stillingarnar hafa eitthvað misfarist við það og núna er bloggsíðan mín eitthvað skrítin.  Jæja, ég vona bara að hún hressist með tímanum, er amk. búin að taka út nýju toppmyndina fyrst hún virðist gera síðunni svona mikinn grikk.

Heimsóknarvinur síðunnar sendi inn eftirfarandi Verslunamannahelgarkvæði í tilefni helgarinnar sem er að bresta á:

Gleðin með grastorgið

Gefðu mér Vallash í glasið

Guð minn hvað þetta er smart.

Nú getum við migið í grasið

grjótið var kalt og hart.

Eftirorð.  Heimsóknarvinurinn sagði að ef ég vildi vera kurteis þá mætti ég nota orðið pissað í stað migið.  Ég verð að játa að ég gerði mér ekki grein fyrir að það væri merkingarmunur á þessum tveimur orðum hélt þau væri svona jafnrétthá eða þannig.  Ég lét heimsóknarvininn ráða för með vísuna, hún er hans.    


Postulínsbrúðkaupskvæði

Heimsóknarvinur bloggsíðunnar sendi síðunni postulínsbrúðkaupskvæði í tilefni af afmæli okkar hjóna í gær.  Postulínsbrúðkaupskvæðið er ort í orðastað Gunnars og við lagið ,,Sofðu unga ástin mín".

Tuttugu árin ástin mín

eru sko fljót að líða.

Í Skiðadal fögur sólarsýn

sveipaði okkar brúðarlín,

enda var heldur engu þá að kvíða.

 

Við munum líka seinna sjá

silfur og gullið fríða.

Brúðkaupsdögunum okkar á

aldeilis kát við verðum þá,

því máttu treysta, nú er bara að bíða.


Þriðja ísbjarnavísan

Heimsóknarvinur síðunnar sendi henni þriðju ísbjarnavísuna núna áðan.  Vísan er svona:

Fróðleiksgjörn er fréttalind

fatast vörnin snúin.

Þriðji björninn, það var kind

og þá er törnin búin.

En ég trúi Haddý sem fyrr, hvort sem þessi umdreymdi þriðji hvítabjörn finnst eða ekki. 

Gunnar heyrði það í dag að í gamla daga hefðu menn haft þá trú að þeir sem hétu Björn yrðu síður fyrir barðinu á björnum.  Hef haldið hingað til að nafnið Björn ætti frekar að vera með einhverjum hætti svona bjarnarlíking, þ.e. að viðkomandi væri sterkur og/eða stór og þar með voldugur eins og björn.  En hin kenningin og trú að nafnið veiti einhvers konar friðhelgun frá björnum er ekkert verri.  


Þjóðhátíðarbjörninn

Heimsóknarvininum er mikið mál þessa dagana og streyma frá honum vísurnar. Þessi var send til síðunnar núna í morgun.

Á Skaga stríð og skelfing var
skyttuhríðartörnin.
Dauðann bíður þungan þar
Þjóðhátíðarbjörninn.


Villuráfandi fjallabjörn

Það er margt skrýtið í kýrhausnum.  Og ekki hefur síður verið margt skrítið í hausnum á hvítabirninum sem var á ferli við Þverárfjallsveg í gær.  Björninn hefur að öllum líkindum tekið land einhvers staðar á Skaganum og ef svo er hefur hann verið búinn að ráfa lengi um Skagfirskan dal og hól áður en sást til hans.  Ég held að hann hafi verið orðinn sárfættur af ráfinu sá ekki betur á myndbandinu sem tekið var af honum áður en hann var felldur.

Mamma mín hefur það fyrir sið að fara í heilsubótargöngu á hverjum degi einn svona stutta útgáfu af fjallahring eða þannig við Sauðárkrók, fer upp við spennistöðina á Krók og gengur stundum yfir að golfvellinum og þar niður og heim.  Bangsi átti svo sem eftir nokkra kílómetra að Sauðárkróki en samt ekkert svo svakalega langt og hefði alveg geta stikað það hefði hann fengið frið til þess. Dálitið uggvænleg tilhugsun satt best að segja ef móðir mín þarf að vera á varðbergi gagnvart hvítabjörnum á sinni daglegu heilsubótargöngu.

Mér skilst að eftir að búið var að fella hinn villuráfandi fjallabjörn í gær þarna rétt við þjóðveg númer sirka tvö á Íslandi þá hefðu komið hjólandi á fjallahjólum tveir þjóðverjar.  Þó að vegum sé lokað þá er fólk og skepnur víða á ferð um ferð og firnindi.  Þó bjössi hafi etv. verið orðinn sáfættur eftir klungur yfir skagfiskt grjót þá er aldei að vita uppá hverju hann hefði tekið ef hann hefði mætt fólki á hjóli eða göngu.

Heimsóknarvinur síðunnar samdi tvö kvæði í tilefni af þessari komu hvítarbjarnarins á skagfirskar fjallaslóðir:

 --------------------------------

Yfir kaldan úthafssjó

að Íslandi ég syndi.

Í Skagafirði finn ég ró

fegurð skjól og yndi.

---------------------------------                      

Ævin var á enda runnin,

eflaust þannig málið skýrið.

Það er of seint að byrgja brunninn

þegar búið er að skjóta dýrið.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband