Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vanræksla

Ekki eru þær upplífgandi upplýsingarnar sem berast manni þessa daga um afleiðingar aukinnar fíkniefnaneyslu hér á landi.  Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að 228 börn í Reykjavík voru send í fóstur í fyrra og stór hluti þessara barna hafi búið við mikla vímuefnaneyslu foreldra sinna.  Í gær kom fram að talið er að 20 mæður hafi á síðastliðnu ári látist vegna neyslu og 15 til 20 mæður væru núna í mikilli hættu vegna vímiefnaneyslu.

Öðru hvoru síðustu ár hefur Þórarinn Tyrfingsson komið fram í fréttum og líst yfir áhyggjum sínum af aukinni fíkniefnaneyslu hér á landi.  Hjá honum hefur komið fram að það sé mikil aukning í fjölda ungra fíkniefnaneytenda hjá þeim á Vogi.  Öðru hvoru hefur jú eitthvað heyrst frá lögreglunni en ekki mikið.  Að öðru leiti hefur umræða um fíkniefnavanda fólks á Íslandi hvorki hlotið mikla umfjöllun eða fengið mikla athygli hjá almenningi eða stjórnvöldum.

Á meðan við sofum á verðinum og sinnum ekki óveðurskýjum né dómsdagsspámönnum þá hafa 228 börn í Reykjavík lifað við slíkan aðbúnað að réttast þykir að taka þau út úr þeim aðstæðum og koma þeim fyrir í fóstur hjá öðru fólki.   Við höfum sýnt þessum börnum þá vanrækslu að sinna engu þeim upplýsingum að mikil auknin sé á fíkniefnum í landinu, að sífellt fleiri verði neytendur og því hætta á því að foreldrar barna séu í fíkniefnaneyslu.  Við höfum sýnt þessum börnum þá vanrækslu að hafa ekki tekist að minnka aðgang að fíkniefnum í landinu né auka hjálp og liðsinni við fólk til að takast á við neysluna né sinnt foreldrum þannig að þau breyti lífi sínu.  Við skiptum okkur ekki af því að það sé aukin fíkniefnaneysla í landinu.  Við skiptum okkur ekki af því að það eru 228 börn sem eru það vanrækt að taka verður þau af foreldrum sinnum.  Við erum að vanrækja fólkið okkar. 


Matarholan

Það er víða að finna matarholur fyrir fyrirtækin af ólíklegustu gerðum.  Ég lagði á mig núna í morgunsárið að kíkja á þetta frumvarp fjármálaráðherra sem er núna í umfjöllun í þinginu.  Ég skil  þetta frumvarp þannig að fella eigi niður skatt af arði félaga af hlutabréfakaupum.  Það finnst mér dálítið einkennileg ráðstöfun.  Mér finnst að ríkið hafi staðið sig mjög vel í því að lækka skatta á fyrirtæki en ekki staðið sig eins vel í að lækka skattaálögur á einstaklinga.  En þegar ég les umsögn með frumvarpinu þá kemur fram að hér virðist vera um skatt að ræða sem fyrirtækin geta síðan frestað í það óendanlega að greiða í ríkissjóð??

----- 

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

----Í skattskilum lögaðila kemur ekki fram hversu stór hluti tekna er vegna söluhagnaðar og liggur því ekki fyrir hversu mikill skattur er greiddur af honum. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið eru líkur á að skatturinn skili fremur litlum tekjum bæði vegna þess að í reynd er hægt að fresta skattlagningunni óendanlega og vegna þess að mörg íslensk félög hafa flutt eignarhald á hlutabréfum til landa sem ekki skattleggja söluhagnað.---

------ 

Ef ég skil þetta rétt þá eru semsagt núna í gildi lög um skatt um söluhagnað af hlutabréfakaupum félaga sem eru þannig að hægt er að fresta skattlagningu óendanlega og því hefur ríkissjóður ekki haft neinar skatttekjur af þessum hagnaði félaga.  Því er talið réttara að hreinlega fella þennan skatt niður.  Afar sérkennilegt mál í alla staði, en mjög skiljanlegt að enginn greiði skatt sem hægt er að fresta greiðslu á í það óendanlega - það er ljóst.  


 


Snjór og hálka

Gunnar hringdi norður í Svarfaðardal í gærkvöldi og náði í Óskar bónda í Dæli.  Þá var snjókoma í Dalnum væna.  Maður sér á vefmyndavélum Vegagerðarinnar að það er kuldalegt um að lítast á fjallvegum fyrir norðan.  Ég man eftir því að hafa verið í fermingu í dalnum sem var haldin um 10 júní og það snjóaði nóttina fyrir ferminguna það mikið að það varð hvítt niður að á. Hitastigið fermingardaginn var um plús 4 gráður á Celsíus.  Eða eins og einn íbúi á Kópaskeri sagði við mig þegar ég var í heimsókn það eitt sumarið:  Hitastigið hér á Kópaskeri þetta sumarið er búið að vera eins og maður vill hafa kjörhitastig í ískápnum sínum.  Í kringum fjórar gráðurnar.  Svona getur norðanáttin verið erfið við norðlendinga, eins og sunnanáttin er góð og yndisleg.

Fyrsta sumarferð okkar í ár í Dalinn væna verður farin í tengslum við sautjándajúní jublíem bóndans.  Það er nú meira en mánuður þangað til þannig að ég er ekkert farin að örvænta með að snjóa hafi eitthvað leyst þegar við mætum á svæðið.  En áttin hefur verið full norðanstæð sem af er vorinu.  Og ekki hjálpar það til þegar heldur áfram að snjóa si svona öðru hvoru. 


Þrift

Sat áðan og stytti ermar í kápu sem mér hefur áskotnast og festi tölur og hlustaði um leið á Kastljósið þar sem rætt var um sóun okkar Íslendinga.  Mér fannst ég á þeirri stundu vera einmitt eitt stykki gott exemplar um þriftuga konu þar sem ég var þá að laga til kápu þannig að hún geti nýst mér.  Mér fannst einhvern veginn eins og orðið þrift og að vera þriftug þýddi að vera nýtin og fara vel með en þar sem ég var ekki alveg pottþétt á þessu hjá mér þá fór ég og gáði í íslensku orðabókina og þar segir:  Þrift - þriftar KV velmegun, velgengni, gengi.

Þannig að eitthvað hefur nú skilningur minn skolast til en ég er samt eitthvað svo pottþétt á að hafa heyrt þetta notað sem jákvæð lýsing á einstaklingi sem fer vel með það sem honum áskotnast og nýtir vel hlutina án þess að vera nirfill eða nískur.  Ég hef þá skoðun á sjálfri mér að ég sé hvorki nirfill né nísk en þriftug er ég.  Þetta kvöldið að minnsta kosti.


Hagaskóli 50 ára

Í ár eru 50 ár frá því að Hagaskóli hóf starfsemi í núverandi húsnæði og verður haldin afmælishátið af þessu tilefni í lok maí.   Það hafa verið einhverjar hugmyndir á lofti hjá nemendum og starfsmönnum með hvaða hætti afmælishátíðin á að fara fram.  En fyrst þarf að takast á við vorprófin sem eru framundan en að þeim loknum ætla nemendur og starfsmenn að taka höndum saman og hefja undirbúning afmælishátíðarinnar.   Ég vona og er næsta viss um að bæði undirbúningur og framkvæmd afmælis verður bæði skemmtilegur, lærdómsríkur og gefandi fyrir þá aðila sem að málum koma.


Alþjóðlegi hláturdagurinn

1698060_asta_hlaturer á morgun sunnudag þykist ég hafa séð einhversstaðar.  Ég er vön að segja að Ásta Valdimarsdóttir, hláturkennari sé vinkona mannsins míns, en hún er nú reyndar ágætis vinkona mín líka.  Ásta kenndi Gunnari söng í Söngskólanum í Rekjavík hérna á hinni öldinni og hafa þau haldið góðu sambandi síðan.  Þegar hún Ásta kom forfrömuð í hláturfræðum hingað til Íslands fyrir nokkrum árum síðan þá bauð hún okkur fjölskyldunni á hláturnámskeið sem hún var með í Norræna húsinu.  Okkur frannst þetta svona svolítið skrítið en af því okkur líkar svo vel við Ástu og höfum fulla trú á því að hún tæki ekki upp einhverja dellu þá mættum við á námskeiðið fjölskyldan og prófuðum að hlæja undir leiðsögn Ástu í takt við klapp og nokkrar mismunandi  hláturgerðir.  Það er svona karlahlátur, konuhlátur, í-hí-hí hlátur ha- ha -ha -hlátur - o.s.frv.  ekki ósvipað laginu hans Ómars Raganssonar í den.  Okkur Jóhanni Hilmi fannst ljónahláturinn lang skemmtilegastur og getum við ennþá notað hann til þess að fara að hlæja þegar sá gállinn er á okkur. 

Auðvitað líður manni dálítið sérkennilega að standa með einhverju ókunnugu fólki og vera að klappa og hlægja.  En það vandist ótrúlega fljótt - og Ásta Valdimars er náttúrulega mjög flink í því að fá fólk til þess að hlægja. Það er gott að hlæja og örugglega mjög hollt. Það er líka frábært að vera bara að hlæja til þess eins að hlæja en vera ekki að hlæja að einhverjum eða einhverju öðru en hlátrinum sjálfum. Þetta er nefnilega alþjóðlegi hláturdagurinn en ekki alþjólegi aðhláturdagurinn.  


Samstaða og samvinna

Til hamingju með daginn.  Baráttudagur verkalýðsins 1. maí er runninn upp.  Það er hollt á slíkum degi að huga að því hverju samtakamáttur og samvinna getur áorkað.   Mér finnst gildi samvinnu og samráðs oft vera vanmetin í samskiptum launþega og atvinnurekenda.  Oft er einhver ákvörðun pressuð í gegn án nægjanlegs samráðs eða samvinnu við launþega og þá notuð margvísleg rök fyrir ákvörðunum svo sem hina ýmstu vinnutilskipanir og lagabálka.  Oft geta launþegar ekkert annað gert en bitið í það súra epli sem að þeim er rétt.  Slíkt skapar úlfúð og leiðindi sem kemur fram í slæmu vinnuumhverfi.  En hingað til hefur það ekki þótt góð lexía að breyta vinnufyrirkomulagi hjá einhverri starfsstétt með þeim hætti að kjör starfstéttarinnar versni.  Ef breyta verður vinnufyrirkomulagi þá verður að ganga þannig í þau mál að kjörin versni ekki við nýtt og betra fyrirkomulag.  Því þá er viðbúið að launþegi grípi til sinna ráða, saman eða einn og sér.  Samstaða launþega þegar slík staða er komin upp er þá miklu heillavænlegri til árangurs en sundrung.  Sameinaðir stöndum vér sundraðir föllum vér, gömul sannindi og ný.


Norðangarri í garði

Það gengur mikið á hér við norðurhlið hússins   Í fyrsta lagi er svakalega kalt þarna úti núna.  Í öðru lagi eru nágrannarnir búnir að láta fella tvö stór aspartré sem voru við lóðamörkin og skyggðu bæði á þeirra hús og á okkar garð.  Það mættu fimm vaskir piltar frá einhverju garðfyrirtæki og í gang fóru keðjusagir og hviss pó eftir nokkuð puð og mikinn keðjusagarsöng lágu aspirnar í valnum.  Dálítið merkilegt að spá í hve stuttan tíma það tók að saga niður þann árafjöldavöxt.  Ég held að aspir séu ekki góð garðtré í svona litlum görðum eins og eru í þessum húsum okkar á þessum slóðum.  Aspir þurfa mikið pláss þegar þær vaxa og dafna og taka mikið til sín bæði rótarkerfið og krónan.  Þær þurfa því miklu meira pláss en til staðar fyrir slíkan gróður í meðal reykvískum garði.  Því skil ég vel að nágrannar mínir sem voru hættir að fá sól á svalirnar sínar hafi tekið þá ákvörðun að láta fella aspirnar. 

Þannig að nú verður sól lengur í norðurgarðinum mínum þetta sumarið en hingað til síðan ég flutti í þetta hús og er ég ánægð með það.  Í þessum hluta garðsins er oft mjög gott á morgnana á sumrin áður en hafgolan kemur.  En núna þessa stundina er þarna ískalt og hvasst og bara sunnlenskur norðangarri.  En þeir feðgarnir láta það ekki á sig fá.  Fermingardrengurinn ákvað nefnilega að fá að kaupa trampólín fyrir hluta af fermingarpeningunum og studdi móðirinn það heilshugar.  Fjárfest var í trampólíni í dag með öryggisneti og alles og eru þeir núna úti að bauka við að reyna að setja dýrindið saman.  Það gengur frekar hægt en þeir jaxlast þetta piltarnir.  Ég aftur á móti hlakka til að fá að prófa að hoppa á trampólíninu.  Það var keypt með extra góðri dempun þannig að það á alveg að þola mig.


Ósáttar hjúkkur

Hitti nokkar hjúkkuvinkonur mínar og fékk beint í æð þeirra útlistun á uppsögnum hjá hjúkkum og almennt um ástandið á spítölunum.  Ekki góð yfirhalning það.  Alltaf verið að spara og spara og færa saman deildir um helgar til að spara.  Þegar síðan upp er staðið þá verður ekki neinn sparnaður af öllum þessum tilfæringum aðeins erfiðleikar og þá sérstaklega fyrir sjúklingana.  Síðan segir ein þeira:  Svo koma út tekjublöðin og þar sér maður svart á hvítu hvað hinir og þessir aðilar sem maður er að vinna með hafa í tekjur.  Uppgefnar útreiknaðar tekjur þessara aðila í tekjublöðunum eru í allt öðru veldi en það sem hjúkrunarfræðingarnir bera úr býtum eftir árið.

Ein þeirra sagði að nýútskrifaður sonur sinn væri byrjaður að vinna í banka og þar væri launaleynd en hann hefði þó getað sagt henni að hann væri með tölvert hærra fastakaup en móðirin sem er með margra áratuga starfsreynslu við vinnu á sjúkrahúsum og framhaldsnám í hjúkrun að baki. 

Það er bersýnlega mikill vandi á höndum innan heilbrigðiskerfisins svo mikið er víst.  Þar takast á stálin stinn og ekkert gefið eftir.  Alltaf á að spara og spara en samt á þjónustan að vera fyrsta flokks.  Spurning hvort vandinn er ekki stærri en svo að lausn hans felist í því að berja á hjúkrunarfræðingunum?


Íslenski fáninn

var hér dreginn að hún í gær að tilefni dagsins.  Mér finnst íslenski fáninn mjög fallegur og vildi óska að fleiri flögguðu.  Ég veit að mjög margir eru með fánastöng við sumarbústaðinn sinn og flagga fánanum þar og það finnst mér flott.  En mér finnst vanta fleiri fánastangir í garðana í þéttbýlinu.   Við Gunnar vorum í brasi í fyrsta sinn sem við stóðum að því ein og sér að flagga, höfðum ekki fundið þessa fínu síðu þar sem farið er í gegnum aðferðina.  Hún er svo sem ekki flókin en við vorum ekki alveg með þetta á hreinu en vorum svo heppin að nágranni okkar hann Geir sá til okkar hjónanna og bjargaði málum.   

Danir eru mjög duglegir að nota fánann sinn, Dannebrog, og flagga honum allstaðar sem þeim dettur í hug og nota fánalitina, hvítt og rautt óspart við hin og þessi tækifæri.  Danir eru nefnilega alls ekkert kærulausir og ,,ligeglad" eins og svo margir Íslendingar halda fram að þeir séu.  Danir eru mjög passasamir um ýmsa hluti sem skipta miklu máli í sambandi við samkennd og svona ákveðna góða tegund af þjóðarstolti.  Það þarf ekkert að vera rembingur þótt maður vilji hag sinnar þjóðar sem bestan og haldi upp merki þjóðarinnar.  Ég held líka að ef við erum einlæg í okkar samhug og þjóðarstolti sé engin hætta á því að þjóðin tapist þó komi til aukinnar samvinnu við önnur lönd Evrópu.

Þakhrafninn minn sem hefur fengið nafnið Krúnkarinn er mættur á svæðið.  Hann virðist ekki hafa fundið kvenhrafninn ennþá.  Hann er hér fyrir utan gluggann hjá mér núna með sínum furðuhljóðum.  Ætla rétt að vona að einhver krummadís fari að gera vart við sig. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband