Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Hverjir eru bestir?

Samkvæmt þessari úttekt eru það strákarnir.  Þeir eru bestir og fá betri laun en stelpurnar í samræmi við það.  Það er svo einfalt.  Sorry girls störf okkar eru bara ekki eins mikils virði og störf strákanna. 

Hvað er málið

Hvað er málið með okkur Íslendinga og menn sem fara um með ofbeldi.  Ég er ekki alveg að átta mig á því.  Er það málið að fórnarlömb ofbeldis verða að kæra sjálf til þess að eitthvað sé gert í málinu?  Mér skylst að ekki sé hægt að gera neitt hér á landi gagnvart misyndismönnum frá öðrum löndum fyrr en lögregla í heimalandi þeirra sendi hingað til lands handtökuskipun eða einhverja skipun.  Hvernig á útlenska lögreglan að vita að maðurinn sem þeir eru að leita að sé staddur hér á Íslandi?  Ég fæ engan botn í það eftir umfjöllun síðustu daga.

Ég sem hélt að hægt væri að kæra fólk sem færi um með ofbeldi og væri með blóðug verkfæri í bílunum hjá sér eftir slíkar ofbeldisheimsóknir.  Það er semsagt miskilningur hjá mér.  Ég skil umfjöllun síðustu daga í fjölmiðlum með þeim hætt að til þess að hægt sé að taka slíka menn úr umferð og kæra fyrir lögbrot þá verði fórnarlömbin sjálf að kæra.  Í gær kom ræðismaður Póllands sem ég held að sé staðsettur í Noregi og sagði að pólverjar væru ekki nægilega hræddir við íslensku lögregluna.  Hann vildi að íslenska lögreglan færi í skóla til Póllands til þess að læra af pólsku lögreglunni.  Ég veit ekki hvað það ætti að bjarga málum fyrst ekki virðist hægt að kæra mennina sem eru með ofbeldi og læsa þá bak við lás og slá og senda þá síðan heim til sín.  Það virðist ekki vera hægt í dag nema til komi beiðni um slíkt frá heimalandi þeirra.  Miðað við minn skilning á umfjöllun síðustu daga um erlenda misyndismenn á Íslandi þá er það málið.  


Peysufatadagur

upphluturKvennaskólans í Reykjavík er í dag.  Dansfélagi dótturinnar kom og náði í hana kl. átta í morgun.  Elinborg Hulda, dóttir mín er í upphlut sem ég á en sá upphlutur á sér nokkra sögu.  Ömmur mínar tvær, amma Ása og amma Gunna notuðu báðar mikið íslenska  þjóðbúninginn og þær áttu báðar bæði upphlut og peysuföt.  Amma Ása notaði töluvert það sem hún kallaði fljótbúninginn, en þá fór hún bara í þjóðbúningapilsið sitt og var síðan í svartri gollu og hafði sjalið yfir öllu saman.  Þá sást ekki að hún var hvorki í þjóðbúningapeysunni né upphlutnum innan undir.  Amma Gunna var öllu hátíðlegri í sinni umgengni um búninginn og man ég ekki eftir því að hún hafi nokkurn tímann notað slíkan fljótbúning.  Alltaf ef eitthvað markvert var í gangi hjá fölskyldunni og á hátíðisdögum fóru ömmur mínar í íslenska þjóðbúninginn.

Þegar farið var yfir bú ömmu Gunnu við lát hennar kom í ljós að hún hafði átt þjóðbúninga eða búningasilfur handa dætrunum sínum.  Mamma og móðursystur mínar hafa hins vegar ekki haft áhuga á því að eiga né skarta slíkum búningum.  Mamma mín arfleifði mig því af því búningasilfri sem féll í hennar skaut.  Ég fékk þar með silfurmyllur, beltissylgju og silfurhólk.  Með þetta silfur í farteskinu dreif ég mig siðan á námskeið í þjóðbúningasaumi hjá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands, þar sem ég saumaði minn upphlut með mikilli hjálp og aðstoð hennar Vilborgar, sem kenndi námskeiðið þegar ég fór.  En mig vantaði borða á upphlutinn og ég vildi bara balderaða borða og alltaf jafn bjartsýn fór ég á námskeið í baldýringu.  Þvílikt mál að baldera - það gékk ekki vel hjá mér og mér tókst ekki að klára borðana mína.  Mamma tók því þá ákvörðun þegar ég varð fertug að gefa mér í afmælisgjöf balderaða borða á  upphlutinn minn. 

Þar með var upphluturinn minn kominn og verð ég að segja að dóttirin var bara nokkuð fín í morgun í  upphlut móður sinnar og með gamla svarta sjalið hennar ömmu Ásu.  Ég virðist vera eitthvað hrædd um það, því ég sagði amk. fjórum sinnum við hana Elínborgu Huldu þar sem hún sveif á vit peysufatadagsins -  þú verður að passa sjálið -    


Gangastúlkan

Ég vann eitt sumar á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki sem gangastúlka.  Ég var á þeim tíma eitthvað að spá í að læra að verða sjúkraþjálfari eða eitthvað annað heilsutengt.  Tók þá skynsömu ákvörðun að reyna að fá einhverja vinnu á sjúkrahúsi til þess að prófa hvernig mér líkaði vinna á slíkum stað.  Pabbi minn fór af stað og bað Sæmund Hermanns á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki um vinnu fyrir mig.  Það tókst og sumarið sem ég var átján ára vann ég sem gangastúlka á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki.  Fyrsta morguninn sem ég mætti var ég sett nýgræðingurinn í að hjálpa til við að baða mann sem hafði dottið af hestbaki og lá rúmfastur.  Það fannst mér erfitt.  En erfiðasta verkið sem ég fékk sem gangastúlka var að hreinsa upp ælu.  Það er mér næsta ógerlegt verð ég að játa og ég kvaldist þvílíkt ef ég varð að stunda slíkt hreinsunarverk.

Í nótt vöknuðum við upp við það að sonurinn þrettán ára kallar fram- ég var að æla.  Faðir hans fór strax á stjá en móðirinn kúrði sig smá stund undir sænginni og herti upp hugann.  Sonurinn hafði fengið svo hastalega ælupest að hann rétt náði að setjast upp áður en spýjan kom.  Koddinn, sængin, lakið, rúmið já já allt undir lagt.  Sem betur fer er Gunnar nokkuð harður af sér í æluhreinsunum og hann náði að græja heilmikið áður en mér tókst að hafa mig framúr og í slaginn.  Ég setti öll rúmfötin strax í þvottavél þótt klukkan væri þrjú um nótt og ákvað að hitt fólkið í húsinu yrði bara að þola það þótt ein þvottavél færi í gang um miðja nótt.  Pilturinn hefur verið heima í dag og ekkert ælt meira.  Mér hefur hins vegar ekkert liðið allt of vel í allan dag hvort sem það er vegna æluhreinsunarstarfa eða eitthvað annað. 

Og til að hafa það á hreinu þá ákvað ég strax haustið eftir gangastúlkusumarið mitt að ég skyldi horfa í aðrar átt eftir framtíðarstörfum en til heilsugeirans.  Ég væri einfaldlega ekki nógu hörð af mér til þess að geta unnið svo vel væri við þau störf sem þar þarf að vinna. 


Í um 20 km NV af Gjögurtá

er jarðskjálftahrina í gangi.  Samkvæmt upplýsingum um jarðskjálfta á heimasíðu Veðurstofunnar mældust margir skjálftar þarna í gær.  Eitthvað hafa umbrotin dottið niður í nótt.  Það hlýtur að vera rætt um málið við Ragnar Skjálfta um þessi umbrot og hvað þau þýða en hann er fluttur norður í Svarfaðardal. 

Mér er mjög minnistætt þegar Óskar í Dæli sagðist sem barn hafa verið mjög hræddur við jarðskjálfta og snjóflóð.  Ég hef aldrei verið hrædd við jarðskjálfta en ég man eftir mjög stórum skjálfta sem var á Húsavík.  Held jafnvel að hann sé kallaður Húsavíkurskjálftinn, er samt ekki viss.  Fólk þusti út úr húsunum sínum svo mikill var skjálftinn og ég man að mér fannst það merkilegt að sjá fólkið úti í myrkrinu í náttfötunum.  Annað sem mér fannst merkilegt voru hljóðin sem fylgdu skjálftanum.  Það voru nefnilega einhver einkennileg urghljóð sem komu úr jörðinni að því mér fannst.  En ég var svo mikill krakki að í minningunni fannst mér þetta meira merkilegt allt þetta hafarí heldur en að ég hafi eitthvað orðið hrædd við skjálftann.  Snjóflóð voru ekki rædd mikið á Húsavík í gamla daga og ekki var mikið um það umræðuefni í Borgarnesinu.  En fólkið í Skíðadal þekkir til þeirra hörmunga sem snjóflóð og jarðskjálftar geta valdið.


Vetrarþjónusta

Ég er búin að vera á ráðstefnu Vegagerðarinnar um vetrarþjónustu síðustu daga en hún var haldin á Akureyri.  Prófaði reyndar sjálf á eigin skinni að keyra afleggjara heim að einum bæ í Skíðadalnum þar sem ekki er nein vetrarþjónusta frá Vegagerðinni.  Þvílíkur munur það var alveg ótrúlegt fannst mér þessu malbiksbarni.  Leiðin frá Akureyri heim að afleggjaranum var næsta snjólaus, en þegar ég kom að Skíðadalsafleggjaranum þá var komin dálítil snjókoma, einnig smá skafrenningur þannig að skyggnið fór minnkandi.  En það var ekki neinn snjór að ráði á veginum og allt í góðum gír að því mér fannst.  Síðan kem ég að afleggjaranum að Syðra-Hvarfi og brá í brún.  Þar voru töluverðir ruðningar við veginn heim að bænum og farið að skafa í ruðninginn.  Ég setti nú samt bílaleigubílinn í fyrsta gír og tók ákvörðun að reyna við afleggjarann.  Mér fannst í raun ótrúlegt að það gæti verið svo mikill munur á færðinni frá því að vera að keyra eftir næsta snjólausum aðalvegi að fara yfir á heimreið sem væri ófær.  Til að gera langa sögu stutta þá komst ég hálfa leið að bænum, ákvað að fara ekki lengra á bílaleigubílnum, tókst að snúa honum við og gékk töluverða leið heim að bænum.  Þegar ég var þangað komin og búin að fá gott kaffi og meðlæti hjá tengdamömmu þá hringdi ég í svila minn til að fá aðstoð við að komast aftur út á veg.  Ég var nefnilega með það á hreinu að ég kæmist ekki upp stóra brekku sem er á þessari leið.  Hann Ingi Björn, svili minn kom síðan á jeppanum og aðstoðaði mig upp stóru brekkuna og keyrði á undan mér niður á aðalveginn. 

Enn og aftur þá verð ég að segja að ég varð mjög undrandi á því hvað afleggjarinn var illfær.  Það hafði snjóað um síðustu helgi blautum snjó og þá hafði afleggjarinn verið ruddur og voru ruðningarnir eins og stórar klakabrynjur sitt hvoru meginn við veginn.  Síðan bara snjóaði og snjóaði og renndi og renndi og allur sá snjór og renningur datt niðrá veginn á milli ruðninganna.

Ég var mjög heppin að lenda ekki í neinu brasi, ég komst yfir versta hjallann og mér tókst að snúa bílaleigubílnum við.  En þvílíkur munur á vegi sem er uppbyggður og með vetrarþjónustu Vegagerðarinnar og heimreið að bæ þar sem ekki er um slíka þjónustu að ræða.  Og hvað getur snjóað mikið á stuttum tíma í Skíðadalnum.  Dal einn vænan ég veit, en eins og tengdamamma mín sagði við mig - Guðrún mín, þú hefur svo lítið þekkt dalinn væna í vetrarbúningi, þú ert svoddan sumarbarn hérna í dalnum.  Það er svo sannalega satt en núna er ég reynslunni ríkari. 


Hlauptu Gúa, hlauptu

Já, já ég er alltof auðtrúa.  Ég set mig alltaf í stellingar hvert ár þegar fyrsti apríl rennur upp og ætla sko ekki að hlaupa apríl.  Þykist mjög góð þegar ég fatta eitthvert fyrsta apríl gabb hjá vinnufélögunum nú eða í fjölmiðlum.  En á hverju ári tekst samt alltaf eitthvað að koma mér á óvart og ég læt gabbast.  Ég hljóp apríl í vinnunni, var sagt að mæta á ákveðinn stað klukkan 10 og ég dreif mig á staðinn og komst ég að því að um aprílgabb var að ræða.  Sá svo í dag á mbl.is að hægt væri að fara að horfa á bíómyndir á mbl.is, og það væri hægt að horfa ókeypis í dag.  Frábært, hugsaði ég og tilkynnti bóndanum þetta kostaboð hjá mbl.is og að ég væri að hugsa um að horfa á einhverja góða mynd í kvöld.  Helduru ekki að þetta sé aprílgabb - sagði minn rólegi Austfirðingur.  Nú er ég búin að leita og leita inná mbl.is og finn hvergi þessar ókeypis bíómyndir - búin að hlaupa apríl í annað sinn og verð að játa mig gersigraða af aprílgöbbum þetta árið.  Og hann er svo sem ekki búinn enn.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband