Björk og Sigur Rós

 

Ég er spennt fyrir útitónleikunum sem þau ætla að halda saman ásamt fleirum í Reykjavík laugardaginn 28. júní nk.  Tónleikana halda þau til að vekja fólk til vitundar um umhverfismál á Íslandi og verða þeir einhversstaðar í Reykjavík klukkan eitthvað.   

Sumarið er komið hvað tímaplan og skipulag varðar, þær eru ekki margar sumarhelgarnar okkar Íslendinga.  Hér á þessum bæ eru þessar fáu helgar ásetnar með fyrirframáætlaðri dagskrá þannig að þegar slíkar alheimsstjörnur eins og Björk og Sigur Rós tilkynna með litlum fyrirvara um útikonsert á einni af þessum helgum þá fer allt í kerfi í kerfinu.  En hvað með það maður sleppir nú ekki svona tónlekum það er á hreinu.  Meðan tímasetning tónleikanna er ekki komin þá er ég ennþá í limbói með önnur plön þessa tilteknu helgi varðar.  Spurning líka hvaða uppsetning verður á tónleikunum hjá Björk, vona bara að hún áformi að hafa með sér þá flottu tónlistarmenn sem hafa verið með henni á tónleikaferðarlögunum undanfarið svo sem Wonder-Brass hópurinn.  Ég hef á tilfinningunni að þetta eigi nú allt eftir að koma í ljós fyrr en síðar.....

Oceania

One breath away from mother Oceanía your nimble feet make prints in my sands

You have done good for yourselves since you left my wet embrace  and crawled ashore

Every boy, is a snake is a lily every pearl is a lynx, is a girl

Sweet like harmony made into flesh

You dance by my side Children sublime

You show me continents I see the islands you count the centuries I blink my eyes

Hawks and sparrows race in my waters

Stingrays are floating across the sky

Little ones, my sons and my daughters

Your sweat is salty

I am why I am why I am why

Your sweat is salty I am why I am why I am why


Villuráfandi fjallabjörn

Það er margt skrýtið í kýrhausnum.  Og ekki hefur síður verið margt skrítið í hausnum á hvítabirninum sem var á ferli við Þverárfjallsveg í gær.  Björninn hefur að öllum líkindum tekið land einhvers staðar á Skaganum og ef svo er hefur hann verið búinn að ráfa lengi um Skagfirskan dal og hól áður en sást til hans.  Ég held að hann hafi verið orðinn sárfættur af ráfinu sá ekki betur á myndbandinu sem tekið var af honum áður en hann var felldur.

Mamma mín hefur það fyrir sið að fara í heilsubótargöngu á hverjum degi einn svona stutta útgáfu af fjallahring eða þannig við Sauðárkrók, fer upp við spennistöðina á Krók og gengur stundum yfir að golfvellinum og þar niður og heim.  Bangsi átti svo sem eftir nokkra kílómetra að Sauðárkróki en samt ekkert svo svakalega langt og hefði alveg geta stikað það hefði hann fengið frið til þess. Dálitið uggvænleg tilhugsun satt best að segja ef móðir mín þarf að vera á varðbergi gagnvart hvítabjörnum á sinni daglegu heilsubótargöngu.

Mér skilst að eftir að búið var að fella hinn villuráfandi fjallabjörn í gær þarna rétt við þjóðveg númer sirka tvö á Íslandi þá hefðu komið hjólandi á fjallahjólum tveir þjóðverjar.  Þó að vegum sé lokað þá er fólk og skepnur víða á ferð um ferð og firnindi.  Þó bjössi hafi etv. verið orðinn sáfættur eftir klungur yfir skagfiskt grjót þá er aldei að vita uppá hverju hann hefði tekið ef hann hefði mætt fólki á hjóli eða göngu.

Heimsóknarvinur síðunnar samdi tvö kvæði í tilefni af þessari komu hvítarbjarnarins á skagfirskar fjallaslóðir:

 --------------------------------

Yfir kaldan úthafssjó

að Íslandi ég syndi.

Í Skagafirði finn ég ró

fegurð skjól og yndi.

---------------------------------                      

Ævin var á enda runnin,

eflaust þannig málið skýrið.

Það er of seint að byrgja brunninn

þegar búið er að skjóta dýrið.

 


Vigdís Finnbogadóttir

Ég kom við í Melabúðinni á leiðinni heim í gær úr vinnunni til að kaupa áburð fyrir sumarblómin mín.  Ég taldi auðsýnt að þeim veitti ekki af einhverri hressingu eftir austanrokið á sunnudaginn.  Þegar ég kom að kassanum hitti ég þar fyrir aðra mömmu úr bekknum hans Jóhanns Hilmis og við fórum að ræða nýliðinn vetur og bekkinn í Hagaskóla og annað sem hafði gerst um veturinn.  Við höfðum um margt að ræða og okkur leiddist ekkert en eitthvað gékk þetta erfiðlega á kassanum og eftir smá stund fórum við að athuga hvað tefði afgreiðsluna.  Fyrir framan kassann stóð ljóshærð glaðleg kona sem bað okkur afsökunar á þessari bið sem hún væri valdur að.  Þarna var komin fyrrverandi forseti vor Vigdís Finnbogadótir.

Vigdís sagðist hafa heyrt á tal okkar tveggja og við ræddum smá stund málin og á þessari litlu stund kom Vigdís að áhyggjum sínum af unga fólkinu okkar og þróun íslenskrar tungu.  Ég áttaði mig á því í gær þarna við kassann í Melabúðinni hvað ég er hrifin af Vigdísi Finnbogadóttur.  Ég var mjög ánægð með hana sem forseta á sinni tíð, fannst hún alltaf standa sig mjög vel og ég fann í gær hvað ég er ánægð með hana enn þann dag í dag.  

Hafði lúmskt gaman af því þegar ég uppgötvaði að þarna stóð ég við kassann í Melabúðinni með eitt sólskinsbros á andlitinu yfir því að vera að tala við Vigdísi Finnbogadóttur - hafði ekki gert mér grein fyrir því að ég væri svona mikill Vigdísar aðdáandi.  Stundum kemur maður sjálfum sér á óvart.


Heimsóknarvinurinn er músíkalskur

því hann er núna farinn að semja undir lagboða og senda til síðunnar.  Heimsóknarvinurinn er líkt og ég hrifinn af laginu og ljóðinu Næturljóð úr Fjörðum og samdi eftirfarandi vísu við það lag.

Veltis á ýmsu veröldin

váglegur skjálfti á Suðurlandi.

Að okkur steðja óhöppin

Ólafur Ragnar sjálfkjörinn.

Alþingi loksins fór í frí

flestallir gleðjast af því.

 


Rok

Ég ætlaði að vera dugleg um helgina og setja niður kartöflur í Skammadal og klára að setja niður sumarblómin í garðinn.  En rokið og leiðindin í veðrinu í gær gerðu þær áætlanir að engu, ég nenni ekki að berjast við náttúruöflin í garðverkum.  Aumingja sumarblómin mín sem ég var búin að setja út í garð í góða veðrinu seinni partinn á laugardaginn þau fengu svo sannalega að finna fyrir reykvíska sumrinu. 

Frétti af tengdamömmu í gær, fyrir norðan var glampandi sól og hiti, þar var kominn á Læk einhver trjáklippari mikill og var í ham að klippa niður brekkuvíðirinn og viðjuna sem tengdapabbi heitinn vildi ekki láta snerta við á sínum tíma.  Ég er einnig með reit við Læk sem klipparinn og tengdamamma höfðu áhuga á að klippa líka niður og fannst mér það í góðu lagi.  Nema í reitnum er ein ösp fengin frá Ingu frænku á Mið-Grund.  Ég margítrekaði við tengdamömmu að ekki mætti klippa niður öspina en hún er dálítið mikið inní viðjuhnappnum hjá mér, ekki alveg nógu góð staðsetning hjá mér þar, verður að játast.  Ég hef nokkar áhyggjur af öspinni minni við Læk og að trjáklipparinn hafi tekið hana með í klipperíinu.  Sjáum hvað setur, það er erfitt að vera með svona fjarstýringar norður í land.  Gunnar telur næsta víst að klipparinn mikli hljóti að þekkja mun á ösp og viðju. Einhvern veginn er ég ekki alveg sannfærð. 

Aspirnar frá Ingu frænku eru alveg rosalega fallegar, beinvaxnar og sérstaklega gott kvæmi sem ég veit ekkert hvaðan er.  Það er ein stór aðalösp á Mið-Grund sem Inga frænka hefur ræktað margar aspir af og ég fékk síðan eina grein af henni fyrir um 18 árum síðan.  Ég hef síðan ræktað af þeirri grein margar aspir sem eru komnar hjá mér út um allt í landi Syðra-Hvarfs og í Akurhólnum hjá mér.  Þessar aspir eru allar mjög fallegar og beinvaxta eins og fallega öspin á Mið-Grund.  En mér þykir bersýnilega mikið til þessara tilteknu inní miðju viðjuhnappi koma og hefði helst vilja vera á svæðinu þegar verið var að klippa í nálægð við hana.  Það verður bara að játast.


Önnur ferskeytla frá heimsóknarvini

Heimsóknarvinur þessarar bloggsíðu var svo hrifinn af mynd Sigmunds í Mogganum í dag að hann samdi samstundis þessa ferskeytlu og sendi til síðunnar:

Ingibjörg í fríið fer
fær sér bein að naga.
Eftirlaunin eftir sér
ætlar hún að draga.


Skjálftar

hengill

Mér finnst ótrúlegt að fylgjast með skjálftavirkninni á Suðurlandi á heimasíðu Veðurstofunnar.   Það hrisstist allt og skelfur ennþá þarna og jarðskjálftarnir raða sér eftir þessari sprungu sem búið er núna að fræða mann um að skjálftinn varð á.  Á heimasíðunni getur maður líka fylgst með stærð skjálftanna og það eru ennþá að koma skjálftar öðru hvoru á svæðinu sem eru yfir 3 stig á Richter.  

 Það er vissulega spennandi pælingar í gangi varðandi það að geta sagt fyrir um jarðskjálfta og varað við þeim.  Núna kom fyrst skjálftinn í Ingólfsfjalli uppá 3,2 stig og þá strax byrjaði skjálftahrina á svæðinu og svo kom stóri skjálftinn klukkutíma seinna.  

Eins og Ragnar Skjálfti lýsti þessu þá voru menn á skjálftavaktinni að spá í spilin og að komast að þeirri niðurstöðu að eitthvað stærra gæti gerst þegar stóri skjálftinn kom.  Ég tel næsta víst að með aukinni þekkingu, þéttara neti skjálftamæla og aukinni tæknivæðingu við að lesa úr óróamælingum og skjálftamælingum þá eykst möguleikinn á því að hægt verður með betri vissu að vara við möguleiga stærri skjálftum. 

Það er vissulega ákveðin hætta fólgin í því að gefa út viðvaranir um að yfirvofandi sé einhver vá sem ekki reynist síðan rétt.  Menn eru hræddir við úlfur, úlfur syndrómið og að ef slíkt gerist að menn hætti þá að taka mark á slíkum viðvörunum.  Hins vegar held ég að ef menn geta skýrt út af hverju verið er að gefa út viðvaranir, að þá skilji fólk það betur og láti þá ekki viðvaranir sem vind um eyrun þjóta þótt að þeir atburðir sem varað er við gerist ekki.   Ég hef fulla trú á okkar góða  vísindafólki í jarðeðlisfræðinni og því að þau muni finni hinn gullna meðalveg viðvörunarmálunum.   Það er líka spurning hvort ekki þarf að setja upp einhverskonar viðvörunarkerfi þannig að hægt væri að vara við með því að gefa út gult eða rautt hættustig eða einhvað þvílíkt ef eitthvað er í gangi í stað þess að þurfa að láta þeyta almannavarnaflauturnar.  Ef þær eru þá ennþá til --


Næturljóð úr Fjörðum

eftir Böðvar Guðmundsson hefur sótt á mig þessa dagana.  Um daginn var ég á ferð um hádegisbil og þá var Næturljóðið síðasta lag fyrir fréttir í frábærum flutningi söngkonunnar Kristínar Ólafsdóttur.  Maður er alveg hættur að heyra í henni en mikið rosalega er hún góð söngkona.  Svo einn morguninn um daginn kom Næturljóðið aftur í útvarpið snemmmorguns en þá var það hún Kristjana Arngrímsdóttir, frá Dalvík sem söng en mér finnst Kristjana líka frábær sönkona.  Ég er hrifin af góðum öltum og þessar tvær eru það svo sannalega.  Verst að ég hef ekkert tóndæmi til að setja hér inn en lagið er líka eftir Böðvar Guðmundsson.  Þetta er svona undurfallegt týpiskt íslenskt tregalag og ljóð.

Næturljóð úr Fjörðum

Yfir í Fjörðum allt er hljótt
Eyddur hver bær hver þekja fallin
Kroppar þar gras í grænni tótt
gimbill um ljósa sumarnótt
Háreistum fjöllum yfirskyggð
ein er þar huldufólksbyggð

Bátur í vör með brostna rá
bíður þar sinna endaloka
lagði hann forðum landi frá
leiðina til þín um vötnin blá
Aldrei mun honum ástin mín
áleiðis róið til þín

Fetar þar létt um fífusund
folaldið sem í vor var alið
aldrei ber það um óttustund
ástina mína á vinafund

Grær yfir leiði grær um stein
gröfin er týnd og kirkjan brotin
Grasrótin mjúka græn og hrein
grær yfir huldufólksins bein
grær yfir allt sem áður var
ástin mín hvílir nú þar


Ferskeytla frá heimsóknarvini

Ég hef ekki verið mjög upptekin af því að reyna að eignast bloggvini á þessu bloggi mínu né verið virk á blogginu í því að setja athugasemdir hjá öðrum bloggurum.  En nú hef ég eignast heimsóknarvin bloggsins sem er alveg ný vídd í blogginu hjá mér.  Heimsóknarvinurinn bloggar ekki sjálfur né sendir inn athugasemdir en hann sendi mér þessa vísu í gærdag:

Mikið er það starf og strit

stendur orðlaus þjóðin.

Ljómar af þeim list og vit

lesa Skólaljóðin.

Sumir vinir og vandamenn geta etv. haft einhvern grun um hver heimsóknarvinurinn er.  Ég vona bara að hann verði duglegur að senda mér vísur, þó að þingið sé farið heim og jörðin skjálfi á Ísalandi. 


Þetta var þá sniðgengisskjálfti

sem reið yfir á Suðurlandinu klukkan korter í fjögur í dag.  Heyrði það í sjónvarpinu áðan.  Ég vissi það strax og ég fann fyrir titringi í dag að um jarðskjálfta var að ræða en ekki sprenginu en sprengingar eru töluvert algengar við húsið sem ég vinn í.  Mér fannst jarðskjálftinn vera langur og ætla aldrei að enda taka og var svona að farin að spá í það hvort ég ætti virkilega að fara að verða hrædd.  Ég var stödd uppá fjórðu hæð og meðan á skjálftanum stóð þá var ég einnig að hugleiða það hve erfitt væri að koma sér út úr húsinu og einnig var ég að spá í það hvaða leið best væri að fara ef ég yrði að koma mér út. En skjálftinn tók enda og ég hélt ró minn.  En hann var stór eða amk. 6,1 á Richter og þessi skjálfti var nærri höfuðborgarsvæðinu en 17. júní skjálftinn árið 2000.  Allir sem ég hef talað við í dag eru sammála um að þessi skjálfti hafi verið sterkari hér í Reykjavík en 2000 skjálftinn.

Ég er ákveðin í því að mig dreymdi fyrir þessum skjálfta.  En mig dreymdi drauminn ekki í nótt heldur í  fyrrinótt.  Ég vissi að þetta var vondur draumur en náði ekki alveg að skilja um hvað hann gæti verið og náði ekki heldur að bera drauminn undir pabba minn sem er sérlega flinkur draumráðningamaður.  Svo illa sat draumurinn í mér í gær að ég sagði vinnufélögum mínum í gærmorgun þegar ég kom í vinnuna að ég hefði slæma tilfinningu fyrir deginum af því mig hefði dreymt illa.  Ég lofaði að segja þeim drauminn í lok vinnudags en svo var alveg brjálað að gera í vinnunni og ég steingleymdi því í annríki dagsins.  Hélt sannast að segja að draumurinn hefði eitthvað með allt það vinnuhafarí að gera og þar með var sá draumur afgreiddur.  Vinnufélagarnir mundu þetta atvik eftir skjálftann í dag og voru ákveðnir í því að þarna hefði draumurinn komið fram.  Samt voru þeir ekki búnir að heyra drauminn.  En ég held satt best að segja að þetta sé bara hárrétt draumaráðning hjá þeim. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband