Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Krummi krunkar úti

hér upp í þakrennu utan í húsinu mínu með mjög sérkennilegum hljóðum og athöfnum.  Meira hvað krumminn er stór svona í nágvígi.  Hann er í mjög skrítnu skapi þessi Reykjavíkurhrafn og hagar sér einkennilega.  Situr uppí þakrennunni sem er allt of lítil fyrir hann og er eitthvað að gogga í þakið og krunkar og krunkar með rámri hrafnsrödd.  Gunnar segir að þetta sé einhver ungkrummi sem sé að gera hosur sínar grænar fyrir kvenfugli sem ég hef ekki séð ennþá.  Þar kom skýringin á þessum sérkennilegheitum öllum saman mér var svona hálft í hvoru ekki alveg farið að standa á sama um þennan furðufugl. 

Furðulegir fuglar hrafnar og svo hafa þeir gaman af því að stríða hundum.  Hef oft séð það í sveitinni og finnst það reyndar alveg óborganlega fyndið.   Að sjá virðulegustu sveitahunda sem eru vel skikkaðir og alaðir og að því manni finnst bara sæmilega vel gefnir af hundum að vera láta krumma gabba sig til að elta sig geltandi niður eftir öllum túnum eins og asna trekk í trekk í vonlausum eltingarleik við fuglinn fljúgandi er betri sekmmtun en góð Chaplin ræma.  

Mér fannst ekkert skemmtilegt að horfa á fréttirnar í gærkvöldi verð að játa að ég varð hálf skelkuð að sjá alla þessa reiði sem fólkið sleppti lausu í gær.  Ætla að vona að menn finni nýjar aðferðir við að koma boðskap sínum og mótmælum á framfæri.  

En sumarið er komið - gleðilegt sumar. 


Foreldrar og börn

Mér finnst vinnudagur barna hér á landi allt of langur en ástæða þessa langa vinnudags barna er einfaldlega langur vinnudagur foreldra.  Af hverju vinna foreldrar svona lengi?  Það eru í mínum huga tvær ástæður fyrir því, margir þurfa að vinna langan vinnudag til þess að hafa í sig og á.  Hin ástæðan að mínu mati er sú tregða sem er á vinnumarkaði að hafa fólk í hlutastörfum. 

Eftir að sonur okkar kom í heiminn og fæðingarorlofið var uppurið hafði ég áhuga á því að við hjónin gætum minnkað við okkur vinnu helst bæði tvö en að öðrum kosti annað hvort okkar.  Við fórum bæði og ræddum við okkar vinnuveitendur um það hvort þetta væri einhver möguleiki.  Ekki að ræða það var svarið á báðum stöðunum.  Við vorum bæði ráðin í 100% störf og það var ekkert til viðtals að það væri eitthvað hægt að breyta því tímabundið.  Ég varð mjög skúffuð yfir þessari afstöðu hjá þessum tveimur vinnuveitendum en ég veit að þeir eru ekkert einsdæmi hvað þessa afstöðu varðar.

Ég tel að það væri miklu betra fyrir börnin ef foreldrar gætu unnið hlutastarf þannig að annað hvort foreldrið gæti verið komið heim klukkan þrjú hvern dag.  En íslenskt atvinnulíf getur ekki tekist á við slíkan vanda að hafa fólk í hlutastarfi.  Ef þeir Íslendingar sem hafa ung börn á framfæri sína færu að vinna hlutastörf þá fer íslenskt efnahagslíf á hvolf.  Til þess að halda uppi blómlegu atvinnulífi verður því að setja foreldrum stólinn fyrir dyrnar og krefjast þess að þeir skili amk. 100% starfshlutfalli.  


Vorhreinsun

er hafin á þessum bæ.  Var að vinna í henni í garðinum í gær í fínu veðri.  Hraunhleðslan við gangstéttina kemur mjög illa undan vetrinum, hefur öll gengið til og frá og detta hraunhellurnar út á gangstétt.  Þetta gengur ekki og verðum við að fara í töluverðar lagfæringar á hleðslunni þetta vorið.  Fleiri en ég hafa notað tækifærið í gær og verið að hreinsa til í sínum görðum og hefur einhver slíkur aðili farið af stað með afrakstur verksins í Sorpu í kerru eða einhverju álíka íláti en var svo almennilegur að skilja eftir út á götu hér fyrir framan húsið góðan hluta af einu tré.  Gunnar hélt að ég hefði verið svona stórtæk í vorhreinsuninni og slátrað eins og hluta af einhverju af okkar trjám svona í  sveiflunni og skilið það eftir út á götu.  Hann var reyndar með töluverðan undrunartón í röddinni þegar hann var að spyrja mig út í þetta verklag hjá mér.  En ég var ekkert sökudólgurinn og hann fór síðan út og dröslaði greinunum upp á gangstétt.  En ég er hissa á því að sá sem stóð í þessum greinarflutningum hafi ekki áttað sig á því að hálft hlassið hjá honum hefur dottið af á leiðinni í Sorpu.  Nema honum hafi verið slétt sama - það gæti vel verið.

Byggingavöruverslanir

eru skemmtilegar búðir að mínu mati.  Nú er 40% afsláttur af öllum vörum í BYKO vesturíbæ.  Ég frétti af þessari útsölu í vinnunni í gær og dreif mig á staðinn á leiðinni heim úr vinnu.  Eftir að ég kom heim með bílinn dreif bóndinn sig síðan á sömu útsölu.  Og nú standa eftirfarandi hlutir keyptir með 40% afslætti á stofuborðinu:  Hamar, lugt, lampaolía, 2 málningarúllur 4 málningapenslar, 2 sett af vinnuhönskum, kuldahanskar, brassó, gólfbón, dims til að setja undir stóla svo þeir rispi ekki parketið, fatahreinsirúllur, kíttisspaði, tveir strigapokar sem eiga að þola 50 kíló, vasahnífur og einn poki af vatnskristölum.  Vatnskristallar eru þarfaþing sem ég set blanda saman við moldina sem ég set í útiblómapottana mína svo blómin mín þrífist nú vel á sumrin þótt heimafólkið sé ekki alltaf til taks við vörkvun.  Sum sé margt og mikið hægt að kaupa í byggingavöruverslununum.  Allt dótið kostaði um sex þúsund krónur.  Keypti reyndar þrusugóðan hamar sem var dýr.

Hverjir eru bestir?

Samkvæmt þessari úttekt eru það strákarnir.  Þeir eru bestir og fá betri laun en stelpurnar í samræmi við það.  Það er svo einfalt.  Sorry girls störf okkar eru bara ekki eins mikils virði og störf strákanna. 

Hvað er málið

Hvað er málið með okkur Íslendinga og menn sem fara um með ofbeldi.  Ég er ekki alveg að átta mig á því.  Er það málið að fórnarlömb ofbeldis verða að kæra sjálf til þess að eitthvað sé gert í málinu?  Mér skylst að ekki sé hægt að gera neitt hér á landi gagnvart misyndismönnum frá öðrum löndum fyrr en lögregla í heimalandi þeirra sendi hingað til lands handtökuskipun eða einhverja skipun.  Hvernig á útlenska lögreglan að vita að maðurinn sem þeir eru að leita að sé staddur hér á Íslandi?  Ég fæ engan botn í það eftir umfjöllun síðustu daga.

Ég sem hélt að hægt væri að kæra fólk sem færi um með ofbeldi og væri með blóðug verkfæri í bílunum hjá sér eftir slíkar ofbeldisheimsóknir.  Það er semsagt miskilningur hjá mér.  Ég skil umfjöllun síðustu daga í fjölmiðlum með þeim hætt að til þess að hægt sé að taka slíka menn úr umferð og kæra fyrir lögbrot þá verði fórnarlömbin sjálf að kæra.  Í gær kom ræðismaður Póllands sem ég held að sé staðsettur í Noregi og sagði að pólverjar væru ekki nægilega hræddir við íslensku lögregluna.  Hann vildi að íslenska lögreglan færi í skóla til Póllands til þess að læra af pólsku lögreglunni.  Ég veit ekki hvað það ætti að bjarga málum fyrst ekki virðist hægt að kæra mennina sem eru með ofbeldi og læsa þá bak við lás og slá og senda þá síðan heim til sín.  Það virðist ekki vera hægt í dag nema til komi beiðni um slíkt frá heimalandi þeirra.  Miðað við minn skilning á umfjöllun síðustu daga um erlenda misyndismenn á Íslandi þá er það málið.  


Gangastúlkan

Ég vann eitt sumar á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki sem gangastúlka.  Ég var á þeim tíma eitthvað að spá í að læra að verða sjúkraþjálfari eða eitthvað annað heilsutengt.  Tók þá skynsömu ákvörðun að reyna að fá einhverja vinnu á sjúkrahúsi til þess að prófa hvernig mér líkaði vinna á slíkum stað.  Pabbi minn fór af stað og bað Sæmund Hermanns á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki um vinnu fyrir mig.  Það tókst og sumarið sem ég var átján ára vann ég sem gangastúlka á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki.  Fyrsta morguninn sem ég mætti var ég sett nýgræðingurinn í að hjálpa til við að baða mann sem hafði dottið af hestbaki og lá rúmfastur.  Það fannst mér erfitt.  En erfiðasta verkið sem ég fékk sem gangastúlka var að hreinsa upp ælu.  Það er mér næsta ógerlegt verð ég að játa og ég kvaldist þvílíkt ef ég varð að stunda slíkt hreinsunarverk.

Í nótt vöknuðum við upp við það að sonurinn þrettán ára kallar fram- ég var að æla.  Faðir hans fór strax á stjá en móðirinn kúrði sig smá stund undir sænginni og herti upp hugann.  Sonurinn hafði fengið svo hastalega ælupest að hann rétt náði að setjast upp áður en spýjan kom.  Koddinn, sængin, lakið, rúmið já já allt undir lagt.  Sem betur fer er Gunnar nokkuð harður af sér í æluhreinsunum og hann náði að græja heilmikið áður en mér tókst að hafa mig framúr og í slaginn.  Ég setti öll rúmfötin strax í þvottavél þótt klukkan væri þrjú um nótt og ákvað að hitt fólkið í húsinu yrði bara að þola það þótt ein þvottavél færi í gang um miðja nótt.  Pilturinn hefur verið heima í dag og ekkert ælt meira.  Mér hefur hins vegar ekkert liðið allt of vel í allan dag hvort sem það er vegna æluhreinsunarstarfa eða eitthvað annað. 

Og til að hafa það á hreinu þá ákvað ég strax haustið eftir gangastúlkusumarið mitt að ég skyldi horfa í aðrar átt eftir framtíðarstörfum en til heilsugeirans.  Ég væri einfaldlega ekki nógu hörð af mér til þess að geta unnið svo vel væri við þau störf sem þar þarf að vinna. 


Vetrarþjónusta

Ég er búin að vera á ráðstefnu Vegagerðarinnar um vetrarþjónustu síðustu daga en hún var haldin á Akureyri.  Prófaði reyndar sjálf á eigin skinni að keyra afleggjara heim að einum bæ í Skíðadalnum þar sem ekki er nein vetrarþjónusta frá Vegagerðinni.  Þvílíkur munur það var alveg ótrúlegt fannst mér þessu malbiksbarni.  Leiðin frá Akureyri heim að afleggjaranum var næsta snjólaus, en þegar ég kom að Skíðadalsafleggjaranum þá var komin dálítil snjókoma, einnig smá skafrenningur þannig að skyggnið fór minnkandi.  En það var ekki neinn snjór að ráði á veginum og allt í góðum gír að því mér fannst.  Síðan kem ég að afleggjaranum að Syðra-Hvarfi og brá í brún.  Þar voru töluverðir ruðningar við veginn heim að bænum og farið að skafa í ruðninginn.  Ég setti nú samt bílaleigubílinn í fyrsta gír og tók ákvörðun að reyna við afleggjarann.  Mér fannst í raun ótrúlegt að það gæti verið svo mikill munur á færðinni frá því að vera að keyra eftir næsta snjólausum aðalvegi að fara yfir á heimreið sem væri ófær.  Til að gera langa sögu stutta þá komst ég hálfa leið að bænum, ákvað að fara ekki lengra á bílaleigubílnum, tókst að snúa honum við og gékk töluverða leið heim að bænum.  Þegar ég var þangað komin og búin að fá gott kaffi og meðlæti hjá tengdamömmu þá hringdi ég í svila minn til að fá aðstoð við að komast aftur út á veg.  Ég var nefnilega með það á hreinu að ég kæmist ekki upp stóra brekku sem er á þessari leið.  Hann Ingi Björn, svili minn kom síðan á jeppanum og aðstoðaði mig upp stóru brekkuna og keyrði á undan mér niður á aðalveginn. 

Enn og aftur þá verð ég að segja að ég varð mjög undrandi á því hvað afleggjarinn var illfær.  Það hafði snjóað um síðustu helgi blautum snjó og þá hafði afleggjarinn verið ruddur og voru ruðningarnir eins og stórar klakabrynjur sitt hvoru meginn við veginn.  Síðan bara snjóaði og snjóaði og renndi og renndi og allur sá snjór og renningur datt niðrá veginn á milli ruðninganna.

Ég var mjög heppin að lenda ekki í neinu brasi, ég komst yfir versta hjallann og mér tókst að snúa bílaleigubílnum við.  En þvílíkur munur á vegi sem er uppbyggður og með vetrarþjónustu Vegagerðarinnar og heimreið að bæ þar sem ekki er um slíka þjónustu að ræða.  Og hvað getur snjóað mikið á stuttum tíma í Skíðadalnum.  Dal einn vænan ég veit, en eins og tengdamamma mín sagði við mig - Guðrún mín, þú hefur svo lítið þekkt dalinn væna í vetrarbúningi, þú ert svoddan sumarbarn hérna í dalnum.  Það er svo sannalega satt en núna er ég reynslunni ríkari. 


Hækkun í hafi

Ég tók eftir því í vikunni að rætt var við verslunarmenn sem sögðust vera að reyna að halda aftur af því að hækka vörurnar í hillunum hjá sér en það væri erfitt þegar krónan væri í frjálsu falli.  Ég hef kannski eitthvað mskilið kaupmennina því ég skildi þá þannig að þeir gætu hækkað verð á þeim vörum sem þeir væru þegar komnir með í hús. 

Nú er ég hvorki kaupmaður né heildsali en ég hef staðið í þeirri trú að verðmyndun á vörum sem fluttar væru inn til landsins væri með þeim hætti að verð vörunnar í íslenskum krónum ,,yrði til"  þegar varan væri leyst úr tollinum.  Þá væri borgað fyrir vöruna í íslenskum krónum á því gengi sem í gildi væri þá stundina. Þar með myndaðist grunnur fyrir verðið á vörunni í íslenskum krónum.  Er þetta einhver vittleysa í mér??  Er hér á landi eitthvað annað ferli í gangi varðandi verðferli á innfluttum vörum sem ég þekki ekki til?  Vöruverðsferli sem gengur út á það að vörur séu í hillunum og verð á þeim hækki síðan eftir því hvert gengi krónunnar er í það og það skipti??  

Það væri gott ef einhver spekingur myndi stíga fram á sjónarsviðið og skýra út fyrir okkur með hvaða hætti vöruverð væri reiknað út þannig að maður hefði betri forsendur til þess að fylgjast með.  Það að hvetja almenning til ráðdeildar er gott og blessað en fyrst og síðast verður hinn almenni neytandi að hafa forsendur til að meta hvort rétt sé að farið hjá þeim aðilum sem neytandinn er að versla við.    


Vorið er komið

og grundirnar gróa - nei ekki alveg en mér finnst bjartir marsdagar eins og dagurinn í gær alveg frábærir.  Þá langar mig að fara út í garð og klippa og hreinsa.  Seinni partinn í gær var hægt að sitja í sólinni út á svölum.  Nokkrir krókusar farnir að gægjast upp úr moldinni.   Veðurspáin í dag er svipuð og í gær.  Vorið er ekki alveg komið en það er á hraðbyri til okkar.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband