Færsluflokkur: Dægurmál

Skógræktin í Skíðadal

Hæ takk fyrir að kíkja hingað, ég er núna á gudrunshil.blogspot.com , ef þú ert að fylgjast með mér vinsamlega breyttu tenglinum.

 

Við hjónin byrjuðum árið 1990 að gróðursetja tré í hól í landi Syðra-Hvarfs í Skiðadal.  Hólinn hefur það fallega nafn Akurhóll og það markar fyrir akri í hólnum frá gamalli tíð en ekki er núna vitað hvað var ræktað á þessum akri sem við höfum haldið hreinum þe. við höfum ekki gróðusett tré í hann.

Nú höfum við til umráða tæpa 4 hektara til gróðursetningar á þessum stað.  Landið er í halla og þar er að finna allt frá algjörlega gróðurlausum melum í mýri, þýfi, holt og hæðir og allt þar á milli.  Við höfum haft það markmið að setja niður trjáplöntur úr svona sirka fimm pökkum árlega.  Trén eru af öllum stærðum og gerðum allt eftir því hvar við erum að planta í hvert sinn.  En lerkið er mjög duglegt á öllum melunum okkar og notum við það óspart.  

Það er gaman að fylgjast með vexti trjánna okkar.  Ég er búin að uppgötva það að fyrstu fimm árin eða svo gerist ekki mikið en þá fara þau að vaxa.  Þannig er ég núna að finna plöntur sem ég taldi að hefðu drepist eða að útplöntun hefði mistekist.  Hér er mynd tekin af lerki sem vex á vondum stað hjá okkur í melnum mjög áveðurs.  


Laxamýri á Dalvík

Ég sá þetta hús ásýndar á Fiskideginum mikla á Dalvík um daginn, reyndar á Fiskisúpudeginum mikla því við fjölskyldan fórum á fiskisúpudaginn til tilbreytingar en ekki á Fiskidaginn.  Ég varð hrifin af litavali hússins en fannst um kvöldið að það væri grátt en komst að því á rigningadegi um síðustu helgi þegar við vorum í berjaferð að Laxamýri er ekki grá heldur græn.  Gunnar minn veit ekki alveg af hverju þetta hús á Dalvík heitir Laxamýri, etv. einhver tenging yfir í Þingeyjarsýslu??

 


Krían er beitt

picture_011.jpgÉg tók þessa mynd um daginn í Jökulsárlóni af kríunni.  Lónið var fallegt og jöklasýnin fín en það skemmtilegasta við náttúruna þennan daginn var krían.  Það var  bersýnilega veiði í lóninu og þarna voru þær kríurnar á ferð - veiddu og veiddu.  Það var ótrúlegt að sjá þær skjóta sér aftur og aftur ofaní lónið hárbeittar.  Þar var veiði að hafa og kríurnar voru á veiðum.

Sumarsólstöður

Í dag eru sumarsólstöður.  Ég les það á wikipediu að orðið vísar til þess að sólin stendur kyrr, þe. hættir að hækka eða lækka á lofti.  Ég skoða stundum á þessa síðu hjá Veðurstofunni sem sýnir sólarganginn hvern dag og hvernig sólin skín á jörðina.  Sólin verður hæst á lofti hér í Reykjavík kl. 13:30 í dag en ekki lítur vel út allavega á þessari stundu hvort maður fær að sjá til hennar blessaðrar á þeirri stundu.

Ár hvert á sumarsólstöðum er haldið mikið partý við Stonehenge.  Ég sé á netinu að það var metþátttaka í ár, talið að allt að 36 þúsund manns hafi verið þar.  Ég finn ekki upplýsingar um hvort þar sást til sólar við sólarupprás í morgun.  


Músaskítur

Það er skrítið að koma að húsi sem stendur eitt og sér í víðáttu Dalsins eina og verður að sjá um sig sjálft.  Við reynum hjónin að búa vel um litla húsið á hverju sumri þegar við kveðjum Dalinn.  Hingað til hefur allt gengð eins og í sögu.  Húsið litla staðið á sínum stað eins og ekkert mikið hafi gerst síðan síðast þó að hafi gengið á él og norðan hörkur.  Kannski smá ryk hér og þar og flugnaskítur í gluggum.

Núna brá örðuvísi við.  Mýs höfðu fattað húsið littla á grundinni og látið til sín taka.  Reyndar höfum við tvö lítil hús og mýsnar höfðu komist inní geymsluhúsið.  Þar hefur semsagt verið fjör í vetur, þar fannst poki með grasfræjum sem músum finnst bersýnilega mikið varið í.  Sá poki var nagaður í tætlur og lágu leyfar hans og fræjanna um allt gólf í geymslunni ásamt hinu ýmsasta öðru dóti sem músunum fannst einhvern veginn spennandi að naga.  Þar var á ferð til dæmis vatnsveitan mín, hamar og annað smálegt.

Ég sé algjörlega núna hvað við höfum verið heppin hingað til að lenda ekki í þeim músunum.  Því þær virðast vera ótrúlega fimar að komast hvað sem er.  Ég var allan tímann sem ég hreinsaði út geymsluskúrinn dauðhrædd um að finna dauða mús eða finna lifandi mús.  En þrátt fyrir það allt saman og að finnast þetta hinir mestu skúrkar og nagdýr dauðans er eitthvað samt lifandi við það að það skuli vera nagdýr lifandi í Dalnum væna sem láta sér ekki bankahrun eða annað fyrir brjósi brenna.  Náttúran sér um sig svo skrítið sem það er.


Kál og púrra

Ég dreif í því í gær að fara í Mörkina í Blesugróf og fjárfesta í salatplöntum, púrru og dilli.  Nú á að prófa sig í matjurtaræktinni þetta sumarið.  Ég fékk mér þrjar jarðaberjaplöntur, dill og graslauk í fyrra.  Jarðaberjaplönturnar eru komnar á gott skrið og líka graslaukurinn.  Dillið lifði ekki af veturinn.  Í fyrrasumar settu systurnar uppi niður alls kyns salöt og kál í öllum stærðum og gerðum og litum i matjurtagarðinn sem er hérna við suðausturhorn hússins.  Um sumarið varð þetta hið fallegasta og litríkasta kál sem var líka bragðgott.  Ég fékk nokkrum sinnum að grípa nokkur salatblöð til að drýgja salatskammtinn hjá mér.

Ég sá það semsagt í fyrra hvað þetta er stórsnjallt fyrirbrigði svona kálgarður í garðinum og hef núna fjárfest í amk. eftirfarandi plöntum:

Venjulegt blaðsalat, klettasalat, sinnepssalat (spennandi, veit ekkert hvernig það bragðast), fjólublátt krumpusalat nafnlaust, og eitt enn salat grænt, nafnlaust líka.  Svo fékk ég mér líka fjórar púrur að gamni og síðan náttúrulega dillið.  Samkvæmt veðurspánni á rigningin að fara að hætta og sólin að fara að skína núna seinni partinn.  Þannig að þá er bara að hætta internetróli og drífa sig út í garð.


Hjólað í vinnuna

nei ekki ég - ég fæ að hafa fjölskyldubílinn.  Fyrir nokkrum árum síðan þá var ég að spá í það hvort við ættum að fá okkur annan bíl fjölskyldan en bóndinn sló þær pælingar út af borðinu og hefur staðið sig vel í því að hjóla í vinnuna.  Það er aðeins ef er mikill snjór og hálka sem hann fær far með frúnni í vinnunna.  Á mínum námsárum í Danmörku hjólaði ég út um allt þótt ég hafi ekki nema einu sinni hjólað alla leið upp í Lyngby þar sem Danski Tækniháskólinn er. 

Í gær var ég á leið heim úr vinnunni á Sæbrautinni á mínum fjölskyldubíl og þá var fríður flokkur hjólreiðamanna á ferð á göngustígnum við Sæbrautina.  Ég held að þar hafi verið á ferð fólk að hjóla heim úr vinnunni en ég spurði þau nú svo sem ekki.  En þarna á Sæbrautinni í gær í voreftirmiddagssólinni fékk ég svona flash back til minna Kaupmannahafnarára við að sjá þennan hjólreiðamannaflokk. Því í Kaupmannahöfn er eiginlega aldrei bara einn hjólreiðamaður á ferð.  Þar eru hjólreiðamenn yfirleitt alltaf í hópum.  Það er hið besta mál ef slíkir hjólreiðahópar eru að fæðast hér í borg.


Dóttir uppí skuld

Þessi frétt hér á ruv vakti athygli mína í gær.  Þar er semsagt greint frá því að karlamaður í Saudi Arabíu hafi sett 8 ára gamla dóttur sína uppí skuld sína við annan karlmann.  Dóttirin er 8 ára gömul en karlinn sem fékk stúlkuna uppí skuldina að verða fimmtugur.  Foreldrar stelpunnar eru fráskildir en pabbinn hafði forráð og yfirráð yfir stelpunni og því var honum algjörlega leyfilegt borga skuld sína með þessari dóttur sinni.  Móðir telpunnar fór tvisvar með mál fyrir dómstólum í Saudi Arabíu til að ógilda þetta hjónaband þessarar 8 ára gömlu stelpu og bráðum fimmtugskarlsins án árangurs.  En svo fóru alþjóðleg mannréttindasamtök á kreik og voru með eitthvað múður út í þetta ráðslag.  Sem endaði með því að þessi átta ára stelpa er núna orðin fráskilin 8 ára stelpa.

Það fylgir ekki þessari frétt hvort þetta hjónaband hafi verið consumated eins og það heitir á enskunni.  Veit ekki alveg núna í morgunsárið hvaða íslenska orð er best fyrir þetta enska orð sem oft er notað í amríkunni sem skilnaðarsök.  Það er að hjónabandið hafi aldrei verið consumated eða að aldrei hafi farið fram nein mök í hjónabandinu.  Var það ekki notað sem skilnaðarsök í einni Íslandsögunni þarna með karlinn sem hafði sofði hjá drottingunni í Svíþjóð og fór síðan heim aftur til Íslands og drottningin var ekkert ánægð með þetta og lagði á hann þær álögur að hann myndi aldrei aftur geta haft mök við aðrar konur?  Minnir það allavega.  En það kemur semsagt ekki fram í þessari frétt þetta hvort einhver mök hafi verið í þessu hjónabandi 8 ára gömlu stelpunnar og fimmtugskarslins.  Né heldur hvernig staðan er núna varðandi þessa skuld hjá pabbanum og núna fyrrverandi tengdasonar hans.

 


Rafmagnsbílablogg

Það er margt skrýtið og ekki skemmtilegt sem hefur komið fram á þessum síðustu og verstu en eina hugmynd líst mér mjög vel á.  Það er þessi rafmagnsbílahugmynd sem einhver amrískur kall kom með í síðustu viku.  Þessi karlmaður var sum sé mjög hissa á því að hér á þessu sjálbæra orkuríka landi væri ekki sjálfrennandi rafmagnsbílar út um allt.  Þetta er náttúrulega hárrétt hjá þessum kalli.  Auðvitað eigum við hér á Íslandi að gefa bensíneyðandi jeppabeljum langt nef og aka um á rafmagnsbílum.  Síðan á Orkuveitan og Landsvirkjun að veita milljarðafaldann afslátt á rafmagnsverðinu á nóttunni og þá verður hægt að hlaða bílaflota landsmanna ódýrt eða kannski bara ókeypis.  Rafmagnið rennur hvort sem er lítið nýtt fram og til baka um línurnar á nóttunni og  miklu betra að nota það til að hlaða batteríin.

Ég er hissa á því að enginn stjórnmálaflokkanna hafi tekið þetta þjóðþrifamál uppá sína arma.  Nú eru erfiðir tímar og atvinnuþref og þessi þjóð er svo gjörsamlega komin á hausinn að það hálfa væri nóg. Við verðum að hætta öllum innflutningi til landsins til þess að geta borgað skuldir okkar og þá á auðvitað að stöðva alveg innflutning á bensíni og olíjum.  Ég gæti trúað því að við yrðum að fara út í hvalveiðar til þess að reyna að vinna olíjur og eldsneyti úr hvalfitunni til þess að setja á fiskiskipaflotann og bátana.  Flugvélarnar verður að kyrrsetja það er ekki til peningur fyrir eldsneyti á þá flugvélabensínháka.  Flytja þarf út alla bensínspúandi jeppa og flutningabíla og senda með skipinu til baka alla þá rafmagnsbíla sem hægt er.  Nú eða reyna að venda þessum bensínbeljum yfir í rafmagnsbíla, það hlýtur að vera einhver möguleiki á slíkum venderingum.  Áfram rafmagnsbílar á Íslandi - veljum íslenskt.  


Vatnajökull

Ég gerði mér grein fyrir því hvað það er allt stórt og mikilfenglegt við Vatnajökul þegar Magnús Tumi skýrði út fyrir mér stærðina á síðasta gosi í Grímsvötnum sem var árið 2004.  Þá var þvermálið á goskatlinum  1 kílómeter.  Það er rosalega stór gosgígur að mínu mati og ég fattaði stærð og stöðu Vatnajökuls og þessara gosstöðva undir jöklinum þarna í stofunni á Tómasarhaganum.

Ég hef hugsað mér það að komast einhvern tímann þarna uppá þennan merkilega jökul okkar Íslendinga, Vatnajökul og skoða gripinn.  Einu sinni var pælingin að fá mér jeppa um sextugt og fara þá að keyra um hálendið og jöklana.  Anna Líndal sem hefur mikið verið á ferð um fjöll og jökla með sínum manni telur að það sé fullseint hjá mér, ég skuli fara fyrr af stað.  Við sjáum til.

En varðandi Vatnajökul og hversu merkilegur hann er þá er það gaman að því að hann hljóti alþjóðlega viðurkenningu sem skaðræðisstaður og merkilegur sem slíkur á alþjóðavísu.  Vér Íslendingar hljótum að gleðjast yfir því.  Í umfjöllun dómnefndar? á Discovery heimasíðunni um Grímsvötn segir meðal annara um jökulhlaupin -  you don´t want  to be araound for að jökulhlaup.  En eftir stóra gosið í Gjálp 1996 biðu menn og biðu eftir jökulhlaupinu sem átti að koma í kjölfarið.  Eitthvað var fréttamönnum farið að leiðast biðin og sumar farnir að efast um að það yrði nokkuð jökulhlaup en Magnús Tumi hélt kúlinu og sagði í einu viðtali sem ég sá í sjónvarpinu mínu - vatnið kemur - það verður jökulhlaup.


mbl.is Grímsvötn á lista merkilegustu eldfjalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband