Skógræktin í Skíðadal

Hæ takk fyrir að kíkja hingað, ég er núna á gudrunshil.blogspot.com , ef þú ert að fylgjast með mér vinsamlega breyttu tenglinum.

 

Við hjónin byrjuðum árið 1990 að gróðursetja tré í hól í landi Syðra-Hvarfs í Skiðadal.  Hólinn hefur það fallega nafn Akurhóll og það markar fyrir akri í hólnum frá gamalli tíð en ekki er núna vitað hvað var ræktað á þessum akri sem við höfum haldið hreinum þe. við höfum ekki gróðusett tré í hann.

Nú höfum við til umráða tæpa 4 hektara til gróðursetningar á þessum stað.  Landið er í halla og þar er að finna allt frá algjörlega gróðurlausum melum í mýri, þýfi, holt og hæðir og allt þar á milli.  Við höfum haft það markmið að setja niður trjáplöntur úr svona sirka fimm pökkum árlega.  Trén eru af öllum stærðum og gerðum allt eftir því hvar við erum að planta í hvert sinn.  En lerkið er mjög duglegt á öllum melunum okkar og notum við það óspart.  

Það er gaman að fylgjast með vexti trjánna okkar.  Ég er búin að uppgötva það að fyrstu fimm árin eða svo gerist ekki mikið en þá fara þau að vaxa.  Þannig er ég núna að finna plöntur sem ég taldi að hefðu drepist eða að útplöntun hefði mistekist.  Hér er mynd tekin af lerki sem vex á vondum stað hjá okkur í melnum mjög áveðurs.  


Laxamýri á Dalvík

Ég sá þetta hús ásýndar á Fiskideginum mikla á Dalvík um daginn, reyndar á Fiskisúpudeginum mikla því við fjölskyldan fórum á fiskisúpudaginn til tilbreytingar en ekki á Fiskidaginn.  Ég varð hrifin af litavali hússins en fannst um kvöldið að það væri grátt en komst að því á rigningadegi um síðustu helgi þegar við vorum í berjaferð að Laxamýri er ekki grá heldur græn.  Gunnar minn veit ekki alveg af hverju þetta hús á Dalvík heitir Laxamýri, etv. einhver tenging yfir í Þingeyjarsýslu??

 


Krían er beitt

picture_011.jpgÉg tók þessa mynd um daginn í Jökulsárlóni af kríunni.  Lónið var fallegt og jöklasýnin fín en það skemmtilegasta við náttúruna þennan daginn var krían.  Það var  bersýnilega veiði í lóninu og þarna voru þær kríurnar á ferð - veiddu og veiddu.  Það var ótrúlegt að sjá þær skjóta sér aftur og aftur ofaní lónið hárbeittar.  Þar var veiði að hafa og kríurnar voru á veiðum.

Nú andar suðrið

Ég ætlaði að finna sniðuga þýðingu á Blow the wind southerly en tókst það ekkert svona í morgunsárið og finnst bara gott að fara í smiðju til Jónas Hallgrímssonar.  Sunnanblærinn er okkur góður og svo er einnig eitthvað voða sérstakt við góðar öltur.  

Blow the wind southerly, southerly, southerly,
Blow the wind south o'er the bonny blue sea;
Blow the wind southerly, southerly, southerly,
Blow bonnie breeze, my lover to me.

They told me last night, there were ships in the offing,
And I hurried down to the deep rolling sea,
But my eye could not see it wherever might be it
The bark that is bearing my lover to me.


Sumarsólstöður

Í dag eru sumarsólstöður.  Ég les það á wikipediu að orðið vísar til þess að sólin stendur kyrr, þe. hættir að hækka eða lækka á lofti.  Ég skoða stundum á þessa síðu hjá Veðurstofunni sem sýnir sólarganginn hvern dag og hvernig sólin skín á jörðina.  Sólin verður hæst á lofti hér í Reykjavík kl. 13:30 í dag en ekki lítur vel út allavega á þessari stundu hvort maður fær að sjá til hennar blessaðrar á þeirri stundu.

Ár hvert á sumarsólstöðum er haldið mikið partý við Stonehenge.  Ég sé á netinu að það var metþátttaka í ár, talið að allt að 36 þúsund manns hafi verið þar.  Ég finn ekki upplýsingar um hvort þar sást til sólar við sólarupprás í morgun.  


Músaskítur

Það er skrítið að koma að húsi sem stendur eitt og sér í víðáttu Dalsins eina og verður að sjá um sig sjálft.  Við reynum hjónin að búa vel um litla húsið á hverju sumri þegar við kveðjum Dalinn.  Hingað til hefur allt gengð eins og í sögu.  Húsið litla staðið á sínum stað eins og ekkert mikið hafi gerst síðan síðast þó að hafi gengið á él og norðan hörkur.  Kannski smá ryk hér og þar og flugnaskítur í gluggum.

Núna brá örðuvísi við.  Mýs höfðu fattað húsið littla á grundinni og látið til sín taka.  Reyndar höfum við tvö lítil hús og mýsnar höfðu komist inní geymsluhúsið.  Þar hefur semsagt verið fjör í vetur, þar fannst poki með grasfræjum sem músum finnst bersýnilega mikið varið í.  Sá poki var nagaður í tætlur og lágu leyfar hans og fræjanna um allt gólf í geymslunni ásamt hinu ýmsasta öðru dóti sem músunum fannst einhvern veginn spennandi að naga.  Þar var á ferð til dæmis vatnsveitan mín, hamar og annað smálegt.

Ég sé algjörlega núna hvað við höfum verið heppin hingað til að lenda ekki í þeim músunum.  Því þær virðast vera ótrúlega fimar að komast hvað sem er.  Ég var allan tímann sem ég hreinsaði út geymsluskúrinn dauðhrædd um að finna dauða mús eða finna lifandi mús.  En þrátt fyrir það allt saman og að finnast þetta hinir mestu skúrkar og nagdýr dauðans er eitthvað samt lifandi við það að það skuli vera nagdýr lifandi í Dalnum væna sem láta sér ekki bankahrun eða annað fyrir brjósi brenna.  Náttúran sér um sig svo skrítið sem það er.


Frægir fótboltamenn

Dóttir mín vinnur á veitingastað.  Á föstudagskvöldið var hún að vinna og það kvöld voru sex hollenskir karlmenn við hennar borð.  Þetta voru kurteisustu menn og allt gékk bara ágætlega.  Við annað borð sátu Íslendingar og þegar líða tók á kvöldið þá segir einn þeirra við dóttur mína - veistu ekki hver þetta er þarna við borðið?  Þetta er hann Kallipalli - dóttir mín man ekki einu sinni nafnið  - hann er aflveg oboðslega frægur og flinkur fótboltamaður.  Þú ættir að fá hjá honum eiginhandaráritun.

Dóttir mín hugsað sig um smá stund, svona hvort hún ætti að gera það.  Biðja um eiginhandaráritun.  En hún fattaði strax að það yrði bara hallærislegt.  Í fyrsta lagi þá vissi hún ekkert hver þeirra sexmenninganna þessi frægi Kallipalli var.  í öðru lagi veit hún lítið um fótbolta og hafði enga vitneskju um flinkheit mannsins.  Í þriðja lagi vissi hún ekkert hvað hún ætti að gera við slíka eiginhandaráritun.  Svo hún ákvað bara að láta það vera og láta Hollendingana í friði.  Þetta sýnir svona í hnotskurn hve mikið við fylgjum með fótboltanum hérna á heimilinu.


Kál og púrra

Ég dreif í því í gær að fara í Mörkina í Blesugróf og fjárfesta í salatplöntum, púrru og dilli.  Nú á að prófa sig í matjurtaræktinni þetta sumarið.  Ég fékk mér þrjar jarðaberjaplöntur, dill og graslauk í fyrra.  Jarðaberjaplönturnar eru komnar á gott skrið og líka graslaukurinn.  Dillið lifði ekki af veturinn.  Í fyrrasumar settu systurnar uppi niður alls kyns salöt og kál í öllum stærðum og gerðum og litum i matjurtagarðinn sem er hérna við suðausturhorn hússins.  Um sumarið varð þetta hið fallegasta og litríkasta kál sem var líka bragðgott.  Ég fékk nokkrum sinnum að grípa nokkur salatblöð til að drýgja salatskammtinn hjá mér.

Ég sá það semsagt í fyrra hvað þetta er stórsnjallt fyrirbrigði svona kálgarður í garðinum og hef núna fjárfest í amk. eftirfarandi plöntum:

Venjulegt blaðsalat, klettasalat, sinnepssalat (spennandi, veit ekkert hvernig það bragðast), fjólublátt krumpusalat nafnlaust, og eitt enn salat grænt, nafnlaust líka.  Svo fékk ég mér líka fjórar púrur að gamni og síðan náttúrulega dillið.  Samkvæmt veðurspánni á rigningin að fara að hætta og sólin að fara að skína núna seinni partinn.  Þannig að þá er bara að hætta internetróli og drífa sig út í garð.


Stríð og friður

 

Ég er á póstlistanum hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Einhvern tímann í vetur kom póstur um það að það kæmi rússi í heimsókn til að stjórna hljómsveitinni í rússnesku verki.  Ég ákvað með det samme  að kaupa miða.  Rússar eru náttúrlega bara flottir og þeir hafa betri skilning á sinni músík en aðrir.  Sem er bara rétt og skiljanlegt.  Allavega fórum við hjónin í gær á tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Gennadi Rodestvenski.  Fyrst spilaði eiginkona stjórnandans Viktoaria Postnikova einleik í píanókonsert 24 í C moll eftir Mosart. Mósart hefur virkað á mig sem svona léttur og skemmtilegur og kannski þess vegna hafði ég mjög gaman af þessum píanókonserti hans Mosart því þar kvað við annan tón.  Því þessi píanókonsert verandi í  í moll og allt það er tregafullur og dapur á sinn hátt þótt þar séu kraftmiklir kaflar í bland.  Viktoria hefur sérstaklega lag að spila létt á píanóið sem ég hef ekki heyrt hjá öðrum einleikurum.  Mér fannst það áberandi í uppklappslaginu sem var mjög fallegt hjá henni.  

 

Eftir hlé komu síðan Rússarnir í öllu sínu veldi.  Það var gaman að fylgjast með stjórnandanum benda svona hist og her sem var þó algjörlega ekkert hist og her.  Og fylgjast með hljómsveitinni en stjórnandinn hafði þau algjörlega á sínu bandi og í sínu valdi allan tímann.  Mér fannst mjög áberandi að stjórnandinn vildi fá þögn hér og þar og þá bara algera þögn sem virtist vera erfitt fyrir hljómsveitina að ná.  Mér finnst þetta trennd einmitt vera áberandi í þessu gamla myndbandi sem er af þessum frábæra stjórnanda að stjórna verki eftir annað rússneskt tónskáld en í gær.  Rosalega skemmtilegur stjórnandi hér á ferð sem hafði hljómsveitina algjörlega með sér sam mér fannst líka gaman að sjá því allir í hljómsveitinni voru bara að fylgjast með því hvað hann var að benda og gera.  Bara frábært en fyrst og fremst var það náttúrulega tónarnir og hljómarnir sem hvefldust yfir mann þannig að fyrst og fremst að það náttúrulega tónskáldinu að þakka. Sem hann benti á í lokin.  Það  eru þau sem eru að gera þetta allt mögulegt.  Frábærir tónleikar í alla staði.


Til hamingju Ísland

með annað sætið, rosalega flott hjá okkar fólki sem stóð sig eins og hetjur.  Ég er mjög ánægð með Eurovision þetta árið, var mjög hissa á því að við skildum lenda í örðu sæti, átti ekki von á því en vonaði alltaf að við yrðum í topp tíu.  Mér fannst þau öll mjög flott en auðvitað er það lagið og Jóhanna sem eiga vinninginn hvað okkur varðar.  En Alexander var mjög pottþéttur og flottur með álfasöguna sína og á sigurinn skilið.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband