Verðbólgan
27.5.2008 | 07:53
Verðbólgan mældist 12,3% í maí. Verðbólgan mældist 11,6% í april. Mér finnst alltaf góð sagan af bóndanum í Skagafirði sem svaraði svo til einhvern tímann í fyrndinni þegar honum var sagt að það ríkti góðæri í landinu og nefndar prósentutölur því til sönnunar að það þýddi ekkert að fara með einhverjar útreiknaðar meðaltalsprósentur og hlutfallstölur um velsæld landans, því hann væri sjálfur með besta mælikvarðann á því hvort væri góðæri og hagsæld í hans ranni. Það væri hans eigin pyngja. Þyngd hennar segði honum allt sem segja þurfi um ástandið. Því þýddi ekkert að lesa yfir honum útgefnar forsendur sem bentu til góðæris, ef hans eigin pyngja væri létt þá væri ekkert góðæri hjá honum.
Ég fór nefnilega að versla í gær og ég verð svo sannalega vör við hækkun verðlags á matvöru í minni buddu. Miðað við útgefnar meðaltalsprósentur skellt á matvöruna þá hefur 5000 krónu innkaup í byrjun mars kostað mann kr. 5.615.- í byrjun apríl og kr. 6.266.- Mér finnst hækkunin vera meira en þetta síðustu mánuði. Ég fór áður og keypti töluvert inn fyrir um 5000 kall en er núna að greiða 8000 krónur fyrir mjög svipaða matarinnkaup. Þetta er miklu meiri munur en útreiknaða meðaltasverðbólgan er að gefa. Einhverstaðar er vittlaust gefið í þessum kapal það er á hreinu.
Sól og blóm
26.5.2008 | 06:52
Heilmiklu afkastað í garðinum ágætisveðri á milli í gærdag. Ég fór snemma út í garð, mér finnst oft mjög gott veður á morgnana hér í vesturbænum sem hafgolan blessunin vill síðan skemma fyrir manni um hádegið. Í gær var öðru hvoru smá vindur og einnig faldi sólin sig stundum en þá er bara að fara inn og fá sér kaffi. Við fórum í blóma og plöntuleiðangur hjónin á laugardag, keyptum silfurskúf, margarítur og hádegisblóm fyrir sameignina en jarðaberjaplöntur, rósmarín og meyjarblóma fyrir mig. En í gær var ég mest í því að laga til og undirbúa beðin fyrir gróðursetningu.
Einnig tókst mér í gær á milli golu og sólarskugga að rusla upp hraunhlaðna veggnum við götuna þar sem hann var verstur þannig að ég er bara ánægð með það dagsverk hjá mér. Einnig réðst ég á gamalt úrsérsprottið beð í garðinum og útbjó þar svæði fyrir jarðaberjaplönturnar. Bóndinn felldi niður fánastöngina því það er kominn tími á að mála gripinn. Mér fannst gaman að sjá hve góður viður er í stönginni einhver meiri háttar harðviður þar á ferð. Ætla mér síðan að nota góða veðrið sem spáð er í þessari viku til að setja niður blómin mín fríð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rússnesku birnirnir unnu
25.5.2008 | 08:34
þrátt fyrir að söngvarinn skriði um á gólfinu sem mér fannst sérkennileg sviðsframkoma eins og áður hefur komið fram. Það lag fannst mér svona allt í lagi og það var mikið í það lagt hjá rússunum. Mér fannst okkar fólk standa sig mjög vel, er samt ekki frá því að mér hafi líkað betur flutningurinn hjá þeim á fimmtudagskvöldið. Ég var að vonast til þess að þau kæmust í topp tíu, fannst persónulega og prívat að þau ættu það alveg skilið en svona er evróvisíon. Við getum bara verið stolt með fjórtánda sætið það er allavega margfalt betra en að komast ekki í aðalkeppnina.
Norska lagið var mjög gott, sænska dívan var flottari í gær en á fimmtudaginn, danir og finnar ágætir, mér fannst vanta smá kraft í aðalsöngvarann í franska laginu en bakraddirnar þar voru svaka fínar. Mér fannst stundum lýsingin og notkun á sjónvarpsvélunum vera skrítin í gær, t.d. voru þau í skugga á tímabili Friðrik Ómar og Regína sem mér fannst mjög slæmt. Mér fannst vindvélin ofnotuð í gærkvöldi til dæmis í portúgalska laginu þar sem kjólarnir á konunum klessust alveg upp að þeim það fannst mér vandræðalegt og ljótt og draga athyglina frá flutningi lagsins.
Svona er þetta það verður allt að ganga upp lag og flutningur og sviðsframkoma, notkun sjónvarpsvéla, lýsing og svo framvegis. Mér fannst sumir söngvararnir í gærkvöldi vera í basli með að halda lagi sem mér finnst sérkennilegt með lög sem eru komin í úrslit í evróvisíon. En þetta var bara gaman þótt að Evrópa hafi ekki verið samþykk mér með stöðu íslenska lagsins miðað við hin lögin því ég fer ekkert ofan af því að þau voru í topp tíu hjá mér.
Ísland endaði í 14. sæti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 09:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Húbert Nói
24.5.2008 | 08:05
opnaði sýninguna Geometria í Gallerý Turpintine, Ingólfsstræti í gær. Ég er hrifin af myndunum hans Húberts Nóa, finnst þær mjög flottar og hafa yfir sér einhverja innri ró. Mér finnst sérstaklega flottar myndirnar hans þar sem kemur eins og lýsing innan úr myndunum, skil ekki almennilega hvernig hann fer að því.
Á þessari sýningu núna er líka vídeóverk af borholum og reyk úr borholum sem var mjög flott og dáleiðandi. Mæli með þessari sýningu hjá Húbert Nóa, en hún verður opin til 17. júní .
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Áfram Ísland
23.5.2008 | 08:07
Já þau komumst áfram í gær krakkarnir okkar í Eurobandinu. Mér fannst þau mjög örugg í gærkvöldi og flutningurinn á laginu takast ágætlega. Ég hafði sannast að segja búist við því að þau yrðu send heim, þetta hefur verið erfið fæðing hjá okkur Íslendingum að komast upp úr undanúrslitariðli Euróvisíonkeppninnar.
Ég sat ekki við sjónvarpið í gegnum alla keppnina í gær þannig að ég er get ekki sagt til um það hvernig allir keppendurnir stóðu sig, náði þó nokkrum lögum, fannst t.d. Charlotte Perelli betri í undanúrslitunum heima hjá sér í Globen í Svíþjóð en þarna. Ég er ekki alveg að skilja sviðsframkomu hjá nokkrum flytjendum í keppninni í ár, eins og þetta að skríða í gólfinu eins og Rússinn á þriðjudaginn og í gærkvöldi fannst mér fullmikið um það að flytjendurnir væru að basla eitthvað að fara uppá kassa og box. Mér finnst þetta klifur í miðjum lögum vera truflandi.
Meðan á flutningi á síðari hluta keppninnar fór fram í gærkvöldi brunaði ég í bíl í gegnum Þingvöll og heim til Reykjavíkur en við hlustuðum á keppnina í útvarpinu á leiðinni. Ég var því komin heim í stofu þegar úrslitin lágu fyrir og gat hoppað upp úr stólnum og klappað vel og lengi fyrir árangri Eurobandsins.
Dúlla kvöldsins var Friðrik Ómar í tíufréttunum þar sem þau stóðu í hurðinni í rútunni hann og Rebekka og hann sagðist vera í sjöunda himni en ætlaði ekki að fara með neinn málshátt í þetta sinn.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vanræksla
22.5.2008 | 07:25
Ekki eru þær upplífgandi upplýsingarnar sem berast manni þessa daga um afleiðingar aukinnar fíkniefnaneyslu hér á landi. Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að 228 börn í Reykjavík voru send í fóstur í fyrra og stór hluti þessara barna hafi búið við mikla vímuefnaneyslu foreldra sinna. Í gær kom fram að talið er að 20 mæður hafi á síðastliðnu ári látist vegna neyslu og 15 til 20 mæður væru núna í mikilli hættu vegna vímiefnaneyslu.
Öðru hvoru síðustu ár hefur Þórarinn Tyrfingsson komið fram í fréttum og líst yfir áhyggjum sínum af aukinni fíkniefnaneyslu hér á landi. Hjá honum hefur komið fram að það sé mikil aukning í fjölda ungra fíkniefnaneytenda hjá þeim á Vogi. Öðru hvoru hefur jú eitthvað heyrst frá lögreglunni en ekki mikið. Að öðru leiti hefur umræða um fíkniefnavanda fólks á Íslandi hvorki hlotið mikla umfjöllun eða fengið mikla athygli hjá almenningi eða stjórnvöldum.
Á meðan við sofum á verðinum og sinnum ekki óveðurskýjum né dómsdagsspámönnum þá hafa 228 börn í Reykjavík lifað við slíkan aðbúnað að réttast þykir að taka þau út úr þeim aðstæðum og koma þeim fyrir í fóstur hjá öðru fólki. Við höfum sýnt þessum börnum þá vanrækslu að sinna engu þeim upplýsingum að mikil auknin sé á fíkniefnum í landinu, að sífellt fleiri verði neytendur og því hætta á því að foreldrar barna séu í fíkniefnaneyslu. Við höfum sýnt þessum börnum þá vanrækslu að hafa ekki tekist að minnka aðgang að fíkniefnum í landinu né auka hjálp og liðsinni við fólk til að takast á við neysluna né sinnt foreldrum þannig að þau breyti lífi sínu. Við skiptum okkur ekki af því að það sé aukin fíkniefnaneysla í landinu. Við skiptum okkur ekki af því að það eru 228 börn sem eru það vanrækt að taka verður þau af foreldrum sinnum. Við erum að vanrækja fólkið okkar.
Hrefna og hnísa
20.5.2008 | 19:33
Ég man eftir því sem krakki á Húsavík að stundum kom fyrir að bátar komu til hafnar með hrefnu fasta við síðuna og þá var maður sendur niðrá bryggju. Þegar þangað kom var handagangur í öskjunni, hrefnan komin uppá bryggju og tveir eða þrír kallar sem mynduðu kuta, skáru kjötið af hrefnunni og létu þá sem vildu fá kjötbita. Ég man eftir því þegar ég var fyrst send niðreftir, ég hef verið eitthvað 5 ára eða svo og þá var ég fyrst spurð hverra manna ég væri og þegar ég hafði svarað því til þá fékk ég bitann afgreiddann. Mamma steikti síðan hrefnukjötið á pönnu og mér fannst og finnst hrefnukjöt gott. Ég held endilega að stundum einnig fengist hnísukjöt á Húsavíkinni og það sé líka ágætt.
Ég var að skoða núna á netinu upplýsingar sem finnast þar um hvali og rakst m.a. á skemmtilega síðu www.nordurskodun.is en þar er m.a. að finna þessa síðu sem sýnir hvali sem hægt er að finna á Skjálfandaflóa. Þar sér maður vel stærðarmuninn á hvölunum. Ég hafði t.d. ekki gert mér grein fyrir því að hnísan er svona lítil, hún er bara smá, smá, smá hvalur.
Samkvæmt upplýsingum á ensku wikipediu telja Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin að hrefnustofninn sé í þó nokkurri hættu. Hér vildi ég gjarnan geta hringt í hann Gísla Víkings til að fá upplýsingar um áætlaða stofnstærð okkar hrefnustofnsins. Einnig vantar mig tilfinnalega upplýsingar um hnísuna - hvað ætli hnísan heitii á ensku? Það er allavega ekki til íslensk síða á wikipediu um hnísuna og ég kemst því ekki lengra með þessar hrefnu og hnísupælingar mínar að sinni.
Varðandi veiðar á hrefnu og hrefnuveiðikóta þá er ég er meðfylgjandi því að við nýtum hlunnindi lands og miða en það þarf að meta þá möguleika á nýtingu miðað við ástand á stofnum og aðra hagsmuni. Það getur t.d. engan veginn passað saman að stunda hvalveiðar á sömu stöðum og verið er að selja fólki ferðir til að skoða hvali í sínu náttúrulega umhverfi.
Í umræðunni | Breytt 21.5.2008 kl. 07:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvarfshnjúkur
19.5.2008 | 18:19
Hvarfshnjúkur gnæfir yfir Syðra-Hvarfi í Svarfaðardal eða nánar tiltekið í Skíðadal þar sem Gunnar maðurinn minn ólst upp. Við vorum ekki alveg sammála í gær um hæðina á Hnjúknum, sem er yfirleitt nefndur svo í daglegu tali fyrir norðan. Ég taldi Hnjúkinn um 1200m háan en Gunnar taldi hann vera 800m. Það taldi ég utansveitarkonan að gæti ekki verið rétt hjá sveitardrengnum, fjallið væri mun hærra en það. Jæja ég hef gert könnun á netinu sem leiðir í ljós að Hvarfshnjúkur er 1035m hár. Ég vissi það að hann væri allavega yfir 1000m hár. Syðra-Hvarf er í 80m hæð þannig að þaðan er djúgt að fara á topp.
Þau eru nefnilega há fjöllinn í Svarfaðardal og í Skíðadal, Rimar sem eru fyrir aftan Hnjúkinn eru 1300m en hæsti tindurinn er Dýjafjallshnjúkur sem er 1456m og er innaf dal við bæinn Klængshól.
Oft og iðulega hef ég áformað það þar sem ég sit í stofunni minni hér í Reykjavík að nú skuli ég drífa mig af stað og klífa amk. Hnjúkinn næsta sumar og etv. eitt eða tvö fjöll í viðbót. Ég hef meira að segja keypt mér gönguskó því ekki gengur maður Hnjúkinn á Ekkó skóm það er ljóst. Fjallgöngustuðið hefur hins vegar látið bíða eftir sér þegar ég dvel í Dalnum væna. Ég hef yfirleitt svo rosalega margt skemmtilegt að gera alltaf þegar ég er þar stödd að ég hef aldrei neinn tíma í fjallgöngur og kemst ekki af stað. En núna t.d. þar sem ég pikka þetta inn í tölvuna finnst mér alveg upplagt að drífa mig á Hnjúkinn í sumar. Sjáum svo hvað setur. Kannski ég lækki væntingarnar aðeins og reyni að komist uppá brún en þangað hef ég einu sinni farið en brúnin sést á meðfylgjandi mynd, og er kannski í 400 - 500m hæð og í gamla daga voru nú kýrnar reknar þangað uppeftir á hverjum degi. En að fara uppá brún er þó betra en að gera ekki neitt í fjallgöngumálunum, einhvern veginn er ég á þeirri skoðun þessa stundina. Stefni ákveðið á brúngöngu í sumar.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fé og frami
17.5.2008 | 08:39
Í blaðinu 24 stundir í dag á blaðsíðu 18 er lítil frétt í kafla blaðsins sem ber nafnið Fé og frami. Í henni greint frá því að raunveruleg ástæða fyrir því að konur í Bretlandi þéna minna en karlar sé sú að þær sinni frekar heimilisstöfum en karlarnir. Barneignir hafa minni áhrif á laun.
Mér finnst þessi könnun og þessar niðurstöður athygliverðar. Miðað við upplýsingarnar í 24 stundum var fylgst með 5000 breskum fjölskyldum í 15 ár þannig að hér er ekki um einhverskonar skyndi - slembi - fimm mínútna símtalskönnun að ræða heldur áralangar rannsóknir. Sem leiðir semsagt í ljós að giftar konur og konur í sambúð verja u.þ.b. 12 tímum á viku í heimilssstörf en karlar 4-5 tímum. Einhleypar konu verja að meðaltali 7 tímum í heimilisstörf en ekki kemur fram í fréttinni hve löngum tíma að meðaltali einhleypir karlar verja til heimilisstarfa.
Einfalt reiknidæmi sýnir að með því að stofna heimili með öðrum aðila bæta konurnar á sig 5 tíma vinnu við heimilisstörf. Mér finnst það verulega sorglegt að þær þurfi virkilega að bæta svona mikilli vinnu á sig við heimilisstörf bara með því að fara í sambúð með öðrum aðila. Með þáttöku á vinnumarkaði vinnur meðalkonan frá kl. 9 á morgnana stanslaust til kl. 8 á kvöldin ef heimilisstörfin eru aðeins unnin hversdags.
Það sér það hver maður að hver meðalkona hefur ekki mikinn þrótt eða kraft né getu eftir slíka meðaltörn að meðaltali allt árið um kring til þess að vera að standa í því að bæta við sig enn meiri vinni á vinnumarkaði ef hún þarf ekki nauðsynlega hvað þá að fara að standa í eltingarleik við frægðina. Niðurstaða könnunarinnar er að glíma kvennana í sambúð við innkaupapokann, þvottakörfuna og pönnuna gerir það að verkum að konur ná hvorki jafn miklu fé né frama og karlarnir sem þær eru í sambúð með.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Maísólin
15.5.2008 | 07:27
gefur mér orku, það er ekki spurning. Settist út á svalir með kaffibolla í síðdegismaísól í gær og áður en ég vissi af var ég komin út í garð vopnuð skóflu og farin að berjast við tvær runnarætur sem lágu út í hlaðna haunvegginn en það að laga hann er eitt af garðverkum sumarsins. Þar sem ég var að bjástra við ræturnar þá birtust systurnar á loftinu, önnur á hjóli en hin á bíl og þær voru svo áhugasamar með að hjálpa við rótarbaráttunna að áður en varði var björninn unninn og ræturnar lágu í valnum.
Þarf að verða mér út um þökur í dag einhversstaðar í borginni, veit ekki hvar hægt er að nálgast slíkt það þarf töluvert að endurnýja grasið og laga til meðfram beðum. Ef verður aftur svona frábær maísól seinni partinn í dag þá er aldrei að vita hverju verður áorkað í henni blessaðri.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)