Hvað er málið
16.4.2008 | 07:41
Hvað er málið með okkur Íslendinga og menn sem fara um með ofbeldi. Ég er ekki alveg að átta mig á því. Er það málið að fórnarlömb ofbeldis verða að kæra sjálf til þess að eitthvað sé gert í málinu? Mér skylst að ekki sé hægt að gera neitt hér á landi gagnvart misyndismönnum frá öðrum löndum fyrr en lögregla í heimalandi þeirra sendi hingað til lands handtökuskipun eða einhverja skipun. Hvernig á útlenska lögreglan að vita að maðurinn sem þeir eru að leita að sé staddur hér á Íslandi? Ég fæ engan botn í það eftir umfjöllun síðustu daga.
Ég sem hélt að hægt væri að kæra fólk sem færi um með ofbeldi og væri með blóðug verkfæri í bílunum hjá sér eftir slíkar ofbeldisheimsóknir. Það er semsagt miskilningur hjá mér. Ég skil umfjöllun síðustu daga í fjölmiðlum með þeim hætt að til þess að hægt sé að taka slíka menn úr umferð og kæra fyrir lögbrot þá verði fórnarlömbin sjálf að kæra. Í gær kom ræðismaður Póllands sem ég held að sé staðsettur í Noregi og sagði að pólverjar væru ekki nægilega hræddir við íslensku lögregluna. Hann vildi að íslenska lögreglan færi í skóla til Póllands til þess að læra af pólsku lögreglunni. Ég veit ekki hvað það ætti að bjarga málum fyrst ekki virðist hægt að kæra mennina sem eru með ofbeldi og læsa þá bak við lás og slá og senda þá síðan heim til sín. Það virðist ekki vera hægt í dag nema til komi beiðni um slíkt frá heimalandi þeirra. Miðað við minn skilning á umfjöllun síðustu daga um erlenda misyndismenn á Íslandi þá er það málið.
Peysufatadagur
11.4.2008 | 10:31
Kvennaskólans í Reykjavík er í dag. Dansfélagi dótturinnar kom og náði í hana kl. átta í morgun. Elinborg Hulda, dóttir mín er í upphlut sem ég á en sá upphlutur á sér nokkra sögu. Ömmur mínar tvær, amma Ása og amma Gunna notuðu báðar mikið íslenska þjóðbúninginn og þær áttu báðar bæði upphlut og peysuföt. Amma Ása notaði töluvert það sem hún kallaði fljótbúninginn, en þá fór hún bara í þjóðbúningapilsið sitt og var síðan í svartri gollu og hafði sjalið yfir öllu saman. Þá sást ekki að hún var hvorki í þjóðbúningapeysunni né upphlutnum innan undir. Amma Gunna var öllu hátíðlegri í sinni umgengni um búninginn og man ég ekki eftir því að hún hafi nokkurn tímann notað slíkan fljótbúning. Alltaf ef eitthvað markvert var í gangi hjá fölskyldunni og á hátíðisdögum fóru ömmur mínar í íslenska þjóðbúninginn.
Þegar farið var yfir bú ömmu Gunnu við lát hennar kom í ljós að hún hafði átt þjóðbúninga eða búningasilfur handa dætrunum sínum. Mamma og móðursystur mínar hafa hins vegar ekki haft áhuga á því að eiga né skarta slíkum búningum. Mamma mín arfleifði mig því af því búningasilfri sem féll í hennar skaut. Ég fékk þar með silfurmyllur, beltissylgju og silfurhólk. Með þetta silfur í farteskinu dreif ég mig siðan á námskeið í þjóðbúningasaumi hjá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands, þar sem ég saumaði minn upphlut með mikilli hjálp og aðstoð hennar Vilborgar, sem kenndi námskeiðið þegar ég fór. En mig vantaði borða á upphlutinn og ég vildi bara balderaða borða og alltaf jafn bjartsýn fór ég á námskeið í baldýringu. Þvílikt mál að baldera - það gékk ekki vel hjá mér og mér tókst ekki að klára borðana mína. Mamma tók því þá ákvörðun þegar ég varð fertug að gefa mér í afmælisgjöf balderaða borða á upphlutinn minn.
Þar með var upphluturinn minn kominn og verð ég að segja að dóttirin var bara nokkuð fín í morgun í upphlut móður sinnar og með gamla svarta sjalið hennar ömmu Ásu. Ég virðist vera eitthvað hrædd um það, því ég sagði amk. fjórum sinnum við hana Elínborgu Huldu þar sem hún sveif á vit peysufatadagsins - þú verður að passa sjálið -
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gangastúlkan
8.4.2008 | 18:06
Ég vann eitt sumar á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki sem gangastúlka. Ég var á þeim tíma eitthvað að spá í að læra að verða sjúkraþjálfari eða eitthvað annað heilsutengt. Tók þá skynsömu ákvörðun að reyna að fá einhverja vinnu á sjúkrahúsi til þess að prófa hvernig mér líkaði vinna á slíkum stað. Pabbi minn fór af stað og bað Sæmund Hermanns á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki um vinnu fyrir mig. Það tókst og sumarið sem ég var átján ára vann ég sem gangastúlka á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki. Fyrsta morguninn sem ég mætti var ég sett nýgræðingurinn í að hjálpa til við að baða mann sem hafði dottið af hestbaki og lá rúmfastur. Það fannst mér erfitt. En erfiðasta verkið sem ég fékk sem gangastúlka var að hreinsa upp ælu. Það er mér næsta ógerlegt verð ég að játa og ég kvaldist þvílíkt ef ég varð að stunda slíkt hreinsunarverk.
Í nótt vöknuðum við upp við það að sonurinn þrettán ára kallar fram- ég var að æla. Faðir hans fór strax á stjá en móðirinn kúrði sig smá stund undir sænginni og herti upp hugann. Sonurinn hafði fengið svo hastalega ælupest að hann rétt náði að setjast upp áður en spýjan kom. Koddinn, sængin, lakið, rúmið já já allt undir lagt. Sem betur fer er Gunnar nokkuð harður af sér í æluhreinsunum og hann náði að græja heilmikið áður en mér tókst að hafa mig framúr og í slaginn. Ég setti öll rúmfötin strax í þvottavél þótt klukkan væri þrjú um nótt og ákvað að hitt fólkið í húsinu yrði bara að þola það þótt ein þvottavél færi í gang um miðja nótt. Pilturinn hefur verið heima í dag og ekkert ælt meira. Mér hefur hins vegar ekkert liðið allt of vel í allan dag hvort sem það er vegna æluhreinsunarstarfa eða eitthvað annað.
Og til að hafa það á hreinu þá ákvað ég strax haustið eftir gangastúlkusumarið mitt að ég skyldi horfa í aðrar átt eftir framtíðarstörfum en til heilsugeirans. Ég væri einfaldlega ekki nógu hörð af mér til þess að geta unnið svo vel væri við þau störf sem þar þarf að vinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í um 20 km NV af Gjögurtá
8.4.2008 | 07:24
er jarðskjálftahrina í gangi. Samkvæmt upplýsingum um jarðskjálfta á heimasíðu Veðurstofunnar mældust margir skjálftar þarna í gær. Eitthvað hafa umbrotin dottið niður í nótt. Það hlýtur að vera rætt um málið við Ragnar Skjálfta um þessi umbrot og hvað þau þýða en hann er fluttur norður í Svarfaðardal.
Mér er mjög minnistætt þegar Óskar í Dæli sagðist sem barn hafa verið mjög hræddur við jarðskjálfta og snjóflóð. Ég hef aldrei verið hrædd við jarðskjálfta en ég man eftir mjög stórum skjálfta sem var á Húsavík. Held jafnvel að hann sé kallaður Húsavíkurskjálftinn, er samt ekki viss. Fólk þusti út úr húsunum sínum svo mikill var skjálftinn og ég man að mér fannst það merkilegt að sjá fólkið úti í myrkrinu í náttfötunum. Annað sem mér fannst merkilegt voru hljóðin sem fylgdu skjálftanum. Það voru nefnilega einhver einkennileg urghljóð sem komu úr jörðinni að því mér fannst. En ég var svo mikill krakki að í minningunni fannst mér þetta meira merkilegt allt þetta hafarí heldur en að ég hafi eitthvað orðið hrædd við skjálftann. Snjóflóð voru ekki rædd mikið á Húsavík í gamla daga og ekki var mikið um það umræðuefni í Borgarnesinu. En fólkið í Skíðadal þekkir til þeirra hörmunga sem snjóflóð og jarðskjálftar geta valdið.
Vetrarþjónusta
5.4.2008 | 08:39
Ég er búin að vera á ráðstefnu Vegagerðarinnar um vetrarþjónustu síðustu daga en hún var haldin á Akureyri. Prófaði reyndar sjálf á eigin skinni að keyra afleggjara heim að einum bæ í Skíðadalnum þar sem ekki er nein vetrarþjónusta frá Vegagerðinni. Þvílíkur munur það var alveg ótrúlegt fannst mér þessu malbiksbarni. Leiðin frá Akureyri heim að afleggjaranum var næsta snjólaus, en þegar ég kom að Skíðadalsafleggjaranum þá var komin dálítil snjókoma, einnig smá skafrenningur þannig að skyggnið fór minnkandi. En það var ekki neinn snjór að ráði á veginum og allt í góðum gír að því mér fannst. Síðan kem ég að afleggjaranum að Syðra-Hvarfi og brá í brún. Þar voru töluverðir ruðningar við veginn heim að bænum og farið að skafa í ruðninginn. Ég setti nú samt bílaleigubílinn í fyrsta gír og tók ákvörðun að reyna við afleggjarann. Mér fannst í raun ótrúlegt að það gæti verið svo mikill munur á færðinni frá því að vera að keyra eftir næsta snjólausum aðalvegi að fara yfir á heimreið sem væri ófær. Til að gera langa sögu stutta þá komst ég hálfa leið að bænum, ákvað að fara ekki lengra á bílaleigubílnum, tókst að snúa honum við og gékk töluverða leið heim að bænum. Þegar ég var þangað komin og búin að fá gott kaffi og meðlæti hjá tengdamömmu þá hringdi ég í svila minn til að fá aðstoð við að komast aftur út á veg. Ég var nefnilega með það á hreinu að ég kæmist ekki upp stóra brekku sem er á þessari leið. Hann Ingi Björn, svili minn kom síðan á jeppanum og aðstoðaði mig upp stóru brekkuna og keyrði á undan mér niður á aðalveginn.
Enn og aftur þá verð ég að segja að ég varð mjög undrandi á því hvað afleggjarinn var illfær. Það hafði snjóað um síðustu helgi blautum snjó og þá hafði afleggjarinn verið ruddur og voru ruðningarnir eins og stórar klakabrynjur sitt hvoru meginn við veginn. Síðan bara snjóaði og snjóaði og renndi og renndi og allur sá snjór og renningur datt niðrá veginn á milli ruðninganna.
Ég var mjög heppin að lenda ekki í neinu brasi, ég komst yfir versta hjallann og mér tókst að snúa bílaleigubílnum við. En þvílíkur munur á vegi sem er uppbyggður og með vetrarþjónustu Vegagerðarinnar og heimreið að bæ þar sem ekki er um slíka þjónustu að ræða. Og hvað getur snjóað mikið á stuttum tíma í Skíðadalnum. Dal einn vænan ég veit, en eins og tengdamamma mín sagði við mig - Guðrún mín, þú hefur svo lítið þekkt dalinn væna í vetrarbúningi, þú ert svoddan sumarbarn hérna í dalnum. Það er svo sannalega satt en núna er ég reynslunni ríkari.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hlauptu Gúa, hlauptu
1.4.2008 | 18:44
Að rækta sínar eigin kartöflur
29.3.2008 | 09:12
Við hjónin höfum ræktað okkar eigin kartöflur frá okkar fyrstu tíð. Við höfum leigt garðland uppí Skammadal það sem við höfum sett niður kartöflur á hverju vori síðan við hófum búskap. Fyrstu árin fóru í það að læra á þessa ræktun ekki síst hvernig hagstæðast væri að standa að henni þannig að sem minnsti tími fari í hana. Eftir bráðum tuttugu ára reynslu erum við orðin nokkuð góð í kartöfluræktinni og erum búin að finna út hvernig okkur finnst hagstæðast og best að stunda hana. Núna í lok mars erum við ennþá að borða okkar eigin kartöflur og eigum eitthvað eftir af uppskeru haustsins. Við erum svo heppin að fá að geyma kartöflurnar í kartöflugeymslu hjá frænda Gunnars, en það er að mínu mati eitt af aðalatriðunum við kartöfluræktunina - að hafa góða kartöflugeymslu.
Ég hef orðið vör við það að fólki finnst það frekar fyndið að við séum að standa í þessum kartöflubúskap við hjónin. Ég hef haft á tilfinningunni að þetta bardús okkar þyki sérviskulegt, hallærislegt og jafnvel molbúalegt. Kannski hefur mér eitthvað sárnað þetta viðhorf sem lýsir sér í þessum hugleiðingum hjá mér núna. Skal ekki um það segja en eitt get ég sagt - bestu kartöflur í heimi eru mínar eigin ræktuðu kartöflur úr Skammadal.
Þegar okkar kartöflur eru uppurnar, sem er yfirleitt svona um miðjan júni þá geri ég á hverju ári heiðalega tilraun til að kaupa þær kartöflur sem þá standa neytendum til boða. Á hverju ári kemst ég að þeirri niðurstöðu að þær kartöflur séu vondar. Því kaupi ég helst aldrei neinar kartöflur úr búð nema bökunarkartöflur á grilltímabilinu. Og þess vegna hef ég ekki orðið vör við að kartöflur hafi núna hækkað um tæp 25% í búðunum.
Afmælisbörn
22.3.2008 | 21:21
Ég á afmæli í dag og ákvað núna rétt áðan að blogga afmælisblogg í tilefni dagsins. Sá í Fréttablaðinu í morgun að þýski leikarinn Bruno Ganz á einnig afmæli í dag.
Ég fór til Nurnberg fyrir tæpum tveimur árum og datt þá í töluverða Hitlers og nasistatímapælingar. Það var auðvitað út af staðnum Nurnberg sem var þeirra höfuðvígi. Einn daginn fór ég í skoðunarferð um Nurnberg og nágrenni. Í þeirri skoðunarferð var ég eini útlendingurinn allir hinir í um 60 manna hóp voru þjóðverjar. Ég átti ekki von á þessu þar sem ég var á alþjóðlegri ráðstefnu og hélt að fleiri útlendingar yrðu með í þessari skoðunarferð. Ég ákvað að láta á engu bera og þykjast alveg skilja þýskuna þótt það sé eldgömul svona og svona menntaskólakunnátta sem ég hef á því tungumáli.
Þegar líða tók að hádegi þá voru þjóðverjarnir farnir að uppgötva að það voru ekki bara þjóðverjar í ferðinni heldur væri einnig með í för einn lítill Íslendingur. Ég var töluvert hissa á því hvað þjóðverjarnir voru spenntir fyrir því að hitta fyrir Íslending og voru áfjáðir í það að fá skoða slíkan grip í návígi. Þarna voru m.a. hjón frá Hamborg og sagði konan við mig að hana hefði alltaf langað að hitta Íslending og hún hefði oft verið að spá í það þegar hún var um borð í flugvélum á ferðalögum erlendis að etv. væri Íslendingur um borð í vélinni. Og svo færi hún í skoðunarferð um Nurnberg og sæti þá allt í einu við hliðina á Íslendingi við hádegismatarborð.
Ég varð að játa að öll þessi athygli og þessar Íslendingapælingar þeirra þjóðverja sem voru í skoðunarferðinni þennan dag kom mér mjög á óvart. Ég reyndi mitt besta að gera þjóð minni gott til og að skemma eins lítið og mér var unnt fyrir þeim góðu og etv. smá ídaliseruðu hugmyndum sem þjóðverjarnir höfðu um Íslendinga.
Ég var orðin uppgefin þegar ég komst loks heim á hótelherbergi um kvöldið og kveiki á sjónvarpinu. Þar var þá staddur hann Bruno Ganz, sem á þá semsagt sama afmælisdag og ég og var að leika hann Hitler í myndinni Der Untergang. Ég tók þá ákvörðun þar sem ég væri orðin svo gegnsýrð af þýsku þá gæti ég alveg bætt við mig eins og einni þýskri bíómynd. Ég er síðan staföst í þeirri trú minni að þessi rúmlega hálfi þýski sólahringur hafi bætt heilmiklu við þýskukunnáttu mína og þá aðalega skilning minn á talaðri þýsku. Hvort ég skil hið talaða þýska orð rétt eður ei - det er et andet sporgsmal.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hækkun í hafi
20.3.2008 | 09:20
Ég tók eftir því í vikunni að rætt var við verslunarmenn sem sögðust vera að reyna að halda aftur af því að hækka vörurnar í hillunum hjá sér en það væri erfitt þegar krónan væri í frjálsu falli. Ég hef kannski eitthvað mskilið kaupmennina því ég skildi þá þannig að þeir gætu hækkað verð á þeim vörum sem þeir væru þegar komnir með í hús.
Nú er ég hvorki kaupmaður né heildsali en ég hef staðið í þeirri trú að verðmyndun á vörum sem fluttar væru inn til landsins væri með þeim hætti að verð vörunnar í íslenskum krónum ,,yrði til" þegar varan væri leyst úr tollinum. Þá væri borgað fyrir vöruna í íslenskum krónum á því gengi sem í gildi væri þá stundina. Þar með myndaðist grunnur fyrir verðið á vörunni í íslenskum krónum. Er þetta einhver vittleysa í mér?? Er hér á landi eitthvað annað ferli í gangi varðandi verðferli á innfluttum vörum sem ég þekki ekki til? Vöruverðsferli sem gengur út á það að vörur séu í hillunum og verð á þeim hækki síðan eftir því hvert gengi krónunnar er í það og það skipti??
Það væri gott ef einhver spekingur myndi stíga fram á sjónarsviðið og skýra út fyrir okkur með hvaða hætti vöruverð væri reiknað út þannig að maður hefði betri forsendur til þess að fylgjast með. Það að hvetja almenning til ráðdeildar er gott og blessað en fyrst og síðast verður hinn almenni neytandi að hafa forsendur til að meta hvort rétt sé að farið hjá þeim aðilum sem neytandinn er að versla við.
Sænska hetjan
16.3.2008 | 09:09
Ég tók mig til í gærkvöldi og fylgdist með sænsku lokakeppninni í evróvisione á sænska 1. Veislan var haldin í Globen í Stokkhólmi og mikið stuð á mannskapnum. Ég hafði hlustað á 5 lög sem komust í úrslit og eitt af þeim var lagið Hero með Charlotte Perrelli (áður Nilsson).
Svíarnir eru með mikið system varðandi val á sigurlaginu, bæði voru þeir með dómnefndir út um alla Svíþjóð sem gáfu lögunum stig. Lagið Hero var með flest stigin eftir þá yfirferð, en þá komu til skjalanna stig gefin af almúganum með símakosningu sem gaf hins vegar laginu Emty rooms flest stig en Hero næst flest stig þannig að það lag fer í keppnina í Serbíu. Ég var ekki alveg límd við skjáinn allan tímann sem keppnin fór fram og stigatalningin en mér fannst þetta vera spennandi keppni og skemmtilegra sjónvarpsefni en hefur verið nýtt hér á landi þar sem bara er talið niður niður 3-2-1 og byrja að kjósa og síðan eru bara þrjú umslög með niðurstöðum sem eru tilkynnt lýðnum. Væri hægt að gera meira úr þessu hér á landi finnst mér. Og jafnvel þótt Jói bróðir vinni hjá Símanum og reyni að telja mér trú um að þetta sé allt faglega og vel unnið þá spyr ég nú sjálfa mig stundum að því hvort það sé alveg örugglega rétt talið í símakosningunum. Talning atkvæða er dálítið mikið á bak við fjólublá tjöld fyrir minn smekk.
En hvað sem allri leynd varðandi símakosningar áhrærir hér á landi og í öðrum löndum þá vann hún Charlotte keppnina í gær en hún hefur verið með í norrænu panelen að dæma lögin í evróvision nokkrum sinnum og verið skemmtileg og fín þar amk. Og mér fannst hennar flutningur í gærkvöldi vera bestur af þeim sem ég sá, mjög örugg og flott söngkona. Og þar sem lagið er töluvert evróvisionformúlulegt þá er aldrei að vita nema þetta lag komist langt í keppninni. Nema sú ósk sé þessi týpískur evrópski evróvisione- nágrannakærleikur hjá mér.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)