Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Seljavallalaug taka tvö

Það kom mér mjög á óvart að lesa um hvernig staðið var að ákvörðun og framkvæmd við uppbyggingu Seljavallalaugar en fyrsta laugin varð til á einni helgi seinni part sumars árið 1922.  Reyndar var aðeins um jarðvegsframkvæmd að ræða þarna fyrsta kastið og Seljavallalaug var útbúin úr hlöðnu grjóti og þakin að innan með torfi.  Samkvæmt greininni góðu í Morgunblaðinu eftir Jón Á. Gissurarson sem ég hef verið að endursegja hér á þessu bloggi þá var einn hængur á þeirri laug, erfitt var að sjá ofaní laugina, vatnið og laugin urðu svo samlit.  Einn piltur var nær dauða en lífi í lauginni en sundkennarinn var nokkra stund að finna hann.  Einnig þótti augljóst að laugin myndi ekki standast ágang árinnar.  Því var tekin sú ákvörðun að steypa laugina.  En áfram úr greininni um Seljavallalaug:

Næstu viku var sund kennt með litlum hvíldum frá morgni til kvölds. Til þess að nýta tímann sem best var legið við í tjöldum en þau áttu bændur þeir sem um langan engjaveg höfðu. Eftir vikunámskeið voru allir syndir.Að loknu sundnámskeiði stofnuðu þátttakendur ungmennafélag.

Sýnt þótti að þessi laug yrði ekki til frambúðar. Laugará myndi tæta hana í sig í vatnavöxtum. Fyrsta samþykkt hins nýja ungmennafélags var að reisa steinsteypta laug. Nú dugði sjálfboðaliðsvinna ekki ein. Fé þurfti fyrir efniskaupum. Menn skiptust á að leita samskota í sveitinni. Varð þeim vel ágengt. Vorið 1923 var sement fengið beint úr millilandaskipi við Vestmannaeyjar um borð í mótorbát. Hann flutti sementið upp að sandinum endurgjaldslaust.

Reis svo sundlaug frá grunni. Hún er 25 metrar að lengd, lengsta laug landsins þá. Annar langveggur er bergið en gaflar, gólf og hinn langveggur úr steypu. Sundnámskeið voru haldin komandi ár. Brátt fóru stúlkur að læra sund, svo og fullnaðarprófsbörn. Austur-Eyjafjöll munu fyrst fræðsluhéraða landsins hafa notað heimild í lögum til að gera sund að skyldunámi. Þessi þjú héröð notuðu sér sömu heimild um líkt leyti: Vestmannaeyjar, Svarfaðardalur og Reykjavík

Nágrannasveitir sendu börnin sín að Seljavöllum til sundnáms. Fram til 1957 var skólabörnum kennt í Seljavallalaug, en þá fluttist það í nýja laug í Skógarskóla. Í september 1936 gerir afspyrnuveður um land allt með óhemju vatnavöxtum undir Eyjafjöllum. Í hamförum þessum rauf Laugará langvegg Seljavallalaugar og gólf svo eftir stóðu gaflar einir nýtilegir. Skjótt var brugðið við sementið sótt . Ójöfnu var saman að jafna um flutninga og 1923, Markafljót brúað og bílfært alla leið. Laugin komst upp um haustið. Menn voru reynslunni ríkari og gengu svo tryggilega frá, að Seljavallalaug hefur staðið af sér allar hamfarir til þessa dags.

Einu upplýsingarnar sem mér finnst vanta er um byggingu hússins, þe. búningsklefanna.  Ég finn ekkert um hvenær þeir hafa verið byggðir, dettur í hug hvort það hafi verið árið 1936 þegar laugin var endurbyggð eftir skemmdirnar í vatnavöxtunum?  En þetta er flott frásögn um útsjónasamt fólk og harðduglegt og sýnir okkur hverju samtakamátturinn getur áorkað.


Seljavallalaug

seljavallalaug.gif

 Ég var í útilegu undir Eyjafjöllum um helgina.  Við fórum í skoðanaferðir í frábæru veðri og m.a. fórum við og skoðuðum Seljavallalaug.  Ég er soddan norðlendingur og er svo lítið á Suðurlandi að ég vissi voða lítið um þessa merkilegu laug.  Við fengum ágætis leiðarvísi að lauginni og vorum svo heppin að það var hópur á leiðinni á undan okkur sem við eltum.  Ef við hefðum ekki haft þau til leiðsagnar þá hefði ég að öllum líkindum snúið við.  Bæði fannst mér lengra að lauginni en ég átti von á frá bílastæðunum og einnig fannst mér leiðin frekar óskýr.  Ég hefði einhvernveginn haldið að það væri kominn meiri troðningur eða stígur að þessari laug.  En hvað veit ég svo sem norðlendingurinn.  Jæja við komumst nú loks að lauginni sem átti að vera lokuð held ég en ofaní og í kring um hana var fullt af fólki í blíðskaparveðri og allt gott með það.  Mér finnst hún frábær þessi laug og var að skoða mannvirkið náttúrulega.  Þá tók ég eftir því að aðeins fyrir neðan laugaveggin var eins og hlaðinn grjótveggur.  Ég fór að spá í það hvort hefði verið gerð hlaðin laug þarna áður en þessi sem nú er var steypt.  

Ég tók mig síðan til eftir að ég kom heim og náði mér í eftirfarandi fróðleik á netinu um þessa laug Seljavallalaug.  Að mestu leiti er þessi fróðleikur stytt endursögn mín úr þessari grein eftir Jón A. Gissurarson um Seljavallalaug, sem  birtist í lesbók Morgunblaðsins 24. apríl 1982.

Í upphafi þessarar aldar voru Eyfellingar allir ósyntir og mun svo hafa verið frá örófi alda. Eyfellingum hefði þó verið ærin nauðsyn að vera syndir. Sjósókn var önnur lífsbjörg fjallamanna, ýmist frá söndum eða úr útverum. Sagnir voru um sjóslys, oftast uppi í landsteinum við útróður og lendingu. Fáein sundtök hefðu oft getað skilið milli feigs og ófeigs. Fráleitt hefðu þessir 27 Austur – Eyfellingar drukknað 1901 rétt upp í landsteinum við Vestmannaeyjar ef syndir hefðu verið.

Haustið 1922 varð breyting hér á. Flestir ungir menn undir Austur-Eyjafjöllum urðu syndir og það á einni viku. Nú var hægt að læra að synda í heitri laug við Seljavelli. Hvatamaður að sundlaugarbyggingu og kennari var Björn Andrésson í Berjaneskoti. Í sláttulok árið 1922 var Björn kominn heim og hugsaði sér til hreyfings. Hann fékk Ólaf Pálsson í Þorvaldseyri í lið með sér í Laugarárgil til þess að meta aðstæður hvort gerlegt væri að búa til sundlaug þar. Þetta var föstudaginn í 23ju viku sumars. Rétt fyrir innan þar sem heitt vatn vellur fram úr hamravegg skagar berggangur út í gilið en í skjóli hans hefur hlaðist upp stórgrýtt eyri. Ekki nær hún alla leið að laugaopum, þar undir svarrar áin bergið með fullum þunga. Birni og Ólafi sýndist grafa mætti fyrir laug í eyrinni og veita heitu vatni í hana í stokkum. Af sinni alkunnu bjartsýni virtist Ólafi það gerlegt á einum degi fengjust allir strákarnir í sveitinni yfir fermingu til þess.

Í bítið næsta laugardag voru 25 komnir inn í Laugarárgil vopnaðir skóflum, hökum, jarnkörlum og hjólbörum. Þótt sleitulaust væri unnið daglangt skall á myrkur áður en verki var lokið. Menn voru þreyttir og vonsviknir. Kurr kom í liðið. Ýmsir töldu best að láta við svo búið standa og aðhæfast ekki meir. Þá talaði Björn til hópsins að ég ætla orðrétt: Húsbændur ykkar hafa gefið ykkur heilan vinnudag frí. Á morgun er sunnudagur og þið sjálfráðir gerðum ykkar. Þið væruð lyddur einar ef þið nenntuð ekki að ljúka verkinu á morgun. Þetta hreif. Daginn eftir var sundlaugarbyggingu lokið og heitu vatni veitt í hana.  

Áframhald seinna.


Góði hirðirinn

Mömmu vantaði aukasjónvarp til að hafa inní herbergi fyrir gesti þá aðallega barnabörn og barnabarnabörn sem fá stundum að koma í heimsókn á Krókinn og dvelja smá tíma í pössun hjá foreldrum mínum.  Þau voru með gamalt sjónvarp sem eitt barnabarnið hafði skilið eftir hjá þeim en það sjónvarp nýttist til tölvuleikjaspila og í myndagláp.  En þetta gamla sjónvarp gafst upp fyrir ekki löngu og um daginn í öllu fótboltahafaríinu þá var mamma að spá í það hve þægilegt það væri að hafa svona auka sjónvarp.  Ekki síst þegar þegar afinn hertekur eina sjónvarpið á heimilinu og harðneitar að gefa blessuðum barnabörnunum það eftir í spólugláp.

Hún nefndi þetta við mig um daginn og ég sagðist stax við hana að ég skildi athuga fyrir hana að kaupa sjónvarp í Góða hirðinum.  Ég hef góða reynslu af því að kaupa þar rafmagnsvörur á góðu verði, kaffivélin mín er þaðan, ég keypti myndbandstæki á 800 krónur þegar gamla okkar varð alveg ónýtt og einnig keypti ég eitt aukasjónvarp fyrir heimilið.  Öll þessi tæki ganga ágætlega ennþá amk.  Ég komst í Góða hirðirinn klukkan hálf eitt í gær og náði að kaupa þar ágætis Panasonic sjónvarpstæki sem lítur allavega sæmilega út.  Sjónvarpið er með viku skilafrest og þar sem það kemst ekki norður í vikunniri viku verð ég að leggja það á mig að prófa hvort það gengur út vikuna án vandræða. 


Kettir

eru skrítnar skepnur.  Það eru tveir kettir í þessu húsi, annar kötturinn á heima á efstu hæðinni og heitir Svarti Pétur og hinn kötturinn er í pössun á efri hæðinni og heitir Kisan Tangó.  Kisan Tangó hefur tekið okkur, þe. mig og mína fjölskyldu í fóstur og er flutt hingað inn.  Okkur finnst það ekkert verra og hún stjórnar okkur þvílíkt. Þegar maður er orðinn svona stjúpkattarfjölskylda og farin að hafa áhyggjur af flandri katta þá fer manni líka að berast til eyrna ýmsar kattarsögur. Gunnar heyrði eina slíka núna um daginn.

Það var ungur maður sem átti kött en kötturinn hafði þann háttinn á að á hverju kvöldi eftir kvöldmat þá fór kötturinn út og kom síðan aftur heim seint um kvöldið allt að því um miðnætti.  Með tímanum fór þessi köttur að fitna og vildi ungi maðurinn sporna við þeirri þróun hjá kettinum sínum og fór að halda í við hann í mat.  Allt kom fyrir ekki kötturinn hvarf út á hverju kvöldi og hélt áfram að fitna.  Eitt kvöldið ákvað ungi maðurinn að njósna um köttinn sinn.  Athuga hvað hann væri eiginlega að gera á þessu kvöldrölti sínu.  Kötturinn fór út eins og hann var vanur og eigandinn fylgdi í humátt á eftir honum.  Fyrst fór kötturinn í hús í nágrenninu þar sem bjó gömul kona.  Gamla konan tók fagnandi á móti kisu klappaði henni og gaf rjóma í skál.  Þegar kisan var búin að þiggja klapp og rjóma fór hún aftur af stað og eigandinn á eftir.  Þar fór kötturinn rakleitt inn um glugga í kjallaraíbúð þar í nánd og settist upp í sófann og tók til við að horfa á sjónvarp með ungum manni sem þar bjó og tók vel á móti kisu.  Kötturinn og ungi maðurinn horfðu saman á eina videóspólu og fékk kötturinn eitthvað snakk með sjónvarpsglápinu.  Það fylgdi ekki sögunni hvað eigandinn lá lengi á glugganum og fylgdist með kettinum sínum.  En hann var allavega vísari um hvað kötturinn hans var að bardúsa á hverju kvöldi og að það þýddi að halda í við köttinn í mat á heimaslóð.  Kötturinn var búinn að taka sér a.m.k eina gamla konu og einn ungan mann í fóstur.  


Pyt með det

Verðmerkingar í Bónus eru ekki nógu góðar.  Ég fór í gær að versla og ég leitaði og leitaði í þremur tilfellum af verðum á vörunni sem ég hafði áhuga á að kaupa og fann verðið hvergi.  Mér finnst þetta alls ekki nógu gott.  Maður á að fá að vita verðið á vörunni í verslununum.  Í gamla daga voru settir litlir verðmiðar á hverja einustu vöru, hvern einasta pakka.  Þetta er ekki lengur gert.  Mér finnst satt best að segja vera spurning hvort ekki verður hreinlega að endurnýja þá kröfu að allar vörur séu verðmerktar og verslunin fái ekki leyfi til að nota aðeins rafrænar hillumerkingar.  

Ég hef alltaf látið það fara dálítið í taugarnar á mér hvað verð á matvörum hér hjá okkur á Íslandi er síbreytilegt.  Maður þarf alltaf að tékka verðið á matvörunni, sérstaklega á það við um ávexti og grænmeti og einnig á verðinu á kjötvörum og fiski.  Þegar ég var í Danmörku árin 1984 - 1986 þá var allt annar kúltur þar á matvöruversluninni.  Þar var miklu meiri stöðugleiki í verðlagningu og ekki komið eins aftan að neytandanum eins og mér hefur alltaf fundist vera raunin á matvörumarkaði hér á Íslandi.  Ég held að allir viti hvað ég á við með þessari staðhæfingu minni en til þess að fyrirbyggja allan miskilning þá á ég við það að kílóverðið á eplum getur hækkað á einni viku um hundruðir króna án þess að maður geti á nokkurn hátt sem neytandi varað sig á því að nú séu eplin orðin dýrari.  Þá á ég við að maður vissi að verðið á eplum myndi hækka því nú væri síðasta haustskipið komið eða eitthvað álíka gáfulegt.  Ég tel að meðan endalaust er verið að hræra í verðum á matvöru þá sé mjög erfitt fyrir neytendur að fá sæmilega verðvitund.  

Égfór inná heimasíðu Neytendastofu og náði þar í eftirfarandi fróðleik um verðmerkingar á vörum í búðum.  Síðan er það spurning í mínum huga hverjir það eru sem fylgjast með því hvort þessum reglum er framfylgt.  Ætli það sé ekki bara ASÍ eða er það kannski Dr. Gunni?  Mér finnst eins og þetta séu einu aðilarnir hér á landi sem eru eitthvað að beyta sér í neytendamálum hér á landi.  Eða hverjir eru að gera verðkannanir í verslunum?  Hverjir eru að fylgjast með því að lögum og reglum sé framfylgt.  Ég hef hvergi orðið vör við þessa aðila.  Þeir eru hvergi sjáanlegir í íslensku þjóðfélagi í dag.   Fínt að hafa falleg lög og reglugerðir um óréttmæta viðskiptahæti og gagnsæi markaðarins og hvað veit ég.  En meðan ekkert er haft með því að fallegu og vel orðuðu lögunum og reglugerðunum sé framfylgt þá segir markaðurinn bara eins og danskurinn --Pyt med det.

Verðmerking á vörum

Til viðbótar ákvæðum III. kafla laga um óréttmæta viðskiptahætti og gagnsæi markaðarins nr. 57/2005 er í reglum nr. 580/1998 um verðmerkingar er að finna nánari útfærslu á því hvernig staðið skuli að því að verðmerkja vörur. Reglurnar kveða á um að verðmerkja skuli hverja pakkningu eða sölueiningu og að verðið skuli vera annaðhvort á vörunni sjálfri eða við vöruna. Þannig er mjög mikilvægt, t.d. þegar verð vöru er gefið upp á hillu, að það sé greinilegt til hvaða vöru verðmerkingin vísar.Hið sama á einnig við um vörur í sýningargluggum. Reglurnar taka til allra vara sem seldar eru neytendum og til allra verslana. Ástæðan fyrir því að svo mikilvægt er að verð sé á vörunni sjálfri eða við hana er sú að einungis þannig geta neytendur auðveldlega áttað sig á samhenginu á milli vöru og verðs. Þannig verður verðmerking á hillu alltaf að vera alveg við vöruna og eins nálægt henni og mögulegt er þegar verðmerkt er með skilti eða verðlista.


Af morðum

Í gær bárust fréttir af því að 31 árs dönsk kona hafði verið drepin í Pakistan fyrir tveimur vikum síðan.  Mágur hennar hafði skotið hana til bana því hún hafði óhlýðnast honum.  Konan var tveggja barna móðir en maður hennar var í Danmörku en hún í Pakistan.  Ég las í íslensku fréttamiðlunum í gær að morð konunnar var nefnt heiðursmorð.  Ég sé núna í morgunsárið að í Morgunblaðinu er morðið nefnt sæmdarmorð.  Ég get ekki að því gert að mér finnst þetta ekki rétt orðnotkun þar sem ég get ekki tengd þennan verknað nokkrum heiðri né sæmd.  Mér finnst réttara að segja frá þessu morði með þeim hætti að konan hafi verið myrt af mági sínum.  Ástæða þess að hann myrti konuna var sú að hún var honum ekki nógu hlýðin að hans mati.  Enginn heiður né nokkur sæmd sem viðkemur þessu morði.   

Yfir í fjörðum

allt er hljótt aftur.  Ungur piltur hrifinn frá okkur á einu augabragði.  Hér eru minningarorð sr. Arnar Bárðar Jónssonar um Örn Sigurðarson sem lést í bílslysi þann 21. júní sl. en jarðaför hans fór fram í Neskirkju í gær.  Örn náði því ekki að verða tvítugur. Siggi og Steinunn foreldrar hans voru með mér út í Danmörku. 

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband