Hrefna og hnísa
20.5.2008 | 19:33
Ég man eftir því sem krakki á Húsavík að stundum kom fyrir að bátar komu til hafnar með hrefnu fasta við síðuna og þá var maður sendur niðrá bryggju. Þegar þangað kom var handagangur í öskjunni, hrefnan komin uppá bryggju og tveir eða þrír kallar sem mynduðu kuta, skáru kjötið af hrefnunni og létu þá sem vildu fá kjötbita. Ég man eftir því þegar ég var fyrst send niðreftir, ég hef verið eitthvað 5 ára eða svo og þá var ég fyrst spurð hverra manna ég væri og þegar ég hafði svarað því til þá fékk ég bitann afgreiddann. Mamma steikti síðan hrefnukjötið á pönnu og mér fannst og finnst hrefnukjöt gott. Ég held endilega að stundum einnig fengist hnísukjöt á Húsavíkinni og það sé líka ágætt.
Ég var að skoða núna á netinu upplýsingar sem finnast þar um hvali og rakst m.a. á skemmtilega síðu www.nordurskodun.is en þar er m.a. að finna þessa síðu sem sýnir hvali sem hægt er að finna á Skjálfandaflóa. Þar sér maður vel stærðarmuninn á hvölunum. Ég hafði t.d. ekki gert mér grein fyrir því að hnísan er svona lítil, hún er bara smá, smá, smá hvalur.
Samkvæmt upplýsingum á ensku wikipediu telja Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin að hrefnustofninn sé í þó nokkurri hættu. Hér vildi ég gjarnan geta hringt í hann Gísla Víkings til að fá upplýsingar um áætlaða stofnstærð okkar hrefnustofnsins. Einnig vantar mig tilfinnalega upplýsingar um hnísuna - hvað ætli hnísan heitii á ensku? Það er allavega ekki til íslensk síða á wikipediu um hnísuna og ég kemst því ekki lengra með þessar hrefnu og hnísupælingar mínar að sinni.
Varðandi veiðar á hrefnu og hrefnuveiðikóta þá er ég er meðfylgjandi því að við nýtum hlunnindi lands og miða en það þarf að meta þá möguleika á nýtingu miðað við ástand á stofnum og aðra hagsmuni. Það getur t.d. engan veginn passað saman að stunda hvalveiðar á sömu stöðum og verið er að selja fólki ferðir til að skoða hvali í sínu náttúrulega umhverfi.
Flokkur: Í umræðunni | Breytt 21.5.2008 kl. 07:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.