Seljavallalaug taka tvö

Það kom mér mjög á óvart að lesa um hvernig staðið var að ákvörðun og framkvæmd við uppbyggingu Seljavallalaugar en fyrsta laugin varð til á einni helgi seinni part sumars árið 1922.  Reyndar var aðeins um jarðvegsframkvæmd að ræða þarna fyrsta kastið og Seljavallalaug var útbúin úr hlöðnu grjóti og þakin að innan með torfi.  Samkvæmt greininni góðu í Morgunblaðinu eftir Jón Á. Gissurarson sem ég hef verið að endursegja hér á þessu bloggi þá var einn hængur á þeirri laug, erfitt var að sjá ofaní laugina, vatnið og laugin urðu svo samlit.  Einn piltur var nær dauða en lífi í lauginni en sundkennarinn var nokkra stund að finna hann.  Einnig þótti augljóst að laugin myndi ekki standast ágang árinnar.  Því var tekin sú ákvörðun að steypa laugina.  En áfram úr greininni um Seljavallalaug:

Næstu viku var sund kennt með litlum hvíldum frá morgni til kvölds. Til þess að nýta tímann sem best var legið við í tjöldum en þau áttu bændur þeir sem um langan engjaveg höfðu. Eftir vikunámskeið voru allir syndir.Að loknu sundnámskeiði stofnuðu þátttakendur ungmennafélag.

Sýnt þótti að þessi laug yrði ekki til frambúðar. Laugará myndi tæta hana í sig í vatnavöxtum. Fyrsta samþykkt hins nýja ungmennafélags var að reisa steinsteypta laug. Nú dugði sjálfboðaliðsvinna ekki ein. Fé þurfti fyrir efniskaupum. Menn skiptust á að leita samskota í sveitinni. Varð þeim vel ágengt. Vorið 1923 var sement fengið beint úr millilandaskipi við Vestmannaeyjar um borð í mótorbát. Hann flutti sementið upp að sandinum endurgjaldslaust.

Reis svo sundlaug frá grunni. Hún er 25 metrar að lengd, lengsta laug landsins þá. Annar langveggur er bergið en gaflar, gólf og hinn langveggur úr steypu. Sundnámskeið voru haldin komandi ár. Brátt fóru stúlkur að læra sund, svo og fullnaðarprófsbörn. Austur-Eyjafjöll munu fyrst fræðsluhéraða landsins hafa notað heimild í lögum til að gera sund að skyldunámi. Þessi þjú héröð notuðu sér sömu heimild um líkt leyti: Vestmannaeyjar, Svarfaðardalur og Reykjavík

Nágrannasveitir sendu börnin sín að Seljavöllum til sundnáms. Fram til 1957 var skólabörnum kennt í Seljavallalaug, en þá fluttist það í nýja laug í Skógarskóla. Í september 1936 gerir afspyrnuveður um land allt með óhemju vatnavöxtum undir Eyjafjöllum. Í hamförum þessum rauf Laugará langvegg Seljavallalaugar og gólf svo eftir stóðu gaflar einir nýtilegir. Skjótt var brugðið við sementið sótt . Ójöfnu var saman að jafna um flutninga og 1923, Markafljót brúað og bílfært alla leið. Laugin komst upp um haustið. Menn voru reynslunni ríkari og gengu svo tryggilega frá, að Seljavallalaug hefur staðið af sér allar hamfarir til þessa dags.

Einu upplýsingarnar sem mér finnst vanta er um byggingu hússins, þe. búningsklefanna.  Ég finn ekkert um hvenær þeir hafa verið byggðir, dettur í hug hvort það hafi verið árið 1936 þegar laugin var endurbyggð eftir skemmdirnar í vatnavöxtunum?  En þetta er flott frásögn um útsjónasamt fólk og harðduglegt og sýnir okkur hverju samtakamátturinn getur áorkað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband