Færsluflokkur: Dægurmál

Víðari sýn

Ég skrapp í nokkra daga til Noregs.  Þar sá ég í sjónvarpinu eitt kvöldið viðtal við norska forsætisráðherrann Jens Stoltenberg.  Þar voru efnahagsmálin í Noregi til umræðu og spyrillinn spurði á einum tímapunkti.  Er einhver hætta á því að norskt efnahagslíf lendi í sömu krísu og íslenskt efnahagslíf stendur núna frammi fyrir?  Svarið hjá Jens Stoltenberg var á þá lund að engin hætta væri á því að sú staða kæmi upp.  Norsk efnahagslíf væri öflugt, stæði á sterkum fótum og hefði traustar undirstöður.

Ég efast ekki um að Jens Stoltenberg telur örugglega að hann sé ekki að fara með neinar fleipur um stöðu efnahagslífsins í Noregi.  Það getur líka vel verið að þetta sé allt satt og rétt hjá honum.  Hins vegar voru svörin hjá honum alveg nákvæmlega þau sömu og allir bankastjórarnir fyrrverandi og bankastjóraformennirnir fyrrverandi báru fram fyrir okkur þjóðina hér fyrir einum og hálfum mánuði eða svo.  Og ég man ekki betur en að fleiri en bankamennirnir svo sem eins og einn og einn ráðamaður  hafi einnig viðhaft þessi sömu orð um öflugt efnahagslíf, traustar undirstöður, öfluga banka, miklar eignir og ég veit ekki hvað og hvað.

Ekki var nú mikið að marka þessar yfirlýsingar allar saman sem menn báru á borð fyrir okkur fram í rauðan dauðann.  Hér eftir trúi ég ekki einu einasta orði frá mönnum í sjónvarpinu sem fer að tala um traustar undirstöður og öflugt efnahagslíf.  Alveg sama hver sá maður er og hvaðan.  


Að spara

Miðað við hvernig farið hefur nú fyrir sparnaði fólks hér á landi virðist eitt hafa komið út úr öllum þessum bankahremmingum hér á landi.  Það vitlausasta sem hver maður gerir hér á landi er að spara.  Sparnaður fólks er að brenna upp í þessu töluðu orðum, annað hvort vegna þess að sparnaðurinn hefur verið inná peningasjóðum bankanna þar sem ég held að fólk fái til baka helming af því sem það setti þar inn.  Annar sparnaður er að brenna á verðbólgubálinu sem kaumar þessa dagana, hversu stórt það bál er veit enginn því enginn veit hver staða krónunnar er þessa stundina.

Svo eru það lífeyrissjóðirnir okkar góðu, og allur sérlífeyrissparnaðurinn.  Ég veit ekki hve oft hefur verið farið fögrum orðum um lífeyrissjóðakerfið okkar og hve útlendingar öfunduðu okkur af því og ég veit ekki hvað.  Hvernig er staðan með þann sparnað landsmanna núna?  Það er mjög óljóst og enginn sem getur gefið nein svör.  Er lífeyrisparnaði landsmanna etv.  bara best fyrir komið hjá hverjum og einum en ekki í einhverjum sjóðum?  Þá geti fólk valið það að sofa með lífeyririnn undir koddanum sínum í stað þess að hann hverfi í bankaspilavíti dauðans.


Svartur mánudagur - heimsóknarvinahugleiðing

Heimsóknarvinur síðunnar sendi inn hugleiðingu vegna atburða dagsins:

Svartur mánudagur - mottó:

Það saxast á mannasiðina

sæmdin liggur í valnum.

Það hallast á ógæfuhliðina

og harðnar á vandræðadalnum.

-----------------------------------

Dæmalaust er hann Davíð ennþá kartinn

dregur upp úr pyttinum stórgróðaliðið.

Það hlær í manni anskotans kvikindisartin,

enda er Glitnir kominn á rassgatið - ið

 

Mikil er þó lukka lýðfrjálsra þjóða,

líflína til sem kemur í veg fyrir hrapið,

einkavæða ágirnd og milljónagróða.

Eftir hrunið síðan að þjóðnýta tapið.

 

Um snilldina tæra við sjáum víða merkin

vesalingarnir týna upp lambaspörðin.

Ráðgóðum verða notadrjúg næturverkin,

nú má rifja upp heilræðið - öxin og jörðin.


Styttur bæjarins

Ég hef verið að spá í þetta með styttur bæjarins og karla og konur og alla þá umræðu.  Ég tók eftir því þegar við vorum í London fyrir tæpu ári síðan að þar voru mjög margar styttur hér og hvar.  Margar þeirra voru af einhverjum löngu dauðum herforingjum sem ég amk. hef ekki hugmynd um hverjir voru.  Mér fannst þessir herforingjastyttur dálítið fyndnar einhverra hluta vegna.  Þarna voru þessir herforingjar sem engir í dag vita hvorki haus né sporð á, sitjandi á hestum í fullum herklæðum, starandi með einhverri hernaðarlegri ákefð út í loftið.  Er þetta ekki bara einhver aldaspegill sem er að speglast í þessum herforingjastyttum þarna út í London?  Einhver áminning um það sem var?  Núna sitja herforingjarnir í byrgjum undir Pentagon og stara með hernaðarlegri ákefð á tölvuskjái ef maður á að trúa kvikmyndum.

Mín skoðun er sú að það eigi að setja fullt af styttum út um allt í Reykjavík og líka út um allt land ef menn eru þannig stemmdir.  En mér finnst líka að það vanti fleiri styttur af fullklæddum nafngreindum konum.  Ég held að það væri bara réttast til að ná fullri sanngirni og jafnrétti að skella út tveim og tveim styttum í einu, einni af karli og annari af konu.  Styttu af Tómasi og aðra af Ástu. 

Í framhjáhaldi við ég líka nefna að mér finnst að það ættu að vera miklu fleiri gosbrunnar og vatnshanar með drykkjarvatni út um allt.  Ég veit að það getur verið eitthvað vesen með vatnið út af öllu þessu frosti og þýðu dæmi í veðrinu en á þessu tæknivæddu tímum hlýtur að vera hægt að bjarga því.  Mér þykir alltaf frekar leiðinlegt að vatnshaninn hérna niðurá göngustígnum við Ægisíðuna er alltaf bilaður. 


Haustlitir

Það voru fallegir litir í kringum Suðurgötuna við kirkjugarðinn í morgun.  Við vorum að keyra frá hringtorginu Suðurgötuna að Skothúsveg og ég rétt náði að virða fyrir mér trén í kirkjugarðinum og götumyndina.  Það er komin fallegar litasetteringar í trén og það var verulega fallegt að horfa norðureftir Suðurgötunni í morgun.

Mér finnst oft Reykjavík vera falleg á morgnanna þegar ég er að keyra leiðina yfir Skothúsveginn og yfir að Fríkirkjuvegi.  Tjörnin, trén og húsin allt getur verið bara nokkuð falleg oft á morgnanna en ég held að mér finnist það oftast á haustin.


Lögreglutölfræði

Ég las núna í morgun frásögn ungrar konu sem varð vitni að áras manns á vinkonu hennar í miðbænum.  Vinkonurnar höfðu samband við lögregluna þar sem þær lýstu árásarmanninum og árásinni.  Daginn eftir höfðu þær síðan aftur samband við lögregluna til að grennslast fyrir um það hvernig gengi með málið og hvort búið væri að handtaka manninn.  Þá var ekkert slíkt mál á skrá lögreglunnar og enginn kannaðist við nokkurn hlut.

Það hefur verið ýjað að því að innbrot og ýmis afbrot gegn fólki sé að aukast hér í Reykjavík.  Haldinn var m.a. fundur í Seljahverfi þar sem íbúar lýstu yfir áhyggjum sínum af fjölda innbrota i hús í hverfinu m.a. yfir hábjartan daginn meðan fólk sinnir sinni vinnu eða bara rétt bregður sér af bæ.  Lögreglan var þar til svara og hélt því fram að innbrot í hverfinu hefðu ekkert aukist.  Þetta væri allt bara á svipuðum nótum og áður hefði verið.  Svipuð svör hafa fengist varðandi önnur afbrot, jafnvel þótt mönnum hafi fundist að hér sé um töluverða aukningu að ræða frá því áður var.  En ef lögreglan er ekkert að skrá tilkynningar um innbrot og árásir þá er ekkert sérkennilegt við það að menn þar á bæ verði ekki varir við aukningu afbrota frá því sem áður var.


Veðursár

Ég er alltaf að berjast við eitt karaktereinkenni hjá sjálfri mér.  Ég er semsagt veðursár.  Þegar ég var yngri gat ég látið veðrið fara eitthvað rosalega í taugarnar á mér.  Ég man að pabbi sagði einhvern tímann við mig þegar ég var á Króknum og veðrið á staðnum mér ekki að skapi - Guðrún vertu ekki svona veðursár. 

Ég læt ekki stjórnast of mikið af veðursárindum og reyni að takast á við þetta einkenni mitt en ég játa að ég fann fyrir veðursárindum núna um helgina.  Sýnist sem svo að veðrið þetta haust ætli að verða frekar leiðinlegt og ég þurfi að finna mér einhvern krók á móti bragði.


Ein milljón eða tvær

Í gær voru menn í kringum mig að spá í eignir sínar í bönkunum og hvort þær væru tryggðar ef bankarnir færu nú flatt og yrðu hreinlega gjaldþrota.  Ég hélt að 1,7 milljónir króna innistæður í banka væru tryggðar af einhverjum tryggingarsjóði en var þó ekki viss.  Las síðan í gærkvöldi að um er að ræða um 2,5 milljónir króna.  Í þeirri grein var síðan þessi gullvæga setning - fólk sem á meira en þessa upphæð í banka á bara að dreifa upphæðunum milli bankanna.

Ég er ekki mikið með nefið ofaní hvers manns koppi né buddu en það er einn fullorðinn einstaklingur sem ég veit fyrir vissu að á meira en 2,5 milljónir króna á bankabók.  Umræddur einstaklingur er orðinn 82 ára gamall.  Mér er það mjög til efs að hann hafi fylgst með umræðum um hugsanleg gjaldþrot bankanna né að hann eigi bara að dreifa milljónunum sínum á milli bankanna til að vera öruggur um það að tapa öllu sparifénu nema títtnefndum 2,5 milljónum.  Ég þarf að drífa mig í að hringja í viðkomandi einstakling og útskýra fyrir honum að nú skuli hann bara drífa sig í að dreifa sparifénu sem víðast í bankana til að tryggja öryggi sitt.


Bara gera meira næst

Hér var afmælisveisla í gær.  Sonurinn verður fjórtán ára á morgun, sextánda september og við héldum uppá þann áfanga í gær.  Þetta var ekki stórt partý, aðeins nánasta fjölskylda mín sem var boðin til veislu.

Afmælisbarnið fékk að ráða veisluföngum og hann pantaði eina Pavlovu sem er hans uppáháldsterta.  Svo gerði ég eina nýja uppskrift, berjatertu en pabbi og mamma eru í bænum og höfðu með sér yndislega góð fersk aðalbláber úr Skagafirði.  Til að balansera þessi sætindi bauð ég síðan uppá heita brauðréttinn minn sem er mitt klassíska meistarastykki og vekur alltaf lukku.  Ég gerði bara einn skammt í þetta sinn af því mér fannst ekki það margir í veislunni.   Brauðrétturinn kláraðist fyrst af öllu og Kristel Eir, 11 ára frænka mín kvaddi mig í veislulok með þessum orðum:,, Gúa, brauðrétturinn þinn er alveg rosalega góður.  Mundu bara að gera meira af honum næst."  


Jafnlaunavottun

Ég get ekki að því gert en ég hef ekki mikla trú á þessu nýjasta jókerspili til að jafna laun kynjanna.  Jafnlaunavottun.  Hvaða ávinningur á að vera fyrir fyrirtæki til að fá þessa vottun ég spyr bara.  Núna viðgengst launamisrétti kynja í landinu hjá fyrirtækjum og stofnunum.  Þessi launamismunur viðgengst án þess að fyrirtæki eða hið opinbera skaðist á nokkurn skapaðan hlut.  Því í ósköpunum ættu þessi fyrirtæki og opinberar stofnanir að fara út í þann kostnað og naflaskoðun sem það væri að fá Jafnlaunavottun?  Nema það sé opinber stefna að opinberar stofnanir og fyrirtæki verði skyldug til að kaupa vörur og þjónustu aðeins af fyrirtækjum sem hafi slíka Jafnlaunavottun.  Að kaupa vörur og þjónustu frá fyrirtækjum sem ekki hefðu slíka vottun væri hreinlega bannað.  Þá etv. gæti slíkt fyrirbæri farið að bíta.  Fyrr ekki. 

En þá væri rétt að byrja á þar og setja slíkt bann í lög og reglugerðir.  Tímasetja það svona tvö ár fram í tímann.  Á þeim tíma ætti að gefast tækifæri til að koma á vottunarferlinu og votta fyrirtæki og hið opinbera í bak og fyrir.  Það er ef menn eru að meina eitthvað með þessu.  Sem eins og fram hefur komið ég hef ekki nokkra trú á.  Tel að hér sé verið að setja fram enn eitt jókerspilið á spilaborðið og að réttara væri að leiðrétta laun kvennastétta og kvenna og meta þeirra störf, nám og ábyrgð til jafns við karlastéttir og kara.  Byrja á því að leiðrétta laun ljósmæðra.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband